Færslur marsmánaðar 2007

„Hagrænir hvatar“ í skólakerfinu

Laugardagur, 31. mars 2007

Eitt af því marga sem hefur áhrif á hegðun fólks er vonin um að eignast peninga eða óttinn við að tapa þeim.

Fyrir stuttu voru sektir fyrir að aka of hratt hækkaðar. Þetta var væntanlega gert til að fækka slysum frekar en til að fá meira sektarfé í ríkissjóð. Þótt flestir aki á skaplegum hraða af umhyggju fyrir eigin velferð og annarra, eða með öðrum orðum til að forðast slys, hafa hærri sektir væntanlega áhrif á hegðun nokkuð margra ökumanna.

Hagrænir hvatar eru notaðir til að stjórna fleiru en aksturslagi fólks. Við Háskólann í Reykjavík fá þeir sem ná bestum árangri í námi skólagjöld endurgreidd. Vonin um slíka endurgreiðslu hvetur væntanlega einhvern hluta nemendahópsins til að leggja sig fram og stuðlar þannig að betri námsárangri.

Hagrænir hvatar sem að verki eru í menntakerfinu hafa ekki aðeins áhrif á nemendur. Þeir virka líka á starfsmenn og stjórnendur skóla. Sumir þeirra hafa góð áhrif eins og þessi sem ég tók dæmi af úr Háskólanum í Reykjavík. Aðrir hafa vond áhrif.

Fyrir stuttu birti ég grein í Þjóðmálum þar sem ég útskýrði hvernig núgildandi reglur um rekstur framhaldsskóla gera það hagkvæmt fyrir skólana að bjóða nemendum sem flestar einingar með sem minnstri fyrirhöfn. Það má orða þetta svo að hagrænir hvatar sem menntamálaráðuneytið og fjárveitingavaldið hafa búið til vinni gegn því að framhaldsskólarnir hvetji nemendur til að vinna mikið og erfiða með þroskavænlegum hætti. (Greinin liggur hér frammi.)

Ég hef stundum undrast hvað hagrænir hvatar eru stundum notaðir illa og vitlaust í opinberum rekstri. Sem dæmi má taka að ríkið greiðir skólum aðeins fyrir þá nemendur sem mæta í próf (eða gangast undir fullnægjandi námsmat). Greiðslan er aðeins háð því að nemandi segi sig ekki úr áfanga heldur sé með til loka og komi í próf. Hún er algerlega óháð því hvaða árangri nemandi nær á prófinu.

Þetta ýtir undir að skólar reyni að fá nemendur til að vera með til loka og telja þá sem vilja hætta af að gera það.

Nú er margt sem bendir til að símat (þ.e. að byggja einkunn fyrir áfanga á mörgum verkefnum og prófum sem nemandi lýkur með stuttu millibili) bæti í mörgum tilvikum árgangur nemenda. Það hvetur þá til að vinna jafnt og þétt og gefur þeim upplýsingar um hvernig þeir standa sig með stuttu millibili. Einn af fylgifiskum símats er að nemendur sem ekki standast námskröfur vita oft af því fyrir annarlok að þeir séu fallnir. Undir slíkum kringumstæðum vilja nemendur gjarna skrá sig úr áfanga sem er hvort eð er búið spil. Þeir hafa þá rýmri tíma til að ná tökum á efni hinna áfanganna sem þeir eru skráðir í. En þetta er óhagstætt fyrir skóla. Hagrænir hvatar ýta því undir að skólar láti lokapróf hafa mikið vægi og nemendur fái ekki að vita fyrr en að því loknu ef staða þeirra er vonlaus. Skólar eru með þessu hvattir til að haga námsmati og endurgjöf til nemenda á annan hátt en þann sem helst mundi ýta undir iðjusemi og góðan námsárangur.

Þetta er eitt dæmi um gallaðan hvata í skólakerfinu. Ég býst við að hann stuðli að því að verkefni sem unnin eru á önninni og vega sem hluti af lokaeinkunn hafi annað hvort lítið vægi eða séu þannig að lágar einkunnir (falleinkunnir) séu sjaldgæfar og þeir sem falla falli heldur á lokaprófi. Þetta þýðir að skólar eru lattir til að láta nemendur taka mikið á fyrr en í annarlok þótt betra væri fyrir þá að stæla kraftana allan tímann.

