Færslur janúarmánaðar 2007

Ekkert að segja

Miðvikudagur, 31. janúar 2007

Ég kom heim af Rótarýfundi um lukkan hálf níu. Byrjaði á að skrifa fundargerð þar sem ég er ritari klúbbsins þetta árið. Síðan hef ég hangið í tölvunni og nú er klukkan orðin 11:15 og tími til kominn að fara að hætta þessu hangsi.

Um leið og ég leit yfir skrif á vefnum eins og http://www.andriki.is/ og http://www.berlingske.dk/sem ég les flesta daga kláraði ég að ganga frá texta fyrir tímarit sem bað mig að segja eitthvað gáfulegt um vímuefnavandann.

Oftast nær segi ég nei þegar ég er beðinn að segja eitthvað gáfulegt í tímarit eða fjölmiðla. Það er eins og sumir haldi að af því maður hefur birt nokkrar greinar um heimspekileg efni þá geti maður með lítill fyrirhöfn sagt eitthvað af viti um næstum hvað sem er. En sannleikurinn er sá að ég er mjög lengi að skrifa texta um alvarleg mál og þessi eina vélritaða blaðsíða sem ég lofaði að skila hefur kostað mig talsvert marga klukkutíma. En hún er nú tilbúin og nú fer ég að slökkva á tölvunni.

Jón Baldvin og fylgi Samfylkingarinnar

Þriðjudagur, 30. janúar 2007

Allmikið hefur verið talað um viðtal við Jón Baldvin Hannibalsson í sjónvarpsþættinum Silfur Egils. Ég varð forvitinn og fór á www.visir.is og lét þetta rúlla á tölvuskjánum. Jón Baldvin var kokhraustur. Ekki sparaði hann stóru orðin. Einhverjum fannst þetta sjálfsagt flott hjá honum. Ég er samt ekki frá því að gífuryrði af þessu tagi hafi átt sinn þátt í því að tryggja íslenskum vinstrimönnum nokkuð öruggan minnihluta á þingi.

Jón Baldvin vandaði Samfylkingunni ekki kveðjurnar og lét að því liggja að það væri klúður hjá forystusveitinni að hún hefði ekki fylgi á við Sjálfstæðisflokkinn. Samt hefur Samfylkingin talsvert meira fylgi en jafnaðarmenn höfðu þegar Jón Baldvin var formaður í flokki þeirra.

Í þingkosningum á árabilinu 1956 til 1995 hafði Alþýðuflokkurinn að meðaltali tæplega 15% fylgi. Það varð mest 22% í kosningum 1978 og minnst rúm 9% í kosningum 1974. Á sama árabili höfðu vinstriflokkar að jafnaði um 37% fylgi samtals (ef Samtök um kvennalista teljast vera vinstri flokkur). Atkvæði greidd vinstriflokkum urðu minnst um 30% árið 1967 og fóru upp í um 48% árið 1978.

Undanfarna hálfa öld hefur fylgi vinstri flokka í Alþingiskosningum rokkað milli 30% og 40% með tveim undantekningum sem eru 1978, þegar þeir fengu samtals rúm 48%, og 1983, þegar þeir fengu samtals tæp 42%.

Flokkar sem hafa svipaða stefnu og Samfylkingin (þ.e. Alþýðuflokkur, Samtök frjálslyndra vinstrimanna, Þjóðvaki og Samfylking) hafa lengst af átt um helming af vinstrafylginu eða 15% til 20% af öllum greiddum atkvæðum. Frá þessu eru tvær undantekningar sem eru kosningarnar 1999 og 2003 þegar Samfylking fékk ríflegan meirihluta allra atkvæða vinstrimanna. Á þessum árum var Samfylkingin líka blanda úr ólíkum flokkum með allstóran hóp Alþýðubandalagsmanna innanborðs. Nú er hún orðin talsvert líkari gamla Alþýðuflokknum.

Það geta varla verið nein stórtíðindi að stjórnmálastefna sem hefur í hálfa öld átt um og innan við 20% fylgi hafi rétt um 20% fylgi núna. Það bendir heldur ekki til að forysta Samfylkingarinnar sé að standa sig neitt sérstaklega illa. Það bendir í raun ekki til annars en þess að fremur lítið hafi breyst. Meirihluti Íslendinga aðhyllist svipaðar skoðanir og borgaraflokkar og miðflokkar fylgja í nágrannalöndum okkar og minnihlutinn er hallur undir vinstriflokka. Skiptingin er ekki fjarri því að vera 60-40. Í sumum öðrum löndum sem búa við svipaða menningu er hún nær 50-50 og sumar þjóðir eru seinheppnar og sitja uppi með 40-60.

