Færslur febrúarmánaðar 2007

Þriðja færsla um trúarbrögð og Darwinisma

Miðvikudagur, 28. febrúar 2007

Ég er enn að hugsa um Darwins Cathedral eftir Wilson sem hefur verið umfjöllunarefni í tveim síðustu færslum. Bókin fjallar mest um trúarbrögð, en líka um hvernig samfélög fá einstaklinga til að haga sér þannig að verði öllum til góðs, gagnlegt fyrir heildina. Hversu farsælt samfélag er veltur sjálfsagt mest á þessu, að hver og einn fylgi reglum sem eru öllum til góðs, líka þegar sá einstaklingur sem í hlut á gæti sjálfur hagnast á að brjóta þær.

Í sumum tilvikum er hægt að koma hlutunum þannig fyrir að einstaklingar hagnist sjálfir á að þjóna almannahag. Markaðshagkerfi er í aðalatriðum svoleiðis fyrirkomulag. En í sumum tilvikum er óhægara um vik að virkja sjálfsbjargarviðleitni manna til hagsbóta fyrir heildina. Í dæminu sem ég ræddi í síðasta pistli, um þá sem hjúkruðu sjúkum þegar farsóttir gengu í fornöld, er t.d. vandséð hvernig slík miskunnsemi þjónaði veraldlegum hagsmunum þeirra sem lögðu sjálfa sig í hættu með því að sinna fólki með smitandi sjúkdóma.

Ég held að það sé fremur lítið vitað um hvaða ráð virka til þess að fá menn til að þjóna heildarhag þótt það komi sér illa fyrir þá sjálfa. Kenning Wilsons um að samfélögin noti trúarbrögð til að gera þetta er að mínu viti ekki vitlausari en hver önnur. En hún virðist samt ekki geta verið öll sagan.

Á Norðurlöndum er fremur sjaldgæft að embættismenn þiggi mútur. Í sumum öðrum löndum er það algengt. Hér er líka sjaldgæft að embættismenn steli verðmætum sem þeim er trúað fyrir. Sums staðar er það regla. Náungi frá Kenya sem ég kannast aðeins við og hefur dvalið hér landi sagði mér einu sinni frá tilraunum borgaryfirvalda í Nairobi til að sótthreinsa vatn með því að setja klór í það. Þær mistókust því borgarstarfsmenn hentu ekki verðmætum sem hægt var að selja ofan í vatn. Hegðun þeirra var að vissu leyti rökrétt. Þeir er fátækir og hví skyldu þeir ekki selja sótthreinsunarefnin til að kaupa mat handa eigin börnum frekar en að henda þeim í vatnsból til að forða annarra manna börnum frá að deyja úr iðrakveisu?  Þessi rökrétta hegðun þeirra á sinn þátt í basli og bágindum þarlendra og þetta er svona hjá þeim þrátt fyrir mjög sterk ítök trúarbragða.

Kannski virka trúarbrögð ekki til að stjórna hegðun fólks nema þau séu samofin siðum og menn finni fyrir þrýstingu frá hópnum og þá er spurning hvort siðirnir og hópþrýstingurinn duga ekki ein og sér.

Enn um trúarbrögð og Darwinisma

Þriðjudagur, 27. febrúar 2007

Í bókinni Darwins Cathedral eftir D. S. Wilson sem ég sagði frá í gær eru mörg dæmi tekin um hvernig trúarbrögð hafa fest sig í sessi með því að bæta afkomu hópa eða þjóða. Eitt af dæmunum sem hann ræðir eru frumkristnir söfnuðir í Rómaveldi sem stækkuðu mjög hratt. Fyrir þessu rekur hann ýmsar ástæður. Ein er að trúin bannaði útburð barna svo meðal kristinna voru konur álíka margar og karlar en meðal Rómverja, sem aðhylltust fjölgyðistrú, voru karlar talsvert (sumir segja allt að 30%) fleiri en konur því stúlkubörn voru oftar borin út en sveinbörn. Mannfjölgun ræðst mest af fjölda heilbrigðra kvenna svo þetta varð til þess að kristnum fjölgaði meir en þeim sem blótuðu Júpíter og Mars.

