Færslur febrúarmánaðar 2007

Náttúruvernd og virkjanir

Laugardagur, 17. febrúar 2007

Í Blaðinu í dag var viðtal við Friðrik Sófusson. Þar var talað um umhverfismál og Friðrik sagði að andstaðan gegn virkjunum hefði „afvegaleitt hina raunverulegu umhverfisumræðu sem þyrfti að fara fram í landinu um nauðsyn þess að endurheimta landgæðin og koma í veg fyrir að landið fjúki út á haf.“ Ætli þetta sé rétt?

Alþjóðleg umhverfisverndarsamtök beina spjótum sínum mjög að virkjunum og aukinni orkunotkun. Að nokkru er þetta vegna þess að flestar virkjanir losa koldíoxíð út í andrúmsloftið og menn hafa áhyggjur af áhrifum þess á veðurfar. Að nokkru er þetta vegna þess að hjá allmörgum blandast umhverfispólitík saman við andstöðu gegn markaðsbúskap, iðnvæðingu og módernisma og löngun til að hverfa aftur til eldri samfélagshátta.

Fyrrnefndu ástæðurnar eiga ekki við um virkjanir hér á landi. Þær brenna engu eldsneyti og hafa hverfandi lítil áhrif á andrúmsloftið.

Kannski er andstaða íslenskra græningja við virkjanir að einhverju leyti vegna þess að þeir fylgja línunni frá skoðanabræðrum í útlöndum og huga ekki að því að laga umhverfispólitík sína að íslenskum aðstæðum. Að nokkru leyti skýrist hún sjálfsagt af andstöðu gegn markaðsbúskap, iðnvæðingu og módernisma.

Ef umhverfisverndarsinnum er í raun meira í mun að berjast gegn kapítalisma en að vernda náttúruna er ofureðlilegt að þeir noti mestalla sína krafta til að beita sér gegn virkjunum. En ef þeir sem hafa aðallega áhuga á landvernd og jarðarbótum ættu þeir kannski að fara að ráðum Friðriks og reyna að koma í veg fyrir uppblástur og gróðureyðingu.

Almost famous, náttúran og Kjalvegur

Laugardagur, 17. febrúar 2007

Í kvöld fór ég á frumsýningu á söngleiknum Almost famouns í uppfærslu leiklistarklúbbs nemendafélags Fjölbrautaskóla Vesturlands. Virkilega skemmtileg sýning. Ég vona að aðsóknin verði góð. Þetta er annað árið í röð sem Ólafur Þorvaldz leikstýrir hjá nemendafélaginu og hann virðist hafa mjög gott lag á að láta krakkana rokka.

Ég var annars að spyrja að því í gær hvort það væri hægt að greina milli mannlífs og náttúru. Það er hægt að velta þessu fyrir sér á marga vegu. Ein leið er að hugsa sér að maður standi einhvers staðar í Vestur-Evrópu og haldi í höndina á móður sinni sem stendur tveim fetum austar, hún í hönd sinnar móður o.s.frv. svo úr verði keðja í austur kynslóð fram af kynslóð. Áður en keðjan nær til Kína eru konurnar í henni augljóslega apar. Sameiginleg formóðir okkar og Simpansanna stendur einhvers staðar í Rússlandi eða Síberíu. En hvergi á leiðinni var neitt stökk frá dýri til manns. Þar eru engin skil.

Svipaða sögu má segja um mannanna verk. Er lurkur suðurapans hluti af náttúrunni. Hvað með steinöxi eða tálgað spjót mannapa sem komu milli þeirra og okkar? Hlaðinn vegg úr torfi, bronsöxi, uxakerru, sútað skinn af veiðidýri, ofinn dúk úr ull, eintrjáning, snæri úr hrosshári og öngul úr beini, seglskip, múrsteinshús, gufuskip, bíl, geimfar. Hvar hætta hlutirnir að vera náttúrufyrirbæri og verða eitthvað annað? Það virðist næsta handahófskennt hvar strikið er dregið. Eigum við kannski að líta að alla hluti sem náttúrufyrirbæri?