Jón Baldvin breytti þessu ekki þegar hann var formaður Alþýðuflokksins. Hann breytir þessu heldur ekki með því að tala digurbarkalega í sjónavarpið. Það eina sem hann hugsanlega gæti gert með stóryrðum er að fæla örfáa frá því að kjósa Samfylkinguna. Ég græt það þurrum tárum en skil vel að fyrrum félögum hans í pólitík líki þetta ekki sérlega vel.

Sveinspróf í trésmíði, 16 ára afmæli, Oliver Stone og bókapakki frá Amazon

Mánudagur, 29. janúar 2007

Um helgina voru 10 nemendur í sveinsprófi í trésmíði við tréiðnadeild FVA. Sveinsstykkin voru til sýnis milli klukkan 5 og 6 í dag svo ég endaði vinnudaginn á trésmíðaverkstæði skólans innan um stolta kennara og nýbakaða húsasmíði. Allir nemendurnir stóðust pófið og eftir því sem ég hef vit á að dæma voru snúnu tréstigarnir sem þeir smíðuðu allir ágæta vel gerðir. Ég set eina mynd sem ég tók við þetta tækifæri inn á ljósmyndavefinn flickr.com (sjá hér til hægri).

Dagurinn byrjaði annars á að ég stökk út í bíl og sótti afmælisgjöf hana Vífli sem hafði verið falin í skottinu. Hann varð 16 ára í dag og í tilefni af því fengum við okkur Subway samlokur í kvöldmat og horfðum svo á vídeó saman. Vífill valdi myndina: World Trade Center eftir Oliver Stone. Hún var mun betri en ég bjóst við.

Meðan við vorum að horfa á myndina hringdi dyrabjallan- pósturinn að koma með bókapakka frá Amazon. Með sama áframhaldi styttist í að við Harpa fyllum þessa rétt rúmlega 300 rúmmetra íbúð okkar af bókum. Best að hætta þessu snakki og snúa sér að lestri.

Háskólinn og smá pólitík

Sunnudagur, 28. janúar 2007

Ég reyni stundum að fylgjast ofurlítið með nemendum úr Fjölbrautaskóla Vesturlands eftir að þeir útskrifast. Ég hlusta að minnsta kosti eftir því þegar sagt er frá árangri þeirra. Flestum þeirra vegnar sem betur fer vel. Ég get þó ekki annað en verið hálfgramur fyrir hönd þeirra sem hefja nám við Háskóla Íslands og lenda þar í meira en 100 manna hópum í flestum kennslustundum á fyrsta ári. Mér finnst þetta vera svindl og svínarí.

Þeir sem fara í háskóla fara flestir að læra fag sem þeir hafa áhuga á umfram önnur fög. Nú loksins geta þeir sökkt sér niður í það sem þeir virkilega vilja læra. Að hrúga þeim saman í 100 til 200 manna fyrirlestrarsölum er ekki besta leiðin til að viðhalda áhuganum og hvetja þá til dáða. Góð kennsla krefst persónulegra kynna og samskipta nemenda og kennara.

Til að útskrifa góða vísinda- og fræðimenn þarf háskólinn að taka á móti ungu fólki þannig að það geti strax í byrjun náms kynnst fulltrúum fræðanna og smitast af áhuga þeirra. Það gerist varla þar sem kennarinn stendur uppi á sviði í risastórum sal í Háskólabíó og lætur glærur rúlla á tjaldi fyrir framan nemendahóp sem er svo stór að hann getur ekki einu sinni lært hvað allir heita. Ég býst við að þetta eigi sinn þátt í miklu brottfalli nemenda úr Háskóla Íslands.