Annað sem varð til þess að kristni vann á var að þegar drepsóttir gengu yfir voru kristnir menn öðrum líklegri til að liðsinna sjúkum í eigin hópi. Á fyrstu þrem öldum eftir upphaf okkar tímatals gengu tvívegis drepsóttir í Róm sem felldu á bilinu fjórðung til þriðjung manna. Wilson vitnar í fornar heimildir fyrir því að kristnir menn hafi fært sjúkum vatn og vistir og reynt að hjúkra þeim en aðrir hafi fremur reynt að einangra þá sem veiktust til að draga úr smithættu. Einnig tíundar hann álit vísindamanna þess efnis að í þessum tilvikum hafi viðleitni til að hjúkra sjúkum fremur en einangra þá líklega til að fækkað dauðsföllum mjög mikið, jafnvel um tvo þriðju.

Auðvitað sinntu frumkristnir ekki sjúkum vegna þess að þeir hafi reiknað út að mannslífin sem tækist að bjarga með því væru mun fleiri en þau sem færust vegna þess að hjúkrunarfólk smitaðist af þeim sjúku. Þeir hafa sjálfsagt frekar gert það vegna þess að meistari þeirra sagði:

Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni … mun hann … skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. Sauðunum skipar hann sér til hægri handar, en höfrunum til vinstri. Og … segja við þá til hægri: Komið þér, hinir blessuðu … Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, … sjúkur og þér vitjuðuð mín, …

Þá munu þeir réttlátu segja: Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta … Og hvenær sáum vér þig sjúkan … og komum til þín? Konungurinn mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.

Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans. Því hungraður var ég, en þér gáfuð mér ekki að eta, … ég var sjúkur … en ekki vitjuðuð þér mín.

Þá munu þeir svara: Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan eða … sjúkan … ? Hann mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður: Það allt sem þér gjörðuð ekki einum hinna minnstu bræðra minna, það hafið þér ekki heldur gjört mér. Og þeir munu fara til eilífrar refsingar, en hinir réttlátu til eilífs lífs.

Kenning Wilsons er að Kristni hafi unnið á og orðið ríkjandi vegna þess að trú kristinna manna hvatti til hegðunar sem varð til þess að þeim fjölgaði meira en öðrum.

Darwinismi og trúarbrögð

Mánudagur, 26. febrúar 2007

Fyrir um það bil einu á hálfu ári síðan skrifaði ég fjórar greinar um Darwin og darwinisma sem birtust í lesbók Morgunblaðsins (þær heita Lífríkið gert skiljanlegt, Félagslegur darwinismi, Eigingjarnir erfðavísar og Apamál og óvinsældir og liggja frammi á http://this.is/atli/). Síðan þá hef ég við og við litið í bækur um þróunarkenninguna og þá endurvakningu darwinisma sem átt hefur sér stað í mannvísindum undanfarin ár.

Meðal þess merkilegasta sem ég hef fundið af bókum um þetta efni er Darwin’s Cathetdral – Evolution, Religion, and the Nature of Society eftir David Sloan Wilson. Í bókinni reynir Wilson að skýra trúarbrögð út frá gildi þeirra fyrir afkomumöguleika hópa eða þjóða. Hann styðst jöfnum höndum við trúarbragðasögu, rannsóknir félags- og mannfræðinga og nýjustu kenningar í þróunarlíffræði (m.a. um hópval, þ.e. hvernig eiginleikar sem stuðla að viðgangi hóps, fremur en þeirra einstaklinga sem hafa þá í ríkustum mæli, geta undir tilteknum kringumstæðum unnið á fyrir náttúruval).

Að áliti Wilsons eru trúarbrögð flókin kerfi skoðana, stofnana og hátternis sem fá einstaklinga til að haga sér þannig að hópurinn sem þeir tilheyra komist vel af. Dæmin sem hann tekur eru mörg. Frá trú á vatnaguði á Balí í Indónesíu til sögu gyðinga í Evrópu, frá frumkristni í Róm til blómatíma Genfar undir stjórn Kalvínista.

Eftir því sem ég best fæ séð ganga skýringar hans vel upp. Samfélag sem hefur lífvænlega siði, hvetur til barneigna, verndar börn sín og kemur þeim til manns, vinnur gegn hegðun sem spillir efnahag og afkomumöguleikum o.s.frv. verður að öðru jöfnu fjölmennt og heldur áfram að vera til um langan aldur. Wilson skýrir tilveru trúarbragða út frá þessu. Það hafa væntanlega orðið til margs konar siðaðboð og margs konar kerfi til að fá fólk til að hlýða þeim. Flest eru útdauð. Þau sem hafa verið til lengi eru það flest vegna þess að þau eru lífvænleg í þessum skilningi.