Rímur

Fimmtudagur, 29. mars 2007

Þegar ég er einn á ferð í bíl hlusta ég á Silfuplötur Iðunnar. Þetta eru meira en 70 ára gamlar upptökur af rímnasöng. Á plötunum eru alls 200 stemmur og þessir gömlu kvæðamenn syngja ótrúlega vel. Með þá í för verða allar bílferðir skemmtilegar og ég hef verið á talsverðu renneríi upp a síðkastið, því ég hef þurft að heimsækja læknastöð í Kópavogi, þar sem lagt er á ráð um hvernig hægt muni að laga skinnið á fingrunum á mér. Það hefur verið heldur aumt undanfarna mánuði vegna ofnæmis og sýkingar ofan í það.

En ég var að tala um rímur. Frá og með síðustu áramótum hef ég kynnt eitt ljóðskáld í viku hverri á vef skólans. Ég held mig við skáld sem tengjast Vesturlandi (hafa fæðst, alist upp eða búið í fjórðungnum) og ég kynni til skiptis karla og konur. Ég ætla að halda þessu áfram út árið sem þýðir að ég þarf að finna 26 ljóðskáld af hvoru kyni.

Fyrst óttaðist ég að það yrði erfitt að finna 26 skáldkonur af Vesturlandi því í bókmenntasögunni er ekki getið svo margra. En eftir að Bragi Þórðarson hjá Hörpuútgáfunni benti mér á heimildir áttaði ég mig á því að þessi skáldkvennafæð í bókmenntasögunni stafar af því hvernig hún er skrifuð, en ekki af því að svo fáar konur hafi ort.

Mest af því sem konur fyrr alda ortu var líklega alþýðukveðskapur, vísur, rímur, barnagælur og því um líkt og íslensk bókmenntasaga, eins og Sigurður Nordal ákvað að hún ætti að vera, er aðalega saga um bókmenntir lærðra manna sem hægt er að tefla fram sem íslenskum fulltrúum alþjóðlegra hreyfinga í menningarlífi. Þessir lærðu menn voru rómatísk skáld eða raunsæisskáld eða módernísk skáld eða með einhverjum öðrum hætti tengdir heimsmenningunni.

Þegar íslensk bókmenntasaga er sögð svona týnist merkasta framlag hérlendra skálda frá 15. öld og fram undir okkar tíma sem eru rímur og annar alþýðukveðskapur ásamt þjóðsögunum. Þessi arfur frá körlum og konum sem lifðu skammdegið af með því að segja sögur og kveða rímur á miklu meira erindi við heiminn en íslensk rómantík, raunsæi og módernismi sem eru hvort sem er ekki nema skugginn af því sem fram fór á stærra sviði suður í álfu.

Læt ég þessu spjalli nú lokið með þrem erindum úr Breiðfirðingavísum Ólínu Andrésdóttur:

Hyldu ísar hafflötinn,
hætti að lýsa dagurinn,
ljóðadísin leit þá inn,
lagaði vísur hugurinn.

Vetrar löngu vökurnar
voru öngum þungbærar,
við ljóðasöng og sögurnar
söfnuðust föngin unaðar.

Ein þegar vatt og önnur spann,
iðnin hvatti vefarann,
þá var glatt í góðum rann,
gæfan spratt við arin þann.

Á eigin vegum eftir Kristínu Steinsdóttur

Miðvikudagur, 28. mars 2007

Í gærkvöldi lauk ég við að lesa bókina Á eigin vegum eftir Kristínu Steinsdóttur. Þetta er skáldsaga sem kom út hjá Vöku-Helgafelli á síðasta ári. Stíllin er svolítið líkur þeim sem ég þekkti af Sólin sest að morgni en þessi nýja bók er eiginlega enn betri.

Það er erfitt að lýsa þessari bók Kristínar. Á yfirborðinu virðist frásögnin afar einföld og segja frá ofurvenjulegri konu sem hefur farið á mis við ansi margt. Það segir ekki frá neinum stórviðburðum, bara venjulegu lífi.