Sjálfur var ég svo heppinn þegar ég gekk í háskola að vera yfirleitt í fámennum námshópum og með úrvals kennara. Á fyrsta ári í Háskóla Íslands fékk ég til dæmis að vera í þriggja manna hópi í miðaldabókmenntum sem Vésteinn Ólason kenndi. Hann var kennari sem hafði smitandi áhuga og mátti vera að því að tala við 20 ára byrjanda. Þegar ég fór svo í heimspeki á öðru ári var ég hjá kennurum sem þekktu alla nemendur sína áður en önnin var hálfnuð og þegar ég fór í framhaldsnám við Brown University tók enn betra við því prófessararnir, sem voru í fremstu rök á sínu sviði í heiminum (fólk eins og t.d. Roderick Chisholm, Ernest Sosa, Itamar Pitowski og Felicia Nimue Ackerman), unnu með okkur nemendunum og ræddu um rannsóknir sínar og skrif og lögðu sig fram um að kynnast hverjum og einum. Það eru svona samskipti sem gera háskóla að góðum háskóla.

Vonandi verða peningarnir sem menntamálaráðherra lofaði Háskóla Íslands um daginn notaðir til að minnka nemendahópa, einkum á fyrsta ári í fjölmennu deildunum. Vonandi fá þeir sem byrja þar á næstu árum jafngóða kennslu og ég sjálfur fékk á sínum tíma.

Smá pólitík: Margrét Sverrisdóttir tapaði í varaformannskjöri Frjálslynda flokksins. Að mínu viti eykur það líkurnar á að flokkurinn verði jaðarflokkur sem enginn annar vill vinna með í ríkisstjórn. Fari svo munu núverandi stjórnarandstöðuflokkar ekki mynda stjórn þó þeir nái 32 þingmönnum eða fleiri.

Ef Frjálslyndi flokkurinn verður með svona 8 þingmenn eftir næstu kosningar og stefnu í málefnum innflytjenda sem enginn annar vill láta bendla sig við þá verður líklega engin leið að mynda starfhæfa ríkisstjórn án þátttöku Sjálfstæðisflokks. Kannski má spá því nú þegar að næsta stjórn verði mynduð af Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu.

Ég vona auðvitað að Sjálfstæðisflokkurinn hafi áfram forystu í ríkisstjórn. (Þó ég bölvi honum í sand og ösku fyrir þjóðlendukommúnisma, fáránlega sóun á almannafé í reiðhallir og fleira rugl og að stilla Árna Johnsen upp í öðru sæti í Suðurkjördæmi þá er hann a.m.k. talsvert skárri en hinir.)

Þjóðlenduvargagangur, þingkonur í Arabíu og Sabbatæ Zevi

Laugardagur, 27. janúar 2007

Ég hef stundum verið kominn á fremsta hlunn með að skrifa pólitískar predikanir á þetta blogg. Ég hef svo sem alveg nóg um að tala í þeim dúr: Ég get t.d. skammast yfir þjóðlenduvargaganginum í ríkinu sem reynir að sölsa undir sig eignalönd fólks (sorglegt að Sjálfstæðisflokkurinn skuli standa fyrir þessari vitleysu). Vonandi kæra bændur sem hafa verið sviptir þinglýstum eignum sínum ríkið fyrir rán á landi, vinna málið og fá skaðabætur. Ég get líka lýst stuðningi við þingkonurnar sem fóru til Saudi-Arabíu og klæddu sig eins og talið er nokkurn veginn við hæfi þar um slóðir. Það var vel gert að senda hóp af konum þangað og af fréttamyndum verður ekki ráðið að neitt hafi verið athugavert við klæðaburð þeirra. Það er afar hæpið að þær hefðu orðið kynsystrum sínum í Arabíu að miklu liði með því að ögra þarlendu velsæmi. En með því að koma vel og virðulega fram sýndu þær sjálfsagt einhverjum þarna suður frá að sumstaðar eru konur fullgildar í pólitík.

En alltum það. Ég ætlaði ekki að skrifa um pólitík heldur um geðhvarfasjúkling frá Smyrnu sem Trykjasoldán lét fangelsa árið 1666, sama ár og Passíusálmar Hallgríms Péturssonar voru gefnir út á bók. Sjúklingurinn hét Sabbatæ Zevi. Hann var gyðingur og hlaut hefðbundna menntun í Talmúd og öðrum gyðinglegum fræðum. Ungur að aldri las hann einnig Zohar sem er höfuðrit gyðinglegrar dulspeki.

Zohar (eða Sefer ha Zohar) var rituð undir lok 13. aldar á Spáni, en það land nefndu gyðingar Sefarad. Höfundur þessa mikla rits er Moses ben Shem Tov frá Gvadalajara. Í Zohar er safnað saman helstu kenningum kabbalista en kabbalismi er samsteypa úr gyðingdómi og dulspeki sem á að nokkru rætur í fornri heimspeki Platons og Plótínusar.