Stjórnmál snúast í vaxandi mæli um náttúru og náttúruvernd og þá skiptir máli hvernig menn hugsa um náttúruna og hvað þeim finnst náttúra og hvað ekki. Eitt af því sem er rifist um núna er hvort það skemmi náttúru Íslands að leggja almennilegan veg yfir Kjöl. Ég veit ekki hvað er rétt í þessu máli en er svona nokkurn veginn viss um að miðað við allan venjulegan skilning á hugtökunum sem um er að ræða er akstur utan vega um gróið land skemmdarverk. Hann spillir viðkvæmum vistkerfum.

Umferð um hálendið er veruleg og sums staðar óljóst hvað er vegur og hvað ekki og að mér skilst talsvert um að menn aki bara einhvers staðar. Vegirnir eru líka víða það vondir að bílar sem komast um þá komast eins um vegleysur. Það skyldi þó aldrei vera að almennilegur vegur yfir Kjöl gæti verið skref í þá átt að draga úr utanvegaakstri. Kannski er best að hafa góða vegi þar sem á annað borð má aka og fylgja svo eftir lögum um bann við akstri utan vega.

Um daginn í dag, Mýramanninn og ríki náttúrunnar

Fimmtudagur, 15. febrúar 2007

Klukkan er 23 og ég var að koma heima af sýningu á Mýramanninum í Landnámssetrinu í Borgarnesi. Rótarýklúbburinn fór þangað í hópferð. Gísli Einarsson er fyndinn maður og eiginlega var hann sjálfur talsvert betri en textinn. Efast um að ég hefði hlegið mjög mikið ef einhver annar hefði sagt þessa brandara.

Ég fór annars úr vinnunni klukkan hálffimm svo ég hafði tíma til að skokka spottakorn með norðurströndinni áður en ég fór af stað í Borgarnes. Það er gott að hugsa á skokki meðfram sjónum og í kollinum á mér voru nokkrar hugsanir frá því ég spjallaði við Ólaf Pál heimspeking við Kennaraháskólann í kringum kvöldmatinn í gær. Við vorum reyndar að tala um eignarrétt en minntumst samt aðeins á málefni sem tengjast náttúruvernd og við það vaknaði spurning um hvernig sé hægt að afmarka náttúru og mannlíf.

Af hverju er hreiður fuglsins náttúrufyrirbæri en ból mannsins ekki? Hvers vegna tilheyrir býflugnabúið ríki náttúrunnar en fjölbýlishúsið ekki? Maðurinn er þó hryggdýr og hluti af lífríkinu ekkert síður en fuglarnir. Um mannslíkama gilda sömu náttúrulögmál og um líkami annarra dýra og hegðun mannsins er knúin áfram af hvötum sem eru líklega ekki svo mjög ólíkar þeim sem bærast með öðrum afríkuöpum, svo sem eins og simpönsum.

Er greinarmunurinn á mannlífi og náttúru kannski tóm vitleysa og væri okkur ef til vill hollara að venja okkur á að hugsa um okkur sjálf sem náttúrufyrirbæri fremur en eitthvað sem stendur utan við ríki náttúrunnar? Getur yfirleitt nokkuð staðið utan náttúrunnar? Er hún ekki allur veruleikinn?

Hvað býr á bak við tilhneigingu manna til að greina sjálfa sig frá náttúrunni? Er það kannski sjálfshatur af því tagi sem Nietzsche fjallaði um? Vilja menn greina sig frá náttúrunni til að geta stillt sér upp sem vondum og spilltum andspænis náttúru sem er óspillt og góð? Trúlega er þetta einhver hluti af skýringunni. Að minnsta kosti er nærtækast að gera ráð fyrir einhverri svona áráttu til að leggjast í duft og ösku og bera sjálfan sig þungum sökum þegar á vegi manns verður fólk sem álítur að það sé í öllum tilvikum slæmt og ljótt ef menn breyta ásýnd jarðarinnar en þykja miklu meiri og skaðvænlegri breytingar t.d. vegna jarðelda vera bæði fagrar og góðar.

