Færslur janúarmánaðar 2007

Nágrenni Akraness

Sunnudagur, 21. janúar 2007

Það var fallegt veðrið í gær svo ég þvældist um nágreinnið meðan sól var á lofti og tók nokkrar myndir, nánar tiltekið um tvöhundruð. Setti tvær á flickr strax og fleiri verða sjálfsagt að tínast þar inn næstu daga. Það tekur tímann sinn að fara yfir svona margar myndir.

Akranes er ekki frægt sem útivistarsvæði. Bærinn er iðnaðarbær og allt of nálægt Reykjavík til að fólk þaðan leggi leið sína hingað. En samt eru náttúruperlur hérna eins og Innstavogsnesið og raunar allar fjörurnar á norðanverðum Skaganum. Ég veit ekki hvort ég á að telja Skógrækt Skilmannahrepps hinu megin við fjallið náttúruperlu. Hún er jú manngerð en tré eru samt einhvers konar náttúrufyrirbæri jafnvel þótt menn hafi gróðursett þau.

Um Garðaflóann (svæðið milli kaupstaðarins og Akrafjallsins) liggja göngustígar og malarvegir þar sem hægt væri að skokka heilu maraþonhlaupin og svo er alltaf hægt að ganga á Akrafjall.

Fjallið hefur tvo tinda. Sá sem vísar í norður heitir Geirmundartindur og er hærri. Síðasti spölurinn þar upp er heldur ógreiðfær nema gengið sé alveg með brún fjallsins og þá helst austan frá. Mun fleiri ganga á þann tind sem vísar í suður og heitir Háihnjúkur. Frá vesturhlíðum fjallsins eru nokkrar leiðir þangað upp. Ein liggur um svokallaða Tæpugötu (eða Tæpastíg) og er að öllu leyti sunnan Berjadalsár, sem rennur úr fjallinu. Lofthræddu fólki þykir þessi leið glannaleg. Fyrir það er auðveldast að ganga upp Selbrekkuna norðan við ána og með ánni að brú sem Rótarýklúbbur Akraness setti þar sumarið 2004. Frá brúnni er greið leið beint af augum upp á tindinn. Þar uppi er gestabók í lokuðum kassa og geta menn sannað veru sína þar með því að skrifa í hana.

Að Selbrekku er malarvegur sem er vel fær fólksbílum og við enda hans bílastæði fyrir göngufólk. Til að komast á þennan malarveg er beygt af veginum sem liggur norður með fjallinu (þ.e. þjóðvegi 51) rétt hjá brúnni yfir Berjadalsá. Stæðin eru ögn sunnan við rætur brekkunnar fyrir neðan endann á Tæpugötu.

Rímur

Laugardagur, 20. janúar 2007

Kvæðamannafélagið Iðunn var stofnað árið 1929. Fljótlega eftir stofnun þess var tekið að hljóðrita rímnasöng á silfurplötur. Á 10 ára afmæli félagsins voru þessar upptökur færðar Þjóðminjasafninu til varðveislu. Þegar Iðunn varð 75 ára voru þær loks gefnar út á fjórum geisladiskum með bók þar sem vísurnar og lögin við þær standa ásamt fróðleik um kvæðamennina og flutning þeirra. Útgáfa þessi ber titilinn Silfurplötur Iðunnar (ritstjóri Gunnsteinn Ólafsson, Kvæðamannafélagið Iðunn og Smekkleysa, Reykjavík 2004).

Harpa gaf mér þessa gersemi í afmælisgjöf og ég hef verið að hlusta á diskana undanfarnar vikur. Að vísu eru upptökurnar frumstæðar og talsvert suð og skruðningar á þeim. En eftir að hafa hlustað nokkra stund má heyra anda þessara gömlu söngvara hefja sig yfir alla galla í upptökutækni og listin svífur hrein og tær inn í hugann hversu brengluð sem hún kemur úr hátölurunum.