Míkróblogg

Sunnudagur, 25. febrúar 2007

Í gær þvældist ég kringum Akrafjall með myndavélina. Það var frost, bjart og heiðskírt og birtan svolítið hörð. Tvær myndir eru komnar á flickr og fleiri tínast þar inn næstu daga. Ég er enn að læra hvernig birtan lítur öðru vísi út á ljósmynd heldur en í veruleikanum. Tilfinning fyrir því hlýtur að koma smám saman.

Ísland

Föstudagur, 23. febrúar 2007

Mig dreymdi í nótt að Bjarni Thorarensen amtmaður og dómari við landsyfirréttinn birtist mér. Hann var glaður í bragði og kvað:

Þótt læpuskaps ódyggðir ætli með flugi
að álpast til landsins ég skaða ei tel
því hótel á Fróni þau hýsa enga dóna
svo hórur og klámstjörnur frjósa í hel.

Dagurinn í dag

Fimmtudagur, 22. febrúar 2007

Í dag var venjulegur fimmtudagur í skólanum. Ég að rétta úr mér eftir þursabit sem ég fékk á sunnudaginn. Veröldin svona að mestu leyti á réttu róli. Radison SAS búið að ákveða að hýsa bara góða ferðamenn og sólin farin að hækka nóg á lofti til að enn sé bjart þegar ég labba heim úr vinnunni. Gæti ekki mikið betra verið.

Vinnudagurinn endaði annars á fundi með bæjarstjórnarmönnum hér á Akranesi sem vilja skólanum vel og eru að kanna kosti á að bærinn veiti honum meiri stuðning. Á undan þeim fundi var kennarafundur. Fyrir hann var ég að yfirfara gögn um námsframboð á næstu önn. Þau þurfa að vera tilbúin fljótlega því nú styttist í að nemendur skrái val fyrir haustönn 2007. Inn á milli annarra verka tók ég svo saman slatta af ljósmyndum til að sýna í tilefni af afmæli skólans.

Auden

Miðvikudagur, 21. febrúar 2007

Í dag eru 100 ár liðin frá fæðingu W. H. Auden. Hann ólst upp í Jórvík, þýddi Hávamál á ensku, kynnti sig fyrir Íslendingum með því að segjast heita Auðunn og vera húnvetnskt skáld. Hann var eitt af höfuðskáldum Englendinga á 20. öld. Mér þykja kvæði hans miklar gersemar.

Hér eru tvö erindi úr einu ljóða Audens sem hann mun hafa ort 1952 eða þar um bil. Ljóðið heitir The Shield Of Achilles og hægt er að lesa það í heild á http://poetry.poetryx.com/poems/56/. Í því ber Auden saman hetjudrauma aftan úr fornöld og veruleika hernaðar á 20. öld.

She looked over his shoulder
For ritual pieties,
White flower-garlanded heifers,
Libation and sacrifice,
But there on the shining metal
Where the altar should have been,
She saw by his flickering forge-light
Quite another scene.

Barbed wire enclosed an arbitrary spot
Where bored officials lounged (one cracked a joke)
And sentries sweated for the day was hot:
A crowd of ordinary decent folk
Watched from without and neither moved nor spoke
As three pale figures were led forth and bound
To three posts driven upright in the ground.

Loftslagsmálin

Þriðjudagur, 20. febrúar 2007

Fyrir nokkru skrifaði ég pistil um hlýnun af mannavöldum og hvað leikmaður á að halda um þau mál. Set hann hér fyrir neðan til upprifjunar.

Fyrir stuttu birtust merkilegar hugmyndir um tengsl milli veðurs og virkni sólar á bloggi Ágústs Bjarnasonar verkfræðings. Skrif Ágústs byggja á kenningum Henrik Svensmark sem starfar hjá dönsku geimrannsóknarstofnuninni en starfaði áður hjá dönsku veðurstofunni. Um rannsóknir Svensmark má lesa í bókinni The Chilling Stars: A New Theory of Climate Change. Kenningar hans snúast um sveiflur í virkni sólar og geimgeislun sem jörðin verður fyrir og áhrif þessa á veðurfar sem Svensmark telur vera býsna mikil.