Samfélag gyðinga á Spáni átti sitt blómaskeið á miðöldum og þar varð til menning sem alla tíð síðan hefur sett svip á Vestræn samfélög. Dulspekihugmyndir þaðan kannast líklega margir við úr bókum argentínska sagnameistarans Jorge Luis Borges. Hann þekkti þessar hugmyndir trúlega af sínum heimaslóðum, því gyðingar hafa í meira en 4 aldir verið fjölmennir í hópi landnema sem flutt hafa frá gamla heiminum til þess nýja.

Velmektarárum gyðingasamfélagsins á Spáni lauk þegar Ferdinand konungur og Ísabella drottning heimiluðu rannsóknarréttinum að fara sínu fram í ríkinu árið 1478. Hófust þá ofsóknir gegn gyðingum sem ekki eiga sína líka fyrr en kemur fram undir miðja 20. öld. Eins og gerst hefur bæði fyrr og síðar þegar gyðingar hafa verið beittir harðræði og myrtir hópum saman jókst áhugi þeirra á messíasarspádómum. Í fornum ritum spámannanna fundu þeir fyrirheit um leiðtoga sem mundi frelsa þjóðina.

Árið 1666 var enn verið að brenna menn á báli suður á Spáni og í Portúgal fyrir að ákalla guð á hebresku eða halda laugardaginn heilagan. Og þegar fréttir bárust af manni austur í Miðjarðarhafsbotnum sem stundum grét vikum saman yfir syndum heimsins og var stundum svo fullur af guðmóði að hann svaf ekki heilu vikurnar heldur predikaði án afláts, sá sýnir og sagði spár þá lögðu hinir trúuðu saman tvo og tvo og fengu út að Sabbatæ Zevi væri messías sjálfur, loksins kominn.

Tengsl Sabbatæ Zevi við kabbala og menningu Sefarad gyðinga hafa sjálfsagt átt sinn þátt í því hvað sögur af honum höfðu mikil áhrif í Hollandi og víðar þar sem voru afkomendur flóttamanna sem flúið höfðu undan spánska rannsókarréttinum. Um skeið var varla um annað talað í samkunduhúsum Amsterdaam. Ríkir kaupmenn seldu eigur sínar og héldu af stað til fundar við þennan mikla leiðtoga sem sagt var að gæti lífgað við látna menn, slitið af sér hlekki Tyrkjasoldáns og gengið gegnum múrveggina í fangelsum hans.

Annað kom þó á daginn. Þegar menn soldáns hótuðu Sabbatæ Zevi bana nema hann gengi Islam á hönd setti hann upp túrban, tók sér nafnið Azziz Mehemed Effendi og lifði sem góður og geðveikur múslimi eftir það og enn lætur hinn rétti messías bíða eftir sér.

Dagurinn í dag - myndir úr skólanum

Föstudagur, 26. janúar 2007

Klukkan er að verða ellefu og ég var að klára að fara yfir verkefni nemendanna sem ég er með í fjarkennslu og á bara eftir að senda þau til baka. Ég geri þetta venjulega á föstudagskvöldum og er stundum að þessu talsvert fram eftir.

Þetta hefur annars verið ofurvenjulegur föstudagur. Ég var með forfallasímann til klukkan 9, þá var skrifstofufundur. Eftir hann var frekar rólegt í vinnunni svo ég skrapp í heimsókn niður í tréiðnadeild og dútlaði svolítið við heimasíðu skólans (en eitt af mínum verkefnum er að halda henni við). Eftir hádegi var svo deildarstjórafundur eins og venjulega á föstudögum (það eru tveir fastir fundir hjá mér á föstudögum).

Ég tók nokkrar myndir af nemendum bæði í gær og í dag. Ein þeirra er komin inn á flickr.com. Vona að krökkunum á myndinni sé sama. Ég safna annars myndum úr skólalífinu á stafræmu formi. Ég skannaði úrval úr því sem var til í albúmum í vörslu skólans fyrir þrem árum síðan og hef eftir það fengið sendar margar stafrænar myndir bæði frá nemendum og starfsfólki.

Ef einhver sem les þetta á skemmtilegar myndir úr Fjölbrautaskóla Vesturlands þá má hann alveg senda mér eintök. Ef fólk kemur með myndir á pappír skanna ég þær á augnabliki og skila strax aftur. Það er lítið til af myndum frá fyrstu árum skólans (1977 til 1987) og sérstakur fengur að ljósmyndum frá þeim tíma þegar kennararnir voru flestir innan við fertugt.