Steindór Andersen formaður Iðunnar ritar inngang að Silfurplötunum og segir meðal annars frá viðtali við Kjartan Ólafsson, þáverandi formann, sem birtist í útvarpstíðindum 1939. Þar er hann spurður: „Hvað segir þér um þær raddir, sem heyrst hafa um það, að rímnakveðskapur eigi ekki að heyrast í útvarpi, þar sem erlendar þjóðir, er á kunna að hlýða, álíti það vera eskimóasöng … ?“ Kjartan svaraði og sagði: „Látum okkur slíkt engu skipta …“ Þar var betur svarað en spurt.

Það munaði líklega litlu að minnimáttarkennd og smáþjóðakomplexar gengju af rímnahefðinni dauðri. En hún lifir enn. Geisladiskur með kveðandi Steindórs Andersen hefur komið út hjá Naxos og selst vel, enda sérstök gersemi.

Afmælisrit Arnórs Hannibalssonar

Fimmtudagur, 18. janúar 2007

Í dag fékk ég í hendur afmælisrit Arnórs Hannibalssonar sem kom út á síðasta ári. Bókin er dálítið sein á ferðinni, því sjötugsafmæli Arnórs var í mars 2004. En allt um það. Í þessari bók er ein grein eftir mig  Sú grein heitir Þjóðernisstefna og liggur frammi á heimasíðu minni í pdf-skrá.

Ævisaga Guðmundar Finnbogasonar

Fimmtudagur, 18. janúar 2007

Ein af jólabókunum í vetur heitir Frá sál til sálar, ævi og verk Guðmundar Finnbogasonar sálfræðings og er eftir Jörgen Pind. Þetta er myndarleg bók upp á rúmar fjögur hundruð síður og segir frá merkilegum manni því Guðmundur var ekki aðeins fyrstur Íslendinga til að taka doktorspróf í sálfræði (sem þá var reyndar kölluð heimspeki því fyrir 100 árum var ekki gerður greinarmunur á heimspeki og sálfræði eins og nú er gert) heldur líka frumkvöðull í skólamálum og alþýðufræðslu. Kenningar hans um sálfræðileg efni vöktu athygli við háskóla allt suður til Frakklands og áhrifa hans á hérlent menntakerfi gætir enn.

Mér sýnist Jörgen Pind hafa unnið mjög gott verk. Bókin er bráðskemmtileg aflestrar og segir ekki aðeins sögu Guðmundar og fólks sem hann umgekkst heldur líka sögu sálfræði og skólamála á mjög viðburðaríku tímabili þegar sálfræðin var að verða til sem sjálfstæð fræðigrein og Íslendingar að móta sína barnaskólahefð.

Frá Sál til sálar er ólík öðrum íslenskum ævisögum sem ég hef lesið að því leyti hvað sögumaður hefur vítt sjónarhorn og hvernig hann tengir hugsun Guðmundar við alþjóðlegar hræringar í vísindum og menningarlífi. Það er eins og Jörgen gerþekki ekki aðeins manninn sem hann skrifar um heldur líka þann heim sem hann lifði í. Myndin sem lesandinn fær af Lærða skólanum og Kaupmannahafnarháskóla er líka einhvern veginn fyllri og trúverðugri en í öðrum bókum sem ég hef lesið. Hugmyndum og kenningum á sviði heimspeki og vísinda sem höfðu áhrif á Guðmund er afar vel lýst, á ljósu máli svo allir mega skilja, en þó án þess að einfalda hlutina um of.

Jörgen Pind á þakkir skildar frá öllum sem hafa áhuga á sögu sálfræði, heimspeki, skóla og fræðslumála.

Úr karlaklefanum á Jaðarsbökkum

Miðvikudagur, 17. janúar 2007

Fór í salinn á Jaðarsbökkum áðan til að lyfta lóðum eins og ég geri oftast eftir vinnudag á miðvikudögum. Þarna er ævinlega gaman að koma. Alltaf hittir maður einhverja og það litla brot af mannlífinu sem ber fyrir augu vildi ég stundum helst skrifa á disk og geyma til að horfa á það aftur.