Kannski er þessi bók svolítið eins og málverk Jóhanns Briem, sem er hægt að skoða í Listasafni Íslands um þessar mundir: Hún miðlar góðum hugsunum án þess að vera neitt að flækja málin. Kannski er hún líka eins og ljóðabók Ingunnar Snædal sem ég hafði fáein orð um í næstsíðustu færslu – bók sem er gott að lesa en ekki auðvelt að tala mikið um.

Það má svo sem velta því fyrir sér hvers vegna þetta er svona. Ein ástæðan er ef til vill sú að um sumt sem mestu varðar er gáfulegra að þegja en tala. Um það segir bókin ekki orð. Hún er bara einföld frásögn af lífi konu. En af svona bók nemur maður meira en orðin segja. Það er víst kallað að lesa milli línanna. Og nú legg ég til að lesandi hætti af vafra um netið og nái sér í þessa ágætu bók.

Björgvin „jöfnuðarmaður“

Þriðjudagur, 27. mars 2007

Málfarsfasistinn, sem situr í vinstra heilahvelinu á mér og lætur yfirleitt fara lítið fyrir sér, ræskti sig nokkrum sinnum í morgun þegar ég var að lesa blöðin. Þegar skrif Björgvins G. Sigurðssonar bárust af tólftu síðu Blaðsins eftir sjóntauginni gargaði hann. Björgvin, sem er í jafnaðarmannaflokki, segir orðrétt og stafrétt: „Það er krafa um breytingar í átt til jöfnuðar og frjálslyndis.“ Ætli Björgvin sé hættur að vera jafnaðarmaður?

Það má kannski fyrirgefa Björgvini hvernig hann beygir nafnið á stjórnmálastefnunni sem hann aðhyllist og ég ætla ekki að láta málfarsfasistann í mér ráða því að öllu leyti hvað mér þykir um skrif hans.

Í grein sinni stingur Björgvin upp á að kennslubækur fyrir nemendur í framhaldsskólum verði borgaðar af ríkinu. Hann orðar þetta reyndar svo að þær verði ókeypis en ég hef nú ekki mikla trú á að höfundar og útgefendur séu til í að gefa framleiðslu sína. Það væri forvitnilegt að vita hvort Björgvin gerir ráð fyrir að skólar og kennarar geti áfram valið hvaða kennslubækur þeir nota og ríkið borgi orðalaust hvort sem valdar eru dýrar bækur eða ódýrar, íslenskar eða erlendar?

Til þessa hefur sveigjanleiki og fjölbreytileiki í vali á námsefni verið einn af kostum íslenskra framhaldsskóla. Það er virk samkeppni á námsbókamarkaði og kennarar geta í reynd valið bækur sem henta þeirra nemendum. Hætt er við að um leið og ríkið fer að greiða námsgögnin fari það líka að stýra því hvað má nota og við sem störfum í skólunum fáum miðstýringu og kerfisfargan í anda þess sósíalisma sem Björgvin kallar „jöfnuðarstefnu“ og heldur að sé frjálslyndur.

Ingunn Snædal, Jón Engilberts og Jóhann Briem

Sunnudagur, 25. mars 2007

Á föstudaginn keypti ég næstsíðasta eintakið af ljóðabókinni Guðlausir menn í bókabúðinni hérna við Kirkjubraut á Akranesi. Þessi bók er eftir Ingunni Snædal og kom út hjá bókaforlaginu Bjarti á síðasta ári. Ég las hana um kvöldið eftir að ég var búinn að fara yfir verkefni nemenda minna sem eru í fjarnámi í heimspeki. Ég veit ekki hvað það er við þessa bók en þegar ég var búinn með hana langaði mig að lesa hana strax aftur. Og ég gerði það. Ljóðinn í henni virðast einfaldleikinn sjálfur og ég átta mig ekki á því hvernig á að lýsa töfrum þeirra. Kannski á ekkert að gera það. Kannski á bara að láta sér duga að lesa hana.

Þótt ég geti ekki sagt hvers vegna er ég nokkuð viss um að þetta er merkileg bók sem er vel þess virði að lesa nokkrum sinnum. Það er líka vel þess virði að fara oftar en einu sinni á sýningu Listasafns Íslands á verkum Jóns Engilberts og Jóhanns Briem. Ég er búinn að fara einu sinni og ætla aftur. Þessir karlar voru miklir snillingar.