Gamli pistillinn: Hlýnun af mannavöldum - hvað á leikmaður að halda?
Þessi misseri snúast umræður um umhverfismál einkum um aukningu koldíoxíðs í andrúmsloftinu og hlýnun vegna þess. Áhyggjur af öðru sem menn gera og ógnar umhverfinu virðast hverfa í skuggann af áhyggjum af hækkandi hitastigi vegna vaxandi notkunar á kolum, olíu og jarðgasi (en við bruna þessara efna breytast kolefnissambönd sem bundin voru í jörðu að mestu í koldíoxíð og vatnsgufu). Koldíoxíð er kallað gróðurhúsalofttegund því það virkar svipað og glerið í gróðurhúsum sem hleypir sólarljósi inn en varmageislun (þ.e. geislun með mun lengri bylgjulengd) frá jarðveginum kemst ekki eins auðveldlega út í gegnum það svo hitinn safnast upp inni í gróðurhúsinu.

Hvað á leikmaður að halda um þessar áhyggjur allar saman? Á hann að hrista höfuðið og hugsa sem svo að fólk hafi alltaf haft þörf fyrir að flytja váleg tíðindi og trúa goðsögnum um yfirvofandi hörmungar, dómsdag og hrun? Harðir dómar yfir syndugum lýð og áminningar um að fólki hefnist fyrir gjálífi og munað eiga alltaf hljómgrunn. Umræða um gróðurhúsaáhrif af mannavöldum fullnægir þörf manna fyrir svona tal sérlega vel því ósköpin eru okkur öllum að kenna: Þau stafa af einhverju sem venjulegt fólk gerir oft eins og að aka bíl eða elda mat. Það er svolítið freistandi að hrista bara höfuðið, enda næsta ljóst að ein af ástæðum þess að gróðurhúsaáhrif eru vinsælla umræðuefni heldur en t.d. kjarnorkuvá (sem er þó talsvert skelfilegri en óblíðara veðurfar) er að þau koma til móts við þörf manna fyrir samviskubit og sjálfsásökun. En skýring á vinsældum sögu sker ekki úr um sannleiksgildi hennar og ekkert sem hér hefur verið sagt útilokar að um raunverulega hættu sé að ræða.

Síðan iðnbyltingin hófst hefur koldíoxíð í andrúmsloftinu aukist úr um það bil 0,28 prómill í 0,38 prómill og það eykst nokkuð hratt um þessar mundir svo með sama áframhaldi tvöfaldast það fyrir næstu aldamót. Gögn um sögu veðurfars á jörðinni sýna að samband er milli koldíoxíðmagns í loftinu og hita á jörðinni, þótt hitasveiflur verði einnig af öðrum ástæðum, einkum vegna mismikillar útgeislunar frá sólinni og reglubundinna breytinga á braut jarðar.

Frá lokum síðustu ísaldar hefur veðurfar á jörðinni verið fremur stöðugt og öfgalítið miðað við það sem oft hefur gerst á forsögulegum tímum. Jarðsagan kennir okkur að þessi stöðugleiki er ekki sjálfsagt mál og það eru möguleikar á veðurfari sem er mun óhagstæðara okkur mönnunum en það sem ríkt hefur undanfarin árþúsund. Þessi sama jarðsaga kennir okkur líka að síðustu 60 milljónir ára eða þar um bil hafa hlýskeið eins og við lifum á jafnan staðið fremur stutt (í svona 10 til 20 þúsund ár) og milli þeirra verið löng jökulskeið.

Þótt margt sé á huldu um hvað aukið koldíoxíð hefur mikil áhrif á lofthita virðist næsta ljóst að brennsla kola, olíu og jarðgass stuðlar að að öðru jöfnu að hækkun hitastigs. Spár IPCC (http://www.ipcc.ch/index.html) benda til að hækkun hita á þessari öld geti verið á bilinu 1,4 til 5,8 gráður ef ekki verður dregið úr brennslunni. Óvissan um hvað hækkun hitastigs verður mikil stafar mest af því að hitaaukning setur af stað ferli sem sum magna áhrifin og sum tempra þau og ekki er auðvelt að reikna hvað þetta gerist í miklum mæli.

