Empires of the Word

Ein af skemmtilegustu bókunum sem ég las á þessu ári heitir Empires of the Word og er eftir enska málvísindamanninn Nicholas Ostler. Ég rakst á hana fyrir tilviljum í Borders bókaversluninni í Glasgow í haust og keypti af einhverri rælni – kannski vegna þess að bækurnar sem ég valdi af ásettu ráði voru heldur þunnar og ræfilslegar og ég vildi hafa eitt virðulegt bindi í innkaupapokanum, en þessi skrudda er rúmar 600 síður.

Empires of the Word fjallar um sögu tungumála sem hafa orðið heimsmál, náð útbreiðslu meðal annarra þjóða en þeirra sem þau eru upprunnin hjá. Fjögurþúsund og fimmhundruð ára málsaga frjósama hálfmánans fær talsvert rúm í fyrri hluta bókarinnar þar sem fjallað er um akkadísku, föníkísku (púnversku), arameísku og arabísku. Þar eru líka langir kaflar um egypsku (koptísku), kínversku og sanskrít.

Höfundurinn er ekki einungis sérfræðingur í tungumálum – með háskólagráður í grísku, latínu, sanskrít og málvísindum og mæltur á 26 tungur samkvæmt því sem segir í Wikipediu. Hann er líka býsna flinkur að segja sögu með grípandi hætti og það er hreint undravert hvernig hann lætur sögu heimsins speglast í sögu tungumálanna.

Sum forn mál hafa breiðst út sem samskiptamál kaupahéðna (svo sem arameíska), önnur hafa átt samleið með trúarbrögðum (til að mynda arabíska) og enn önnur breiðst út með hersigrum og landvinningum (til dæmis gríska með herferðum Alexanders). Sum eiga sér fremur skamma sögu en önnur langa eins og egypskan, sem var töluð í 3000 ár þar til Egyptar snerust til Islam og tóku að mæla á arabísku, kínverska sem á sér líka að minnsta kosti 3000 ára sögu og gríska sem varðveist hefur í rituðum heimildum um enn lengri tíma.

Ostler skiptir sögu sinni í tvo meginhluta. Sá fyrri gerist fyrir landafundi Evrópumanna á 15. öld og sá seinni eftir að þeir voru teknir að sigla vestur til Ameríku og suður fyrir Góðrarvonarhöfða til Asíu. Fyrri hlutinn endar á umfjöllun um grísku, latínu og afkvæmi hennar ásamt stuttri greinargerð fyrir keltenskum, slavneskum og germönskum málum á þjóðflutningatímanum við upphaf miðalda. Seinni hlutinn segir söguna af því hvernig spænska, portúgalska, franska, rússneska og enska hafa breiðst út um heiminn.

Undir lok kaflans um enskuna og útbreiðslu hennar (bls. 520) nefnir Ostler að ensku máli hafi fylgt hugsunarháttur sem kenna má við veraldarhyggju, pragmatisma, frumkvæði í viðskiptum og uppfinningasemi í atvinnulífi.

Tungumálið ber með sér menningu og hugsunarhátt og ef til vill er það rétt að enskan hafi á sér veraldlegt svipmót frá þjóð sem er uppteknari af jarðbundinni hagsýni en háleitum hugsjónum.

Enska er heimsmál okkar tíma og enskukennsla er heilmikill atvinnuvegur um allan heim. Þeir sem hafa lært málið nógu vel til að geta notað það í viðskiptum eru margfalt fleiri en þeir sem eiga ensku að móðurmáli. Ostler áætlar (bls. 542) að um fjórðungur mannkyns kunni eitthvað í ensku þótt aðeins um tólfti partur jarðarbúa eigi ensku að móðurmáli.

En enska er ekki eina málið sem er kennt um allar jarðir og ungt fólk kýs hópum saman að læra bæði í skólum og utan þeirra. Það sama má segja um arabísku. Hún er kennd á námskeiðum út um allt. Bæði þessi mál hafa verið til sem ritmál í um það bil eitt og hálft árþúsund og á báðum eru til bókmenntaperlur, dýrðleg ljóð, heimspekirit og alls konar gersemar. „En leitun mun að ungmenni sem nemur arabísku til að lesa heimspeki Avicenna, Þúsund og eina nótt eða skáldsögur Naguib Mahfouz. Enn færri glíma við ensku til að verða læsir á Biblíu Jakobs konungs eða Almennu bænabókina. Á okkar tímum er arabíska mál Kóransins í augum þeirra sem nema hana. Enska er hins vegar mál viðskipta og dægurmenningar.“ (Bls. 520–521.)

Þessi orð málvísindamannsins eru umhugsunarefni. Getur verið að enskan og arbískan séu orðnar fulltrúar andstæðra póla í menningunni: Þess veraldlega og þess trúarlega?Lokað er fyrir ummæli.