„Hagrænir hvatar“ í skólakerfinu
Laugardagur, 31. mars 2007Eitt af því marga sem hefur áhrif á hegðun fólks er vonin um að eignast peninga eða óttinn við að tapa þeim.
Fyrir stuttu voru sektir fyrir að aka of hratt hækkaðar. Þetta var væntanlega gert til að fækka slysum frekar en til að fá meira sektarfé í ríkissjóð. Þótt flestir aki á skaplegum hraða af umhyggju fyrir eigin velferð og annarra, eða með öðrum orðum til að forðast slys, hafa hærri sektir væntanlega áhrif á hegðun nokkuð margra ökumanna.
Hagrænir hvatar eru notaðir til að stjórna fleiru en aksturslagi fólks. Við Háskólann í Reykjavík fá þeir sem ná bestum árangri í námi skólagjöld endurgreidd. Vonin um slíka endurgreiðslu hvetur væntanlega einhvern hluta nemendahópsins til að leggja sig fram og stuðlar þannig að betri námsárangri.
Hagrænir hvatar sem að verki eru í menntakerfinu hafa ekki aðeins áhrif á nemendur. Þeir virka líka á starfsmenn og stjórnendur skóla. Sumir þeirra hafa góð áhrif eins og þessi sem ég tók dæmi af úr Háskólanum í Reykjavík. Aðrir hafa vond áhrif.
Fyrir stuttu birti ég grein í Þjóðmálum þar sem ég útskýrði hvernig núgildandi reglur um rekstur framhaldsskóla gera það hagkvæmt fyrir skólana að bjóða nemendum sem flestar einingar með sem minnstri fyrirhöfn. Það má orða þetta svo að hagrænir hvatar sem menntamálaráðuneytið og fjárveitingavaldið hafa búið til vinni gegn því að framhaldsskólarnir hvetji nemendur til að vinna mikið og erfiða með þroskavænlegum hætti. (Greinin liggur hér frammi.)
Ég hef stundum undrast hvað hagrænir hvatar eru stundum notaðir illa og vitlaust í opinberum rekstri. Sem dæmi má taka að ríkið greiðir skólum aðeins fyrir þá nemendur sem mæta í próf (eða gangast undir fullnægjandi námsmat). Greiðslan er aðeins háð því að nemandi segi sig ekki úr áfanga heldur sé með til loka og komi í próf. Hún er algerlega óháð því hvaða árangri nemandi nær á prófinu.
Þetta ýtir undir að skólar reyni að fá nemendur til að vera með til loka og telja þá sem vilja hætta af að gera það.
Nú er margt sem bendir til að símat (þ.e. að byggja einkunn fyrir áfanga á mörgum verkefnum og prófum sem nemandi lýkur með stuttu millibili) bæti í mörgum tilvikum árgangur nemenda. Það hvetur þá til að vinna jafnt og þétt og gefur þeim upplýsingar um hvernig þeir standa sig með stuttu millibili. Einn af fylgifiskum símats er að nemendur sem ekki standast námskröfur vita oft af því fyrir annarlok að þeir séu fallnir. Undir slíkum kringumstæðum vilja nemendur gjarna skrá sig úr áfanga sem er hvort eð er búið spil. Þeir hafa þá rýmri tíma til að ná tökum á efni hinna áfanganna sem þeir eru skráðir í. En þetta er óhagstætt fyrir skóla. Hagrænir hvatar ýta því undir að skólar láti lokapróf hafa mikið vægi og nemendur fái ekki að vita fyrr en að því loknu ef staða þeirra er vonlaus. Skólar eru með þessu hvattir til að haga námsmati og endurgjöf til nemenda á annan hátt en þann sem helst mundi ýta undir iðjusemi og góðan námsárangur.
Þetta er eitt dæmi um gallaðan hvata í skólakerfinu. Ég býst við að hann stuðli að því að verkefni sem unnin eru á önninni og vega sem hluti af lokaeinkunn hafi annað hvort lítið vægi eða séu þannig að lágar einkunnir (falleinkunnir) séu sjaldgæfar og þeir sem falla falli heldur á lokaprófi. Þetta þýðir að skólar eru lattir til að láta nemendur taka mikið á fyrr en í annarlok þótt betra væri fyrir þá að stæla kraftana allan tímann.