Fyrir stuttu var ég einn í búningsklefanum ásamt tveim pólskum strákum, eða ungum körlum. Pólverjarnir hér á Skaga eru duglegir að fara í sund og oft er þessi minnihlutahópur bæjarbúa í meirihluta í lauginni. En allt um það. Strákarnir voru að spjalla saman á pólsku. Annan þeirra hafði ég séð áður og ég held að hann hafi búið hér í nokkur ár. Sennilega er hann orðinn nokkuð góður í íslensku, a.m.k. sagði hann góðan daginn við mig alveg eins og Íslendingar eru vanir að gera.

Sem þeir eru að hengja spjarirnar af sér inn í skáp og ég að tínast í mínar upphefst hávær ræða í sturtunum. Maður sem stendur undir bununni hefur stór orð um allan skrílinn frá Austur Evrópu sem er að fylla landið af eiturlyfjum og eyðileggja vinnumarkaðinn. Eitthvað fylgdi með um að þetta fólk væri sóðar. Sennilega voru ekki nema tveir áheyrendur í sturtunum. Annar maldaði í móinn en það voru ósköp máttlaus andmæli enda ræðumaður raddmikill mjög og ákveðinn.

Það lækkaði í Pólverjunum sem voru að skrafa saman við hliðina á mér. Svo fór sá sem hafði boðið mér góðan dag að tala– ætli hann hafi ekki endursagt ræðuna og kannski látið eitthvað fljóta með um ræðumanninn, það var einhvern veginn svoleiðis svipur á þeim.

Þetta tók kannski 3 mínútur– svo voru þeir farnir í sturtu– ræðuskörungurinn farinn að þurrka sér og ég lagður af stað út. Ég kunni ekki við að dvelja þarna alklæddur bara til að horfa og hlusta. Hefði þó kannski átt að gera það.

Hár giftra kvenna, kaupmenn í Feneyjum og upphaf kapítalismans

Þriðjudagur, 16. janúar 2007

Rebecca Goldstein er bandarískur gyðingur. Hún hefur bæði skrifað skáldsögur og heimspekirit. Í bók eftir hana sem kom út í fyrra og heitir Betraying Spinoza eða Spinoza svikinn segir hún dálítið frá uppvexti sínum í samfélagi strangtrúaðra gyðinga í New York. Hún gekk í stúlknaskóla þar sem aðaláherslan var lögð á trúarlegt uppeldi. Kennslukonurnar voru siðprúðar og þar sem ekki þótti við hæfi að giftar konur létu hár sitt sjást huldu þær það með hárkollum. Þegar komið var fram undir 1970 voru þessar hárkollur orðnar svo eðlilegar að ekki var með góðu móti hægt að sjá annað en hárið á þeim yxi með nátúrlegum hætti upp úr höfuðleðrinu. En siðprúðar kennslukonur hafa ráð undir rifi hverju og til þess að tryggja að enginn héldi að þær létu hár sitt sjást, harðgiftar konurnar, hnýttu þær skuplur yfir hárkollurnar til að fela þær. Var úr sá sérkennilegi siður að hylja fyrst hár sitt með hárkollu og hana síðan með klút. Þetta er eitt dæmi af mögum um undarlegheit sem hafa þróast hjá gyðingum vítt og breitt um heiminn. Þeir geta átt það til að vera ótrúleg fastheldnir á alls konar formsatriði, enda snýst trú þeirra meira um hlýðni við 613 reglur lögmálsins heldur en guðfræðilega þrætubók og kennisetningar.

Það er undarlegt og umhugsunarefni hvernig þessi íhaldsama þjóð sem hefur dreifst og myndað þjóðabrot um allar jarðir hefur þrátt fyrir íhaldsemina aftur og aftur verið í miðri hringiðu stórfelldra samfélagsbreytinga. Þeir áttu mikinn þátt í þróun kapítalismans. Á gullöld Hollendinga á 17. öld gegndu þeir lykilhlutverki í alþjóðaviðskiptum og þegar kauphallarviðskipti þróuðust á 18. öld komu gyðingar í Englandi og Bandaríkjunum mjög við sögu. Sama má segja um alþjóðavæðingu 19. aldar og ýmsar róttækar þjóðmálahreyfinga (Karl Marx var t.d. gyðingur). Það er líka hægt að fara lengra aftur og segja sögu kaupmanna í Feneyjum á endurreisnartímanum.