Þetta ljósmyndasafn sem ég er að tala um er ekki neitt einkafyrirtæki. Það er auðvitað í eigu skólans og varðveitt á gagnageymslum hans. Það er mikilvægt fyrir stofnunina að varðveita gögn um eigin sögu og ég lít á það sem hluta af starfinu að halda þessum gögnum til haga.

Krummi - framhald

Fimmtudagur, 25. janúar 2007

Hrafnar og mannfólk eiga margt sameiginlegt. Samfélagsgerð krumma er talsvert flókin og hann er alæta eins og við. Þótt hann geti lifað á jurtafæði eins og maðurinn þarf hann orkuríkan mat, helst spik og feitt kjöt til að lifa af vetrarkuldann hér á norðurslóðum. En hrafninn er eins og maðurinn, óvenjuleg kjötæta að því leyti að hann hefur hvorki kjaft né klær til veiða og er harla vanbúinn til að afla sér þeirrar fæðu sem hentar honum best. Jafnvel þótt krummi sé svo heppinn að finna sjálfdauða kind getur hann ekki rifið gat á belginn á henni til að komast í mörinn. Það eina sem hann ræður við eru skordýr, smákvikindi í fjörupollum, mýs og ormar. Þokkalegasti matur allt en í mestu hörkum þegar krumma er lífsnauðsyn að fá mikla orku standast þessar krásir ekki samjöfnuð við klaufdýr eða seli.

Einhvern tíma fyrir löngu stóðu forfeður okkar frammi fyrir sams konar vandamáli. Þeir þurftu eggjahvítuefni og fitu en höfðu hvorki tennur né klær til að vinna á almennilegri villibráð. Þegar dýrategund lendir í svona tilvistarkreppu, að geta ekki almennilega aflað sér matar, er tvennt til, annað hvort deyr hún út eða náttúruvalið rambar á einhver úrræði. Í okkar tilviki varð til heilabörkur með mörgum lögum af taugum og fimir fingur og þetta tvennt dugði manninum til að tálga spjót, riða net, smíða öngla og axir og fleiri tól sem komu í staðinn fyrir vígtenntur og klær. En hvað gerðu forfeður hrafnsins?

Dýrafræðingur einn í Maine í Bandaríkjunum sem heitir Bernd Heinrich hefur varið æfi sinni í rannsóknir á hröfnum og skrifað um þá lærðar bækur. Meðal þess sem Heinrich hefur fundið út er að krummi bjargar sér með samvinnu við ljón í suðurlöndum, hvítabirni á norðurhjara og úlfa og önnur dýr af hundaætt í löndum sem eru þar á milli. Þessi samvinna er beggja hagur því hrafninn á miklu auðveldara með að finna bráð en dýr sem ekki geta hafið sig frá jörðu. Þegar svangur hrafn hefur fundið sel á Grænlandi eða hjartardýr í Kanada leitar hann uppi svangan björn eða úlfa og vísar á bráðina. Hann fær svo að kroppa með þessum vinum sínum þegar þeir hafa rifið fenginn á hol.

Ég veit ekki til að neinn hafi rannsakað hegðun og samfélagshætti íslenskra hrafna en allir sem hafa alist upp í sveit vita hvernig þeir láta við hundana. Stundum er sagt að hrafninn skemmti sér við að stríða þeim en ég held að tilhneiging krumma til að eiga veiðifélag með úlfum og öðrum kvikindum af hundaætt skýri hvers vegna hann krunkar á hundinn. Ætli hann sé ekki að láta hvutta vita að hann hafi fundið kind og sé til í að vísa á hana svo þeir geti fengið sér bita saman. Það er ef til vill ekkert undarlegt að bændur sem byggja afkomu sína á kvikfjárrækt hafi ímugust á krumma. Mér skilst að hjá veiðimönnum á Grænlandi sé viðhorfið allt annað. Þeir líta á hrafninn sem vin og sögur herma að hrafnar hafi þróað svipaða samvinnu við inúíta og við úlfa og birni. Bernd Heinrich hefur kannað þessar sagnir og segir að þær séu trúlegar og komi vel heim við það sem hann hefur fundið út um samvinnu krumma við ferfætt rándýr. Sé þetta rétt má ætla að hrafninn hafi töluvert vit því mannvist á norðurslóðum er full ung til að náttúruval hafi mótað samvinnu af þessu tagi og hér er ef til vill komið að merkilegasta samkenni hrafna og mannfólks því krummi virðist gæddur skynsemi og hugsun umfram önnur dýr.