Það má margt gott segja um listasafnið við Fríkirkjuveg. Þar er gott að koma. Skoða sýningar og fá sér kaffi. Mér finnst samt vanta dálítið á að safnið kynni íslenska myndlist á vefnum. Sýningin á verkum Jóns Engilbert og Jóhanns Briem væri trúlega betur sótt ef sett hefði verið upp vefsíða með ljósmyndum af nokkrum verkum og svolitlum texta um þau. Menn gætu þá kynnt sér verkin, a.m.k. lauslega, og farið svo að sjá þau. Eitthvað þessu líkt gera sum listasöfn (eins og t.d. Munch safnið í Oslo) en á vef Listasafns Íslands eru sárafáar myndir.

Ungt fólk skoðar myndefni mun meira á vef en í bókum. Skólafólk leitar mest heimilda á vefnum. En þar er því miður lítið að finna af myndum Jóns Engilberts og Jóhanns Briem. Á vef sem Samband íslenskra myndlistarmanna heldur úti eru að vísu myndir af 5 málverkum Jóns og 6 myndum eftir Jóhann og það er hægt að finna nokkrar fleiri hér og þar eins og t.d. á vef gistiheimilisins Frost og funi.

Leitin að jöfnuði

Laugardagur, 24. mars 2007

Hannes Gissurarson á athyglisverða grein í Lesbók Morgunblaðsins í dag. Þar fjallar hann um jöfnuð og jafnrétti og bendir réttilega á það sem er of sjaldan rætt, að frjálshyggjan er byggð á jafnréttishugsjónum og stuðlar ekki bara að hagvexti heldur líka að jöfnuði. Hannes segir meðal annars:

Vald ríkisins skapar ójöfnuð, því að það er alltaf vald sumra yfir öðrum, hvað sem góðum fyrirheitum líður. Frelsi markaðarins skapar hins vegar jöfnuð, þegar það er fullt og jafnt frelsi allra. Þess vegna er þeim, sem eiga undir högg að sækja, meira skjól í markaðinum en ríkinu.

Áhrifamestu stjórnmálastefnur síðustu alda eru að minnsta kosti öðrum þræði einhvers konar leit að leiðum til að gera samfélagið að samfélagi jafningja. Sósíalistar leita leiða til að jafna hlut þegnanna með ríkis- og stjórnmálavæðingu á sem flestum sviðum mannlífsins og pólitískum ákvörðunum um úthlutun lífsgæða. Frjálshyggjumenn treysta fremur á markaðsvæðingu en ríkisvæðingu og reyna að tryggja öllum sömu frelsisréttindi með lögum og leyfa svo hverjum og einum að freista gæfunnar eftir eigin höfði. Hvorugum hefur í reynd tekist að skapa samfélag þar sem allir eiga álíka góðra kosta völ, njóta jafnrar virðingar og hafa sömu möguleika á að koma ár sinni fyrir borð og hafa áhrif. Leitinni að samfélagi jafningja er ekki lokið, markmiðinu er hvergi náð að fullu. En lönd og þjóðir hafa komist misnálægt því.

Eigi að meta hvor stefnan er meiri jafnaðarstefna í reynd, frjálshyggja eða sósíalismi væri kannski reynandi að bera saman lönd þar sem þessar stjórnmálastefnur hafa verið ráðandi og skoða hvar sé meiri félagslegur hreyfanleiki, meiri jöfnuður í lífskjörum, meiri möguleikar fyrir þá sem fæðast inn í lægstu stétt, meiri breidd í stéttarlegum bakgrunni þeirra sem komast í bestu skólanna, hafa áhrif í atvinnulífi og fara með pólitísk völd.

Í mínum huga er lítill vafi á því að frjálshyggjan á vinninginn í þeim skilningi að þar sem flokkar hallir undir hana hafa verið áhrifamiklir er jöfnuður meiri en þar sem sósíalistaflokkar hafa haft mest að segja. Hins vegar er flóknara mál að meta hvort miðflokkar (t.d. Framsókn á Íslandi og Radikale Venstre í Danmörku) hafa staðið sig betur eða verr en flokkar sem ganga lengra til móts við frjálshyggju (t.d. Sjálfstæðisflokkur á Íslandi og Venstre í Danmörku). Það flækir þennan samanburð að flestir stórir stjórnmálaflokkar í okkar heimshluta hafa stefnu sem sameinar frjálshyggjuhugmyndir og hugmyndir af ætt sósíalisma. Við höfum engin dæmi um samfélög þar sem hrein og klár frjálshyggja ræður ríkjum. Ég veit ekki með hreinan og kláran sósíalisma. Kannski var reynt að framkvæma hann í Albaníu og kannski er enn verið að reyna það í Norður Kóreu. Það er þó umdeilanlegt hvort stjórnarstefnan í þar er sósíalismi nema að nafninu til.