Það sem helst er talið magna áhrifin er að: Þegar ísa leysir vegna hlýnunar minnkar endurvarp sólarljóss (jörðin verður einfaldlega dekkri þegar minni hluti hennar er hulinn ís og snjó og dökkur hlutur hitnar meira í sól en hvítur); Þegar sjórinn hitnar drekkur hann minna koldíoxíð í sig og þegar jarðvegur hitnar losnar meira koldíoxíð úr honum. Ef þessi áhrif verða eins mikil og svartsýnustu spár gera ráð fyrir og ekkert vegur á móti þeim mun hiti hækka ansi mikið. Það sem gæti helst vegið á móti er ef hlýnun veldur aukinni skýjahulu og skýin endurvarpa sólarljósi í þeim mæli að það geri meira en að vega móti gróðurhúsaáhrifum vatnsgufunnar (en vatnsgufa í loftinu lokar hita inni ekkert síður en koldíoxíð).

Þótt mikil óvissa sé um hvað hitnun af mannavöldum verður mikil og hvaða langtímaáhrif hún hefur benda rök til að það sé a.m.k. mögulegt að vaxandi notkun jarðefnaeldsneytis hafi slæm áhrif á veðurfar. Þetta er hætta sem er ástæða til að taka alvarlega.

Umhverfisverndarsinnar vilja að brugðist sé við þessu með því að minnka notkun á eldsneyti. Það er þó langt frá því að vera neitt einfalt mál, því jarðefnaeldsneyti gegnir lykilhlutverki í efnahag heimsins, enda er stærstur hluti af roforku sem fólk notar framleiddur með því. Þar sem hagvöxtur er ör, eins og í Kína, eykst notkun þess hratt og talið er að Kínverjar muni tvöfalda losun koldíoxíðs á fyrsta fjórðungi þessarar aldar og komast fram úr Bandaríkjamönnum. Fleiri þróunarlönd munu að líkindum stórauka orkunotkun á næstu árum enda erfitt að sjá hvernig þau geta bætt kjör þegna sinna með öðru móti.

Það er snúið mál að fá fólk til að draga úr losun koldíoxíðs. Flestir þjóna eigin skammtímahagsmunum með því að auka hana og líklega eru það langtímahagsmunir flestra að halda sínu striki en fá alla hina til að minnka eldsneytisnotkun. Það er ólíklegt að takist að fá þorra jarðarbúa til að taka langtímahagsmuni heildarinnar fram fyrir sína eigin skammtímahagsmuni. Það er líka ólíklegt að takist að draga úr losun koldíoxíðs með mótmælagöngum og pólitískum yfirlýsingum einum saman. Hér er líklega þörf á raunverulegri stjórnvisku. Ef aukning gróðurhúsalofttegunda ógnar langtímahagsmunum mannkyns eins mikið og talið er þarf að finna leiðir til að minni eldsneytisnotkun verði keppikefli sem flestra, eitthvað sem þeir hagnast sjálfir á til skammt tíma litið. Menn hljóta til dæmis að skoða hvaða kostir eru á að láta skatt af koldíoxíðlosun koma í stað annarra skatta og hvernig hægt er að umbuna þeim sem binda meira koldíoxíð í jörð eða sjó en þeir losa út í loftið.

Hæfilega efagjarn leikmaður sem fylgist með umræðunni um gróðurhúsaáhrif hlýtur að setja spurningamerki við margt sem er fullyrt, enda enginn skortur á stóryrðum um efnið. Hann hlýtur líka að gera sér grein fyrir að vísindamenn eru engan veginn sammála um langtímaáhrif af aukinni brennslu á kolum, olíu og jarðgasi þótt flestir hallist að því að hún ýti undir hlýnun. En hann hlýtur samt að taka hætturnar nógu alvarlega til þess að styðja stjórnmálamenn sem leita leiða til að draga úr líkunum á að illa fari.

Um hælbíta og formann Samfylkingarinnar

Mánudagur, 19. febrúar 2007

Ég rakst um daginn á orðtak sem var á þá leið að smámenni tali um fólk, meðalmenn tali um verk og stórmenni tali um hugmyndir. Ef til er flokkur fyrir ofan þessa þrjá er hann ef til vill skipaður þeim fáu sem hafa vit á að þegja. Um það má þó efast. Hitt eru öllu vissara að fyrir neðan smámennin eru hælbítarnir og einhvern veginn eru þeir ansi áberandi í umræðum um stjórnmál á kosningaári.