Krummi

Miðvikudagur, 24. janúar 2007

Ég setti tvær myndir af krumma á flickr.com núna áðan. Þær eru báðar bútar úr stærri mynd og báðar teknar á laugardaginn síðasta þegar ég fór rúnt með myndavélina.

Það er skemmtilegt að eltast við krumma og reyna að ná af honum myndum. Hann er frekar styggur og lætur ekki koma sér að óvörum svo það veitir ekkert af að hafa langa linsu til að mynda hann.

Í þessum eltingaleikjum hef ég tekið eftir ýmsu í hegðun hrafnanna hérna sem ég hafði ekki séð áður. Ég hafði t.d. ekki séð hrafna baða sig í snjó fyrr en núna. Vissi svo sem að þeir eru kattþrifnir og þvo sér í lækjum og hafði lesið um að í þeir noti líka lausa mjöll til að skrúbba á sér fjaðrirnar - en ekki séð neinn þeirra gera það fyrr en nú.

Hrafnarnir hér í bænum virðast annars vera nokkrir tugir ungfugla sem ekki hafa parað sig en aðeins lítill hluti hrafna er svo ráðsettur að eiga maka og bú svo þótt hrafninn sé algengur fugl er varpstofninn ekkert mjög stór. Ætli það séu ekki milli tvö og þrjú þúsund laupar í landinu. Líklega er auðvelt að ganga nærri stofninum með gálauslegri veiði, og krummi er veiddur nokkuð grimmt þótt ekki sé hann talinn ætur. Ég held að margir byssumenn réttlæti þetta með því að krummi sé illfylgi og víst er að margir sveitamenn leggja fæð á hann rétt eins og minkinn og refinn. Ef til vill er hrafninn vargur og illfygli en honum er það þá vorkunn. Svangar kjötætur eiga þess engan kost að vera ímynd friðsemi og kyrrlátrar sælu í augum annarra dýra. En þótt hrafninn sé svona eins og hann er kann ég betur við hann en aðra fugla og mér finnst að hann ætti að vera þjóðartákn okkar því hann er eitt helsta einkennisdýr íslenskrar náttúru. (Meira um krumma á morgun.)

Próflausir áfangar í fjarnámi

Þriðjudagur, 23. janúar 2007

Mörgu af því sem ég frétti í vinnunni má ég ekki segja frá. Þetta eru einkamál annars fólks. Ég reyni því að tala sem minnst um smáatriðin sem ég er að fást við í skólanum. Sumt sem ég verð var við á þó erindi fyrir almenningssjónir og endrum og sinnum birti ég eitthvað vinnutengt opinberlega. Til dæmis skrifaði ég grein um Samkeppni framhaldsskóla í tímaritið Þjóðmál ekki alls fyrir löngu og byggði þá m.a. á vitneskju sem ég fékk frá nemendum.

Í þessari grein benti ég á að samkeppnisumhverfi framhaldsskóla er að sumu leyti óheppilegt. Skólar eru undir of mikilli pressu að laða að sér nemendur með því að bjóða þeim upp á margar einingar með lítilli fyrirhöfn. Það má líka orða þetta svo að meðan ríkið borgar skólum í hlutfalli við fjölda eininga sem nemendur þeirra taka sé hagkvæmt fyrir skóla að gera nemendum auðvelt að taka heldur fleiri einingar en færri.

Í starfi mínu ræði ég alloft við nemendur sem kjósa að taka einstaka áfanga við aðra skóla en þann sem þeir ganga í dags daglega. Sumir þessara nemenda segja blákalt að þeir velji að taka staka áfanga t.d. í fjarnámi eða sumarskóla á þessum eða hinum staðnum vegna þess að þeir séu léttari þar.

Nú er svosem enginn einn mælikvarði á þyngd náms og því erfitt að meta svona fullyrðingar. Ég hef þó orðið svolítið hugsi yfir því sem tveir nemendur hafa nýlega sagt mér. Þeir kusu báðir að taka lokaáfanga í bóklegri grein í fjarnámi við annan skóla og báðir tilgreindu sömu ástæðu, sem er að skólinn sem þeir völdu bjóði þennan áfanga í fjarnámi án lokaprófs. Ég hef ekki kannað hvort nemendurnir sögðu mér satt um þetta en ég hef heldur enga ástæðu til að rengja þá og þykir undarlegt ef þeir hafa ekki greint rétt frá þessu.