En þótt erfitt sé að komast að öruggri niðurstöðu um hverjir eru í reynd mestu og bestu jafnaðarmennirnir var gott hjá Hannesi að minna á að frjálshyggja á að minnsta kosti meira tilkall til þess en sósíalismi.

Blöðin í dag og grein um kvótakerfið eftir Örvar Marteinsson

Fimmtudagur, 22. mars 2007

Ég fæ þrjú dagblöð á hverjum morgni, eitt sem ég kaupi og tvö sem koma óumbeðið. Ég fletti þeim yfirleitt áður en ég fer í vinnunna bæði til að lesa fréttir og til að renna yfir aðsendar greinar. Ef til vill er það bara tilviljun en undanfarið hafa flestar aðsendar greinar sem mér sýnist vit í verið í Blaðinu. Mér þótti grein sem þar var á blaðsíðu 14 í dag til dæmis verulega góð. Hún er eftir mann sem ég veit engin deili á. Hann heitir Örvar Marteinsson og er titlaður sjómaður. Greinin ber yfirskriftina Björgvin bullar. Hún fjallar um kvótakerfið og tætir niður alla frasana sem hver hefur étið upp eftir öðrum svo árum skiptur um að upptaka þess árið 1983 hafi falið í sér eitthvert himinhrópandi óréttlæti.

Örvar þekkir málefnið sem hann fjallar um, er rökfastur og ákveðinn en missir sig hvergi í klisjur eða slagorðaglamur. Í miðri greininni segir hann:

Björgvin [G. Sigurðsson] segir örfáa hafa fengið yfirráð yfir hinni sameiginlegu auðlind og að mesta eignatilfærsla sögunnar hafi átt sér stað. Þetta eru mjög kunnuglegir frasar en að sama skapi með mjög hæpið sannleiksgildi. Það fengu jafnmargir yfirráð yfir auðlindinni eins og voru að nýta hana … Og það voru í sannleika sagt of margir. Um þessa ofsalegu eignatilfærslu má segja að fram að því að tekið var upp kerfi með framseljanlegan kvóta var bullandi tap í sjávarútveginum … Þessi eignatilfærsla var því tilfærsla á tapi, eða neikvæðri eign.

Kvótakerfið er í flokki með varnarsamningnum við Bandaríkin og Kárahnjúkavirkjum að því leyti að um það hafa stórorðir og yfirlýsingaglaðir kjaftaskar, flestir af vinstrikantinum, framleitt heilu gígabætin af blaðri. En nú eftir tæpan aldarfjórðung ætti öllum sem hugsa málið af yfirvegun að vera ljóst að úthlutun aflakvóta árið 1983 var skásta lausnin á erfiðum vanda sem þoldi ekki lengri bið. Það batt enda á áratuga rugl í sjávarútvegsmálum þar sem ríkið þurfti aftur og aftur að koma útgerðinni til bjargar með gengisfellingum og „efnahagsráðstöfunum“. Það stuðlaði líka að mikilli hagræðingu í greininni svo þar sem áður var tap er nú gróði og hann í sumum tilvikum svo mikill að öfundsjúkir menn sjá ofsjónum yfir því.

Þeir sem eru enn með vind í nösum yfir því að fiskveiðiheimildum skuli hafa verið úthlutað til þeirra sem sóttu sjó en ekki til annarra hafa mér vitanlega ekki bent á neina réttlátari leið til að takmarka veiðar án þess að setja allt á hausinn.

Um meint ranglæti kvótakerfisins skrifaði ég annars grein sem birtist í Skírni árið 1999 og liggur hér frammi.