Enn af pyrrhonisma

Miðvikudagur, 14. febrúar 2007

David Hume sagði einhvern tíma að góður efahyggjumaður hlyti að vefengja forsendur eigin efasemda. Efahyggja er óvenjuleg stefna og hún á það til að bíta í skottið á sjálfri sér. Það er varla hægt að taka mann alvarlega sem heldur því fram að hann sé þess fullviss að ekki sé hægt að öðlast fullvissu um nokkurt efni.

Efahyggjurökum hefur oft verið beitt í þágu umburðalyndis og mannúðar en efahyggja getur líka grafið undan trú manna á öll siðferðileg viðmið. Þetta veltur á hve langt efinn gengur. Sá sem trúir engu og efast um allt getur varla haft mjög veigamiklar ástæður til að mæla með umburðarlyndi fremur en ofsóknum, taka mannúð fram yfir grimmd.

Í gær sagði ég fáein orð um efahyggju fornaldar. Fyrir tveim árþúsundum spurði Aristókles frá Messínu pyrrhonista hvað haldi aftur af manni sem ekki telur sig hafa vissu fyrir því að neitt sé í raun og veru illt, skammarlegt, réttlátt eða óréttlátt.

Vissulega er grimmd oft réttlætt með langsóttum rökum, kenningum um annan heim eða trúarlegum kreddum. Efahyggja hefur stundum grafið undan slíkum kenningum. En hún getur líka grafið undan mannúð og vilja til góðra verka. Frakkinn Montaigne sem átti mestan þátt íað endurvekja forna efahyggju á 16. öld vefengdi rök fyrir frumspekilegum og trúarlegum kenningum en hann vefengdi ekki að grimmd sé slæm.

Montaigne sá ástæðu til að vefengja óskeikulleika trúarlegs kennivalds en ekki þá skoðun að grimmd sé slæm og hana beri að forðast. Niðurstaða þessa var að það sé ekki réttlætanlegt að brenna „villutrúarmenn“ eða „nornir“ á báli. Efahyggja hans var ekki ótakmörkuð. Hún var alltaf blanda af vafa og skoðunum og þannig hlýtur það alltaf að vera. Sá sem ekki þorir að efast verður sjálfsagt aldrei annað en þröngsýnn kreddumaður. Sá sem aldrei þorir að trúa neinu verður líklega stefnulaus vingull sem kemur fáu góðu til leiðar.

Agrippa og hans fimmfalda uppskrift

Þriðjudagur, 13. febrúar 2007

Á seinni hluta fornaldar, frá herferðum Alexanders mikla og fram um 400 e. Kr., breiddust grísk heimspeki og trúarbrögð frá Palestínu út um löndin kringum Miðjarðarhafið. Úr varð hugarheimur sem var fullur af spennu, togstreitu og andstæðum. Að þessu búa Vesturlönd enn í dag og kannski allur heimurinn því menning Vesturlandabúa hefur víst ansi mikil áhrif í Asíu og Afríku og út um allar trissur.

Aldirnar eftir að Alexander herjaði austur til Indlands eru stundum kenndar við hellenisma. Á þeim tíma var heimspeki iðkuð með nokkuð öðrum formerkjum en algengast er nú um stundir því keppikefli heimspekinganna var ekki fyrst og fremst að skilja, greina og gagnrýna eða öðlast frægð fyrir skarpskyggni. Þeir sóttust eftir hamingju. Heimspeki þeirra var fyrst og fremst einhvers konar lífsleikni, tilraun til að temja sér farsælan hugsunarhátt og gæfulega hegðun. Sumt úr speki þeirra endurómar í Hávamálum og fleiri lífsleikniritum frá síðari öldum.

