Nöldur um Borgarleikhúsið og Moggann

Í gærkvöldi fór ég á eina af misheppnuðustu leiksýningum sem ég hef séð. Hún heitir Hér og nú og er í Borgarleikhúsinu. Þetta átti að vera einhvers konar gagnrýni á tilfinningaklámið í gulu pressunni en gagnrýnin risti mjög grunnt. Trúlega átti sýningin líka að vera fyndin en áhorfendur hlógu ekki. Textinn var einfaldlega mislukkaður og þótt þar væru fáeinar góðar hugmyndir komst sýningin aldrei á flug. Allmargir áhorfendur gengu út áður en sýningunni lauk. Mér þykir undarlegt hvernig þessi vitleysa komst alla leið á fjalir Borgarleikhússins. Eru engir sem horfa á æfingar þar og segja leikstjórum ef uppsetningin hjá þeim er hreint flopp?

Fyrst ég er byrjaður að nöldra ætla ég líka að skammast svolítið yfir Morgunblaðinu. Það er leiðinlega mikið af villum í því (ekki bara heimskulegum skoðunum heldur málvillum og texta sem enginn getur mögulega talið að sé boðlegur). Eitt dæmi er frétt blaðsins af skólaslitum við Fjölbrautaskóla Vesturlands (29. des. á bls. 39). Þar stendur orðrétt: „Að vanda fengu nokkrir útskriftarnemar verðlaun og viðurkenningar fyrir góðan námsárgangur og störf að félagsmálum og eru þeir eftirtaldir og nöfn þeirra aðila sem gáfu verðlaun eru innan sviga:“ Síðan er einn af þeim ellefu sem fengu verðlaun nafngreindur og nöfn þeirra sem gáfu verðlaunin eru ekki tilgreind, hvorki innan sviga né annars staðar.

Er Mogginn að verða jafn hroðvirknislega unninn og fríblöðin, 24 stundir og Fréttablaðið?Lokað er fyrir ummæli.