Ráðstefna um innflytjendur í framhaldsskólum

Miðvikudagur, 21. mars 2007

Ég má eiginlega ekki vera að því að blogga nema stutta færslu enda frekar annasamt þessa dagana. Mig hálflangar samt að segja frá ráðstefnu um málefni innflytjenda í íslenskum framhaldsskólum sem ég fór á síðasta föstudag. Hún var haldin í Kennaraháskóla Íslands.

Þarna talaði 5 barna móðir frá Palestínu sem heitir Amal Tamimi og ég held að vinni hjá Alþjóðahúsinu. Hún hafði þarft erindi að flytja sagði frá reynslu sinni af að koma börnum sínum í gegnum skóla hér á landi. Meðal þess sem hún benti á er að þótt íslenskukennsla sem er sérsniðin fyrir útlenda unglinga komi í staðinn fyrir venjulega íslenskuáfanga í framhaldsskólum þá dugar skammt ef öll kennslugögn í öðrum greinum eru á máli sem jafnvel mörgum innfæddum þykir allstrembið. Annað erindi sem mér þótti gott var flutt af stúlku frá Úkraínu sem heitir Victoria Reznikova og stundar nám við Verslunarskólann. Sölva Sveinssyni skólameistara Verslunarskólans mæltist líka vel og sama má segja um Ástu Björk Sveinbjörnsdóttur kennara í Fjölbrautaskólanum við Ármúla sem flutti fróðlegt erindi um hvernig hennar skóli sinnir þörfum nemenda sem eiga annað móðurmál en íslensku.

Amal, Victoria, Ásta Björk og Sölvi töluðu ekki sem fræðimenn. Vel má vera að þau séu víðlesin í „nýbúafræðum“ en um það varð ekkert ráðið af máli þeirra því þau töluðu af reynslu fremur en af fræðilegri þekkingu. Ég varð hins vegar fyrir vonbrigðum með fræðimennina. Langlengsta erindið var flutt af Dr. Bergþóru Kristjánsdóttur sem starfar í Danmörku. Hún talaði eitthvað út og suður um ritgerð sem hún hafði skrifað um „orðræðu“ um nýbúa í dönskum námskrám.

Brynja Solveig Grétarsdóttir sagði frá könnun á námsferlum 119 barna sem fluttu til Íslands. Hún hafði komist að því að aðeins lítill hluti þeirra hafði lokið burtfararprófi í framhaldsskóla. Þetta er vissulega áhyggjuefni en varð einhvern veginn ekki að efni í heilt erindi. Raunar mátti segja þetta í einni málsgrein.

Getur hugsast að félagsvísindamenn hafi ekki eitthvað bitastæðara að segja um innflytjendur í framhaldsskólum en eitthvert fjas um „orðræðu“ og eina línu af tölum um nám 119 barna sem enginn virtist vita hvort væru dæmigerð fyrir börn innflytjenda á Íslandi?

Grein í Þjóðmálum og svar Aðalsteins

Mánudagur, 19. mars 2007

Í nýjasta hefti tímaritsins Þjóðmál svarar Aðalsteinn Eiríksson grein eftir mig sem birtist á sama vettvangi í fyrra (Þjóðmál 3. hefti, 2. árg.) Greinin liggur hér frammi fyrir þá sem nenna að lesa hana. Í grein þessari rökstyð ég að núgildandi reglur um úthlutun fjár úr ríkissjóði til framhaldsskóla ýti undir að þeir keppi fremur um að þóknast nemendum með því að láta þá fá sem flestar einingar eða prófgráður með sem minnstri fyrrihöfn en með því að veita þeim sem besta kennslu. Ég sé ekki að Aðalsteinn svari þessum rökum beinlínis en sem embættismaður reynir hann að bera blak af ráðuneyti menntamála og ekki lái ég honum það.

Aðalsteinn bendir réttilega á að aðferðirnar sem voru notaðar fyrir daga reiknilíkansins sem nú er stuðst við hafi verið meingallaðar. Ég er auðvitað sammála honum um þetta. Reiknilíkanið sem var tekið upp rétt fyrir aldamótin var framfaraskref. En kerfið í heild (þ.e. reiknilíkan + námskrár + reglur um námsmat og mat milli skóla) er samt ekki gallalaust. Ég benti á alvarlega galla á því sem eru farnir að hafa slæm áhrif á síðustu árum vegna þess hvernig samkeppni milli skólanna hefur breyst. Það er tæpast neitt svar við þessum ábendingum að segja að eldra kerfi hafi verið enn verra og að í tíð þess hafi skólar líka keppt um nemendur. Það er líka misskilningur að ég hafi haldið því fram að þessir gallar séu endilega gallar á reiknilíkaninu. Þeir stafa af því hvernig nokkrir þættir í samkeppnisumhverfi skólanna spila saman.