Þekktustu stefnurnar í heimspeki þessa tíma eru líklega stóuspekin og epíkúrisminn. En efahyggjan, sem nú á síðustu tímum hefur gengið aftur sem rökþrautir fyrir þá sem stúdera  þekkingarfræði við háskóla, var líka af þessu tagi. Tilgangur hennar var sálarró og að losa sig við kreddur.

Efahyggja fornaldar er stundum kennt við upphafsmann sinn Pyrrho frá Elís og kölluð Pyrrhonismi. Öll rit Pyrrhons og hinna fyrstu efahyggjumanna eru glötuð og stefna þessi er best þekkt af ritum manns sem var uppi hálfu árþúsundi seinna en Pyrrhon, eða um 200 e.Kr., og var kallaður Sextus Empiricus. Á þessu langa tímabili var efahyggjan heimspekiskóli eða stefna með fjölda fylgismanna. Sum rök þeirra eru til í endursögnum og tilvitnunum þótt rit þeirra séu glötuð.

Einn af þeim hét Agrippa og var uppi um svipað leyti og Sextus. Nafn hans er aðeins nefnt í einni heimild sem er Ævisögur heimspekinga eftir Diogenes Laertius. Sú bók er safn af furðulegum kjaftasögum um skrýtna karla, eins og rökfræðinginn Crysippos sem sagður er hafa dáið úr hlátri. Hann kvað hafa gefið asna sínum vín að drekka og þótt drykkjulæti dýrsins svona ákaflega fyndin.

Agrippa bjó til uppskrift af því hvernig hægt er að stinga upp í alla kreddumenn. Sú uppskrift er í fimm liðum og kallast þeir: misræmi, afstæði, endileysa, hleypidómar og hringavitleysa.

Fyrst er kreddumanninum bent á misræmið milli skoðana hans og annarra, þ.e. að sumir halda fram öðrum skoðunum. (Þetta gengur auðvitað ekki ef um er að ræða skoðun sem allir eru sammála um, enda er slík skoðun líklega ekki nein kredda.) Hann verður því að fallast á að það sem hann heldur fram sé bara sín skoðun, eða sjónarmið sinnar trúar eða síns hóps, semsagt eitthvað afstætt en ekki algilt. Þetta neyðir kreddumanninn til að tilgreina ástæður eða rök fyrir skoðun sinni og þegar sú ástæða hefur verið tilgreind þá endurtekur efahyggjumaðurinn sama leik og knýr fram réttlætingu á eða rök fyrir ástæðunni og svo rök fyrir því sem þá er tilgreint o.s.frv. Þetta getur farið á þrjá vegu:

Kreddumaðurinn getur í fyrsta lagi reynt að halda áfram endalaust og þá eru rök hans endileysa. Hann getur í öðru lagi numið staðar við einhverja forsendu og haldið því fram að hana þurfi ekki að réttlæta. En þá byggist skoðun hans á hleypidómum sem hann getur ekki rökstutt. Í þriðja lagi er hægt að fara í hringi og þá er rökfærsla kreddumannsins hringavitleysa. Það er því sama hvaða leið kreddumaðurinn velur til að réttlæta sjónarmið sín, uppskrift Agrippu dugar til að koma honum í vanda og afhjúpa hann sem hrokagikk sem gumar af meiri vitneskju en hann býr yfir í raun og veru.

Míkróblogg

Mánudagur, 12. febrúar 2007

Í gær og í dag setti ég fuglamyndir á vefinn og komst um leið að því að ég veit ekki nöfn á nema fáum fuglategundum. Dálítil leit á vefnum sannfærði mig þó um að hnoðrarnir sem ég sá vera að éta úr þanginu við Lambhúsasund eru sendlingar. Ef lesandi veit betur er hann beðinn að leiðrétta mig.

Harpa var líka að klára Tryggðapant og henni fannst bókin jafngóð og mér fannst hún (ekki oft sem við náum saman á því sviði, sem betur fer er hún þó byrjuð að meta Hallgrím Pétursson að verðleikum, þökk sé íslenskuskor HÍ).