Þetta er skemmtilega mótsagnakennt hvernig sama fólkið gengur bæði flestum lengra í íhaldsemi og umbreytingum. Á þessu eru vafalaust skýringar. Ein er kannski sú að gyðingar hafa alls staðar verið minnihlutahópur sem hefur séð ríkjandi menningu eins og utan frá og því áttað sig á ýmsu sem var meirihlutanum hulið. Það er sagt að glöggt sé gests augað. Ætli það sama eigi ekki stundum við um augu þeirra sem eru í minnihluta eða öðru vísi á einhvern hátt. Önnur ástæða sem sjálfsagt vegur þungt er að frá því Jórsalaborg var lögð í rústir árið 70 e.Kr. hafa gyðingar verið dreifðir um mörg lönd en samt haft sambönd sín á milli. Þeir urðu því öðrum fremur þátttakendur í milliríkjaviðskiptum og frumkvöðlar í alþjóðavæðingu.

Stél páfuglsins og lengri skólaganga

Mánudagur, 15. janúar 2007

Þessi gagnrýnislausa trú á skólagöngu sem ég ræddi um í gær birtist í ótal myndum. Ein hefur skotið upp kollinum nú í vetur í andófi gegn svokallaðri sjúkraliðabrú, þ.e. þeirri nýbreytni að leyfa þeim sem eru með fimm ára starfsreynslu við umönnun sjúkra, aldraðra og fatlaðra að ljúka réttindanámi sem sjúkraliðar án þess að ljúka jafnmörgum námseiningum og krafist er af þeim sem ekki hafa svo mikla starfsreynslu.

Í skrifum um þetta mál hefur mér stundum sýnst örla á þeirri hugsun að þeir sem hafa lagt á sig langt nám eigi rétt á einhvers konar umbun fyrir það eða jafnvel bótum fyrir að hafa gengist undir þær píslir að vera í skóla og þeim sé gert rangt til ef einhverjir fá jafngóð kjör þrátt fyrir minni skólagöngu.

Áður en ég segi meira um sjúkraliðabrúna finnst mér ástæða til að rifja upp að karlkyns páfuglar hafa ógnarstórt stél. Það íþyngir þeim á ýmsa vegu. Þeir komast ekkert áfram með þetta ógnarfarg hangandi aftan í sér. En einhvern tíma fyrir löngu forritaði náttúruvalið formæður páfuglsins þannig að þær völdu maka eftir því hve fagurlega hann breiddi úr stélinu. Þetta var viturleg skipan (ella hefði náttúruvalið vafalaust útrýmt henni). Karlfugl sem getur breitt úr stélinu og haldið því fallega samhverfu í góða stund er þokkalega sterkbyggður svo konurnar tryggðu ungum sínum hrausta feður með þessari einföldu reglu um makaval: Taktu þann með stærsta samhverfa og velútbreidda blævænginn.

En það sem er viturlegt fyrir einstaklinginn þarf ekki að þjóna langtímahagsmunum tegundarinnar. Með því að fylgja þessu forriti settu kvenfuglarnir af stað þróun sem mun e.t.v. leiða til að þess að hún deyi út. Ef karlfuglar eignast ekki afkvæmi nema þeir hafi stærra stél en nágrannar þeirra þá fer þróunin bara á einn veg. Stélið verður stærra og stærra og eftir nógu margar kynslóðir er það orðið óbærilegt hlass.