Nemendurnir taka umræddan áfanga ekki í sama skóla svo sú tilhögun að gefa aðeins einkunn fyrir verkefni sem öll berast í tölvupósti virðist vera við lýði á fleiri en einum stað. Annar nemandinn sagði mér að hann mundi örugglega ná áfanganum því hann fengi aðstoð við verkefnavinnuna. Ég spurði hinn hvernig kennarinn gæti verið viss um að hann ynni verkefnin sjálfur en léti ekki aðra gera það fyrir sig. Nemandinn áleit að kennarinn gæti ekki vitað það. (Vonandi skjátlast nemandanum um þetta. Ef til vill hefur kennarinn samband við hann t.d. í síma eða hefur einhverjar leiðir til að komast að því ef nemandinn reynir að hafa rangt við og skila verkefnum sem aðrir hafa unnið þó ég sjái ekki í hendi mér hverjar þær leiðir geta verið.)

Nú er ég kannski farinn að blaðra meiru en ég má. En ég er ekki viss um að það sé heldur rétt að þegja yfir þessu svo ég læt það vaða. Ég vona samt að lesendur skilji þetta ekki sem neinn áfellisdóm yfir fjarnámi og sumarskólum svona almennt og yfirleitt. Þar er vafalaust margt vel gert og til sóma.

Dagurinn í dag

Mánudagur, 22. janúar 2007

Vinnudagurinn byrjaði klukkan 8 að vanda. Ég var með forfallasímann til 9 og tók á móti tilkynningum um veikindi nemenda. Svo var þetta venjulega at í vinnunni. Á milli þess sem ég svarði í símann og sinnti erindum fólks sem kom til mín á skrifstofuna setti ég upp útreikninga á nýtingu á kennslu í Excel og lagfærði skráningarkerfi námsráðgjafa í Access. Hvort tveggja svona tækni- og reiknivinna sem mér þykir heldur þægileg. Ég er meira að segja farinn að kunna vel við 2007 útgáfuna af Office sem ég setti upp á fimmtudaginn (þótt notendaskilin séu gerólík eldri útgáfum sem ég var orðinn vanur).

Fyrir þá sem ekki vita hvað útreikningar á nýtingu á kennslu eru get ég þess að það er samatekt um hvort kennsla í hverri deild skólans kostar í raun meira eða minna en ríkið borgar fyrir hana. Ef margar deildir kosta meira en skólinn fær verður halli á rekstrinum og ein helsta skylda stjórnenda í opinberum rekstri er að halda sig innan fjárlaga.

Þessi vinna var rofin í smástund af samstarfsnefndarfundi (en samstarfsnefnd semur um kjör kennara við skólann). Fór svo heim í mat um hálfeitt og aftur í vinnuna rétt fyrir eitt og kom skráningarkerfinu í lag um fjögur. Rauk þá til Reykjavíkur þar sem ég hafði mælt mér mót við Vífil í Kringlunni klukkan 5. Hann fór í bæinn snemma til að fara í starfskynningu hjá Sýrlandi (sem m.a. talsetur myndir fyrir sjónvarp). Vífill var þetta ekki litla ánægður með að hafa fengið að tala inn á Disney mynd sem verður sýnd í morgunsjónvarpi fyrir börn. Erindið í Kringluna var annars að kaupa á hann úlpu. Sú gamla var orðin ansi lítill enda „krakkinn“ að ná mér í hæð.

Heimsóttum Mána í íbúðina sem hann leigir í Litla Skerjafirði ásamt tveim útlendum unglingum. Það var tími til kominn að sjá höllina. Hún var fín og má víst að nokkru þakka það að annar meðleigjandinn sem er sænsk stúlka hafði verið allan daginn að þrífa allt hátt og lágt. Við fórum svo þrír saman út að borða kínamat og í bíó. Sáum Kalda slóð í Regnboganum og höfðum gaman af. Klukkan er 22:55 og ég var að koma heim.

Hef ekki áður skrifað dagbókarfærslu hér um hvernig dagurinn líður hjá sjálfum mér enda býst ég ekki við að mörgum þyki það skipta máli. En kannski vill einhver vita hvað ég geri á svona venjulegum mánudegi. Hver veit.