Tryggðapantur

Sunnudagur, 11. febrúar 2007

Í dag þvældist ég um klappirnar við Lambhúsasund og tók myndir af fuglunum í fjörunni. Það er ótrúlega mikið líf þarna: mávar, æðarfugl, snjótittlingar, hrafnar og alls konar kvikindi sem ég kann ekki að nefna. Myndirnar tíni ég inn á www.flickr.com næstu daga. Setti tvær þar áðan sem ég tók við Bræðrapart þar sem ég lagði bílnum.

Ég ætlaði annars að segja eitthvað gáfulegt um nýjustu bók Auðar Jónsdóttur, Tryggðapant. Hún skrifar meistaralega um sjálfsblekkingu: fólk sem sér heiminn eins og því sjálfu hentar. Hún gerði þetta í Fólkinu í kjallaranum en bætir um betur í nýju bókinni.

Á yfirborðinu er bókin um árekstur ólíkra menningarheima sem verður þegar aðalpersónan, Gísela, leigir þrem útlendum konum eða nýbúum herbergi í íbúð sinni. En átökin í sögunni stafa samt ekki af beinlínis ólíkri menningu heldur af sjálfhverfum hugsunarhætti Gíselu sem heldur að hún sjálf sé heiðarleg og ábyrg þótt hún steli af leigjendum sínum og sé og mikill vingull til að geta unnið fyrir sér.

Allir nýbúarnir í sögunni eiga sér menningararf, ein kennir á píanó, önnur er myndlistarmaður sú þriðja hannyrðakona. Þær vinna allar fyrir sér en hafa samt tíma hver fyrir aðra. Gísela er önnum kafin en kemur samt engu í verk, telur sig vera menningarvita en er skelfilega tóm í kollinum. Hún er barnlaus og síðust í röð vel stæðra miðborgarbúa af gamalgrónum innlendum ættum, svo sagan er öðrum þræði um hvernig innflytjendur taka við landinu af fólkinu sem fyrir var. En hún er aðallega frásögn af konu sem býr í heimi eigin sjálfsblekkinga og óskhyggju. Þessar blekkingar eru kannski að nokkru leyti lífslygi okkar allra og meðal annars þess vegna er bókin ekki bara grípandi saga heldur líka merkileg pæling.

Er heimurinn að missa sjónina?

Laugardagur, 10. febrúar 2007

Ég fór aðeins á rúntinn í morgun, aðallega til að kaupa mér skó. Eins og oft þegar ég er einn í bílnum var kveikt á Rás 1. Ég heyrði brot af þættinum Í vikulokin og svo í öðrum skottúr stuttu seinna smábrot úr Laugardagsþættinum. Þessi brot sitja í kollinum á mér ennþá. Í því fyrra hafði kona sem ég náði ekki hvað heitir mjög stór orð um spillingu í íslensku samfélagi. Hún var afar hneyksluð á að forstjórum olíufélaganna skyldi ekki refsað fyrir verðsamráð. Sama rödd tjáði sig um álver og fann þeim allt til foráttu því þau gætu stjórnað heilu byggðarlögunum með því að hóta að loka ef þau fengju ekki að stækka og kaupa meira rafmagn. Orðrétt sagði hún: „Það er svo mikil spilling hérna að manni kemur orðið bara ekkert á óvart.“

Svona vandlætingartónn heyrist alloft og allvíða (og minnir mig alltaf svolítið á Ragnar Reykás). Auðvitað getur stórt fyrirtæki sett t.d. sveitarstjórnir upp við vegg með því að hóta að hætta eða flytja starfsemi sína. Í atvinnulífinu er allt á hverfanda hveli og stundum lenda heil byggðarlög í erfiðri stöðu. Mér þykja það samt heldur léleg rök gegn verksmiðjurekstri að hann geti hætt. Ef það er slæmt að hann hætti þá er væntanlega gott að hafa hann og að hafna öllum gæðum vegna þess að maður gæti misst þau síðar er ekki mjög góð hagfræði. En allt um það. Þessi rödd í útvarpinu minnti mig á að sumir sjá veröldina í öðru ljósi en ég.