Mér hefur stundum dottið í hug að síaukinn skólaganga sé ef til vill að nokkru leyti vegna þess að prófgráður séu að verða eins og stél páfuglsins. Ef fyrirtæki og stofnanir vinna eftir þeirri reglu að ráða þann umsækjanda um starf sem hefur lengsta skólagöngu þá er farin af stað þróun sem getur eiginlega ekki endað nema í vitleysu. Þegar allir sem stefna á starf á einhverju sviði eru komnir með 20 ára skólagöngu er eina leiðin til að fá forskot að bæta einu ári við og mennta sig lengur en hinir og þegar allir hafa náð 21 ári (frá 6 til 27 ára) þá þurfa þeir sem vilja komast fram fyrir að skóla sig ár í viðbót.

Stundum þegar rætt er um mannaráðningar er talið nær sjálfsagt að ráða þann sem hefur mesta menntun fremur en t.d. þann sem fæst til að vinna verkið með minnstum tilkostnaði. Ég er ekki frá því að á sumum sviðum opinbers rekstrar sé þetta jafnvel bundið í lög. Það er því kannski von að sumum finnist stytting á réttindanámi fagstéttar vera einhvers konar öfugþróun. Hún stingur í stúf við það sem almennt gerist og mörgum finnst bæði rétt sjálfsagt vegna þess að þeir vita ekki nógu mikið um páfugla.

Margir sem ljúka fagnámi sjúkraliða endast illa í vinnu og finna sér eitthvað allt annað að gera örfáum misserum eftir að þeir ljúka náminu. Starfið er trúlega talsvert erfiðara en ráðið verður af námsbókunum og skólagangan býr menn varla nema að litlu leyti undir þessa erfiðleika. Sama má segja um fleiri störf, t.d. kennarastarfið. Sá sem hefur unnið svona vinnu í 5 heil ár hefur þó a.m.k. þrek til að takast á við erfiðið og hafi viðkomandi enn nægan áhuga á starfinu til að vilja afla sér réttinda með skólagöngu er líklega um nokkuð „verðmætan starfskraft“ að ræða, svo ég sletti þessum hálfleiðinlegu orðaleppum. Þótt það hafi einu sinni verið vit að velja þann sem breiðir úr stærsta prófskírteininu yrði nútímakvenfugl líklega öðrum kynsælli með því að skipta um forrit og velja t.d. þann sem getur hlaupið hraðast.

Nú er nóg komið um fugla og líffræði og mál að slá botn í þetta. Mig langar samt að bæta því við að í mínum huga er himinn og haf milli þess að segja annars vegar „Ég hef notið menntunar og á því auðveldara með að standa mig í lífsbaráttunni“ og hins vegar „Ég hef lagt á mig langa skólagöngu og á því rétt á að aðrir (samfélagið, ríkið, vinnuveitendur) láti mig fá betri vinnu og meiri peninga.“ Ég vona að flestir líti á menntun sem lífsgæði sem ber að vera þakklátur fyrir fremur en sem píslir sem nemandinn á rétt á bótum fyrir.

Trúin á skólana

Sunnudagur, 14. janúar 2007

Fyrir tveim eða þrem árum síðan hlustaði ég á prófessor Þorvald Gylfason tala yfir skólastjórnendum um gildi menntunar fyrir efnahag þjóða. Hann hafði á hraðbergi gögn sem sýndu fylgni milli hagvaxtar og aukinnar skólagöngu barna. Fundarmenn gerðu góðan róm að máli hans enda hljómar það vel í eyrum skólastjórnenda þegar rætt er um gagnsemi skólahalds. Ræðumaður og þeir sem lögðu spurningar fyrir hann að erindi loknu virtust flestir gera ráð fyrir að skýringin á fylgni menntunar og hagvaxtar væri sú að menntun stuðli að betri efnahag. En ætli þetta sé allur sannleikurinn? Getur ekki líka verið að fólk fari þá fyrst að senda börn sín í skóla þegar það verður sæmilega bjargálna og hefur efni á að sleppa þeim úr vinnu?