Hælbítar ræða ekki um fólk heldur glefsa eftir orðum sem hægt er að slíta úr samhengi eða rangtúlka og nota sitt litla hugmyndaflug til að leggja þau út á versta veg. Sá stjórnmálamaður sem mest hefur lent milli tannanna á þeim undanfarið er líklega Ingibjörg Sólrún. Valgerður Sverrisdóttir hefur líka fengið sinn skammt.

Fyrir nokkru voru að mínu viti ósköp eðlilegar pælingar Ingibjargar um langtímaáhrif þess að vera í stjórnaandstöðu slitnar úr samhengi og þrástagast á að hún héldi því fram að þingflokki Samfylkingarinnar væri ekki treyst. Auðvitað hefur langvarandi stjórnmarandstaða töluverð áhrif á hvað þingmenn leyfa sér að segja og þessi áhrif eru ekki öll á þann veg að skapa yfirbragð sem vekur traust. Um þetta var fyllilega eðlilegt og skynsamlegt að tala. Að slíta eina setningu úr samhengi var hins vegar ekki stórmannlegt, raunar fyrir neðan plan bæði meðalmenna og smámenna.

Annað dæmi er hvernig snúið hefur verið út úr orðum Geirs Haarde um stúlkur sem dvöldu í Byrginu. Eðlileg túlkun á ummælum hans gefur ekkert tilefni til að saka hann um eitt né neitt. En það er hægt að leggja þau út á verri veg og þá eru hælbítarnir í essinu sínu og þeir hafa ansi vond áhrif á alla umræðu um stjórnmál.

Umræðan hefur tilhneigingu til að snúast um frambjóðendur, kosti þeirra og galla. Ef marka má orðtakið er þetta smámennaplanið. Hún þarf að snúast um verk og viðfangsefni og helst þarf líka að fjalla um hugmyndir: stefnu flokkanna og framtíðarsýn. En hún kemst síður upp fyrir tröppu smámennanna ef mikill fjöldi hælbíta reynir stöðugt að toga hana enn neðar.

Ég er einn af þeim sem líst fremur illa á sumt í stefnu Samfylkingarinnar (einkum í utanríkismálum) þótt mér virðist margt af fólkinu sem er í framboði fyrir flokkinn vera ágætisfólk (og þar tel ég formanninn með). En ég sakna þess að stefnan sé rædd. Í fjölmiðlum ber meira á hælbítum sem reyna að glefsa í formanninn en stórmennum sem gagnrýna stefnu hennar.

Umhverfispólitík og þörfin fyrir óvini

Sunnudagur, 18. febrúar 2007

Í gær var ég að velta því fyrir mér hvers vegna íslenskir náttúruverndarsinnar leggja miklu meiri áherslu á baráttu gegn virkjunum, sem valda fremur litlum skaða á umhverfinu, heldur en á brýn viðfangsefni eins landfok og gróðureyðingu.

Ég giskaði á tvenns konar ástæður. Önnur er að pólitík græningja snýst ekki síður um andstöðu gegn módernisma og markaðsbúskap en um eiginlega náttúruvernd. Hin er að þeir grænu hér á landi fylgja línu frá alþjóðahreyfingum sem leggja megináherslu á orkumál um þessar mundir.

Kannski eru ástæðurnar fleiri. Ein sem ég held að hafi eitthvað að segja er að róttækar stjórnmálahreyfingar þurfa á óvinum að halda. Þær þurfa að geta bent á einhverja vonda, einhverja skúrka sem hægt er að beina reiði sinni gegn. Þetta er erfitt að gera ef áherslan er fyrst og fremst aðgerðir gegn gróðureyðingu. Sauðfjárbændur eru ekki heppilegur óvinur og erfitt að kynna þá til sögu sem handbendi hins illa. Þeir eru of nálægir okkur. Flestir þekkja einn eða tvo og vita að þeir eru vænstu menn og þykir vænt um landið sitt.

Eigendur alþjóðlegra stórfyrirtækja sem vilja kaupa íslenska raforku eru hins vegar fjarlægir, hæfilega mikið öðru vísi og nægilega flækir í misgæfulega pólitík til að hægt sé að gera þá að skúrkum: Óvinum af því tagi sem skapa samkennd og samstöðu.