Í seinni bíltúrnum heyrði ég í Salvöru Nordal þar sem hún talaði m.a. um vaxandi dómhörku og refsigleði og vitnaði í Mahatma Gandhi sem sagði að ef lögmálið auga fyrir auga gilti alltaf og alls staðar þá mundi heimurinn smám saman missa sjónina. Mér þykir meira vit í hugsa svona en að hneykslast á því að einhverjum sé refsað of lítið.

Ég man annars ekki betur en olíufélögin hafi verið látin borga sektir fyrir verðsamráð og eitthvað hef ég heyrt um skaðabótamál á hendur þeim. Ég hef ekki nennt að setja mig inn í þetta en einhvern veginn finnst mér trúlegast að þessir olíuforstjórar hafi aðallega verið sekir um að fylgjast ekki með tímanum. Einu sinni var ekki aðeins leyfilegt heldur beinlínis skylda að öll félögin hefðu sama verð á bensíni og olíu. Svo átti að heita að þau væru í samkeppnisrekstri. Þessi samkeppni var þó flækt í alls konar leifar af eldra kerfi einokunar og ríkisafskipta. Ætli fólkið sem hneykslaðist hvað mest og hneykslast kannski enn á þeim skrefum sem tekin voru í átt til markaðsviðskipta með olíuvörur sé kannski sama fólk og heimtar að einhverjum körlum sé refsað, og helst refsað grimmilega, fyrir að hafa ekki komist leiðina frá miðstýringu til markaðar í einu skrefi.

Mér þykja þessar kröfur um auknar refsingar vera talsvert áhyggjuefni. Refsiharka í fíkniefnamálum hefur stóraukist og margir krefjast hertra refsinga yfir kynferðisafbrotamönnum og þeim sem hafa rangt við í viðskiptum. Þessar kröfur minna um margt á umræðu í Bandaríkjunum og ef menn sjá ekki að sér er ansi hætt við að réttarfar hér endi í sömu vitleysunni og þar. Mér sýnist Mogginn vera farinn að taka undir þetta og ef það er rétt að ritstjórnarstefna Moggans sé, eins og stefna Samfylkingarinnar, bergmál af þeim sem hafa hæst á hverjum tíma, þá eru þessar kröfur um dómhörku og refsigleði líklega orðnar býsna áberandi ansi víða.

Á seinni árum hefur eitt af aðalsmerkjum Norðurlandanna verið mild afstaða til þeirra sem brjóta af sér. Refsingum hefur verið stillt í hóf og reynt að vinna gegn glæpum með mannúðlegri aðferðum en þeim sem Gandhi benti á að mundu á endanum gera heiminn sjónlausan.

Ég ætlaði annars bara að tæpa rétt aðeins á því sem ég heyrði í útvarpinu í morgun og skrifa svo lengra mál um bók Auðar Jónsdóttur, Tryggðapant. Ég kláraði hana í nótt og fannst verulega mikið til hennar koma. Gott ef hún er ekki enn betri en Fólkið í kjallaranum. Auður er orðin stórskáld. En ég læt það bíða til morguns að segja meira um bókina.

Er best að lifa svo lítið beri á?

Fimmtudagur, 8. febrúar 2007

Lesefnið hrúgast inn um bréfalúguna hjá mér svo ég hef tæpast tíma til að hanga í tölvunni. Journal of the History of Philosophy og Philosophical Review komu bæði í dag og svo fékk ég í tölvupósti handrit af greinum til að lesa yfir fyrir kunningja.