Aðalsteinn segir (bls. 66): „Aðalveikleika röksemdafærslu Atla má telja þann að hann ber ekki saman núgildandi greiðslufyrirkomulag fyrir nemendur og það sem var áður. Hann gerir heldur ekki tillögur um annað fyrirkomulag.“

Mér finnst leiðinlegt að þurfa að gefa Aðalsteini slaka einkunn en, því miður, þetta skot hittir engan veginn í mark. Það er fullt vit í að skoða gallana á núverandi kerfi án þess að leggjast í sagnfræðilegar rannsóknir á ruglinu sem var á undan því. Það er líka rangt að ég bendi ekki á annað fyrirkomulag. Í lokakafla greinar minnar sem heitir „Hvað er til ráða – lokaorð“ bendi ég á nokkrar mögulegar lausnir. Engin þeirra felur í sér að gerbreyta reiknilíkaninu enda held ég að hægt sé að laga mikið án neinna svo róttækra aðgerða.

Helgin hjá mér og kosningarnar í vor

Sunnudagur, 18. mars 2007

Í gær klukkan 13 voru afhent verðlaun og viðurkenningarskjöl í stærðfræðikeppni grunnskólanema á Vesturlandi, sem haldin var í Fjölbrautaskólanum 27. febrúar. Ég var því í skólanum eftir hádegið og spjallaði við nokkra nemendur og foreldra þeirra. Það var annars óvenjumikið um að vera í skólanum á laugardegi: Tungumálakennarar með námskeið og helgarkennsla í viðskiptagreinum auk áðurnefndrar verðlaunaafhendingar.

Um kvöldið var svo aðalfundur stærðfræðideildar haldinn heima hjá Bjarnþóri deildarstjóra. Glæsileg samkoma með lifandi tónlist og endalausu úrvali sjaldgæfra viskítegunda.

Á milli verðlaunaafhendingar og aðalfundar skrapp ég á kosningaskrifstofu Sjálfstæðisflokksins sem var opnuð klukkan 16 í Barbró við Kirkjubraut. Þarna var mikið mannval saman komið og þetta var glaðleg samkoma enda flokkurinn í sókn og menn bjartsýnir á góðan árangur í kosningunum eftir 2 mánuði. Fólk var auðvitað að tala um alvarleg mál en gat samt leikið sér. Ég veit ekki hvernig það hefði komið út í sjónvarpi þegar Hulda Gests og börnin í söngskólanum hennar fengu flokksmenn, sem voru virðulega búnir og sumir komnir yfir miðjan aldur, til að gelta, mjálma, baula og jarma í kór af mikilli innlifun um leið og hundar, kettir, kýr og kindur komu fyrir í söngvum barnanna.

Það eru líkur á að kosningarnar í vor snúist um hvort næsta ríkisstjórn verður undir forystu Sjálfstæðismanna eða Vinstri-grænna. Sjálfstæðisflokkurinn mun væntanlega halda áfram á svipaðri braut framfara og uppbyggingar og undanfarin kjörtímabil. Forystumenn vinstri grænna hefur ansi ólíka stefnu a.m.k. í efnahags- og atvinnumálum. Yfirlýsingar þeirra hafa náð áður óþekktum „hæðum“ þar sem þeir hafa talað um að reka bankana úr landi, gera aflaheimildir útgerðarinnar upptækar og hindra stofnun nýrra stórfyrirtækja, a.m.k. þeirra sem nota mikla raforku. Það er hægt að brosa að þessum yfirlýsingum meðan ekki er nein hætta á að farið verði eftir þeim í reynd. En líklega kemur nú annar svipur á flesta ef farið verður að stjórna landinu í samræmi við þær.

Í dag ætla ég að skreppa austur í Hveragerði með Vífli, Mána og Elísu. Harpa verður eftir heima að lesa ljóðabréf Bjarna Gissurarsonar frá Þingmúla.