Ég held að hér á landi hafi samband aukinnar menntunar og betri efnahags á fyrri hluta síðustu aldar að verulegu leyti verið á þann veg að betri kjör orsökuðu aukna eftirspurn eftir kennslu. Það var ekki síður um það að ræða að bændur sendu börn sín í skóla vegna þess að þeir höfðu efni á því en hitt að þeir efnuðust vegna eigin skólagöngu eða annarra. Þó þetta orsakasamband, sem er öfugt við það sem Þorvaldur ræddi um, sé næsta augljóst er nánast eins og helgispjöll að nefna það. Skólaganga er orðin heilög kýr og svoleiðis skepnur á helst að umgangast af hæfilegri lotningu. Hún er eitt af því sem stór hluti fólks trúir á nokkurn vegin fyrirvaralaust og um hana geta stjórnmálamenn haft fögur orð án þess að hætta á að neinn krefji þá svara við erfiðum spurningum.

Það er ekki eins og ég sjálfur efist neitt tiltakanlega mikið um gagnsemi þess að ganga í skóla. Sjálfur starfa ég í svoleiðis stofnun og held að starfið þar hafi að flestu leyti góð áhrif á nemendur og ég er næsta viss um að sú skólaganga sem ég sjálfur fékk varð mér bæði til gagns og ánægju. En ég held samt að þessi vöntun á gagnrýni sé svolítið varhugaverð og ég segi kannski meira um það á morgun eða hinn.

Gáta

Laugardagur, 13. janúar 2007

Grár og loðinn grær hann hjá
grösum inn til heiða.
Svona nefna seggi má
og sæinn undurbreiða.

(Fleiri gátur.)

Skóli fyrir alla?

Föstudagur, 12. janúar 2007

Það þykir orðið næsta sjálfsagt að allir (eða a.m.k. næstum allir) unglingar fari í framhaldsskóla að loknum grunnskóla. Þetta er trúlega til góðs fyrir meirihlutann og vel það og sem betur fer finna flestir einhverja námsbraut við hæfi og fá að stórum hluta að læra efni sem þeir hafa áhuga á.

Skóli er góður staður fyrir þá sem langar til að læra. En fáeinir af þeim unglingum sem ég tala við í minni vinnu eru ekki alveg svona lánsamir. Þeir eiga í vandræðum með að velja námsbrautir og fög því þótt úrvalið sé mikið er ekkert sem þá langar neitt sérstaklega til að leggja fyrir sig og ekkert sem þeim finnst að þeir þurfi að nema til að ná markmiðum sem þeir hafa sett sér. Einn og einn endar með að velja sig frá öllu sem er krefjandi– kýs fög vegna þess að þau eru það eina sem eftir stendur þegar búið eða að útiloka allt sem viðkomandi getur alls ekki hugsað sér að reyna við.

Sumir virðast halda að fólk sem svona er ástatt um vilji frekar læra verklegar greinar, listir eða íþróttir en fög eins og dönsku, efnafræði, stærðfræði eða sögu. En sú er sjaldnast raunin. Sumir virðast því miður helst vilja vera í stórum hóp og í nógu venjulegum fögum til að hverfa bara í fjöldann. Í mínum skóla hefur töluvert verið reynt til að bjóða verklegt nám og listnám fyrir nemendur sem ekki hafa mikinn áhuga á bóknámi, en þeir virðast flestir kjósa bóklegu fögin sem þeir klúðruðu í grunnskóla fram yfir eitthvað sem á að vera „nýtt og spennandi“.

Stundum efast ég hálft í hvoru um að skóli sé mjög góður staður fyrir fólk sem ekki langar að læra. Ekki að ég geti svo sem bent því á neinn annan betri stað. Það er liðin tíð að strákar sem gefa skít í allt nám geti fengið pláss á togara og mannast úti á sjó og það er tæpast raunhæfur kostur fyrir stelpu sem er enn milli tektar og tvítugs að ná sér í karl og gerast heimavinnandi húsmóðir eins og var algengt á árum áður. En við ættum kannski að hafa augun opin fyrir þeim möguleika að þó skólaganga sé oftast til góðs fyrir flesta þá kunna að vera undantekningar frá því eins og öðru í mannlífinu.