Ég spjallaði annars við Bjarna framsóknarmann í Flóanum (eða Vælugerðisþingi eins og Þóir Vigfússon segir að héraðið ætti að heita) í síma eftir kvöldmatinn. Okkur þótti báðum svolítið spaugilegt að nýóstofnuð stjórnmálasamtök sem ætla bæði að sleppa því að fara í framboð og að bjóða fram skuli hafa veitt sjálfum sér Íslensku bókmenntaverðlaunin. Við bræður ættum kannski að veita hvor öðrum verðlaun svona við og við til að komast í fréttir því nú til dags telst fátt eftirsóknarverðara.

Fréttir fjalla annars í síauknum mæli um hvað er í fréttum. Ímyndasmiðir segja fréttir af eigin ímyndasmíð og það virðist einhvern veginn talið sjálfsagt að það skipti miklu máli að hafa góða ímynd, vera oft í fréttum, fá sem mesta athygli, vera frægur af frægð sinni. Þessi trú birtist e.t.v. hvergi betur en í öllu blaðrinu um landkynningu og ímynd Íslands. Eins og heilli þjóð sé akkur í því að vekja eftirtekt. Er ekki sönnu nær að það sé gæfa ef heilli þjóð tekst að lifa svo lítið beri á. Ætli einhver trúi því í alvöru að fólk í útlöndum kaupi frekar fisk, ál eða annan varning frá okkur ef landið er vel kynnt? Ætli einhver Íslendingur kaupi t.d. Gorenja þvottavél út af því hvað Slóvenum hefur gengið vel að kynna land sitt eða Beauvais pastasósu vegna jákvæðrar ímyndar Danmerkur? Sennilega ekki margir. Flestir sem kaupa þennan varning hafa að líkindum ekki einu sinni hugmynd um í hvaða landi hann er framleiddur.

Það er einhver falskur tónn í þessu landkynningar og ímyndartali öllu saman. Það liggur við að það sé talið skipta meira máli að vera álitnir góðir af einhverju fólki úti í buskanum sem líklega er nokkurn veginn sama um okkur en að vera almennileg og reynast vel þeim sem næst standa.

Dagurinn í dag og brennivín sem gjaldmiðill fyrir 111 árum

Miðvikudagur, 7. febrúar 2007

Þetta var frekar venjulegur miðvikudagur í vinnunni. Ég var með forfallasímann um morguninn, hafði til vikuskammtinn (vikulegt fréttabréf fyrir starfsfólk skólans) og sendi hann út um hádegið, talaði við nokkra útskriftarnema til að fá á hreint hvernig þeir ljúka námi, gekk frá texta fyrir skóladagbók sem verður gefin út í sumar og nemendur fá næsta haust, heimsótti kennslustundir í fatasaumi og líffræði og tók þar nokkrar myndir af krökkunum (ég birti kannski sumar þeirra á morgun eða hinn). Nú og svo voru alls konar smáerindi eins og venjulega. Þau taka trúlega svona þriðjung af vinnutímanum.

Ég hætti í vinnunni frekar snemma, eða klukkan 4, fór í salinn á Jaðarsbökkum og lyfti lóðum í rúman klukkutíma. Svo var Rótarýfundur um kvöldið. Þetta var þorrafundur með þorramat og þjóðlegum fróðleik sem Bragi Þórðarson bókaútgefandi og rithöfundur hér á Skaga flutti.

Bragi talaði um allsérstæða útgerð hér á Akranesi á árinu 1896 og þeim næstu þar á eftir. Þá veiddu smábátasjómenn ekki fisk heldur reru út í breska togara og fengu hluta af afla þeirra í skiptum fyrir brennivín, sigldu svo drekkhlaðnir í land. Þessi viðskipti urðu, að sögn Braga,  aðaltekjulind bátasjómanna á Akranesi um tíma. Mest var borgað með viskíi og rataði víst eitthvað af þeim gjaldmiðli ofan í heimamenn svo það varð allsukksamt í bænum. Þótti félögum í nýstofnaðri góðtemplarastúku nóg um.