Skólinn og smá athugasemd um tímaritið Þjóðmál

Í dag voru 35 nemendur útskrifaðir úr skólanum. Þetta var óvenjulega öflugur útskriftarhópur að því leyti hvað stór hluti hans var með háar einkunnir. Trúlega munu margir kennarar sakna þessara krakka.

Athöfnin fór fram milli klukkan 14 og 16. Um klukkan 18 var ég búinn að koma upplýsingum um hana ásamt myndum á vef skólans og fór heim í jólafrí, sem er óvenjulangt þetta árið, því á undan aðfangadegi eru laugardagur og sunnudagur sem eru ekki vinnudagar í skólanum. Sennilega skrepp ég samt í vinnunna í smástund að morgni aðfangadags þó ekki sé til annars en að setja jólaskraut á vef skólans.

Lífið gengur annars sinn vanagang. Undirbúningur fyrir vorönn í skólanum er kominn vel á veg. Í gær var ég mestallan daginn að hringja í nemendur og forráðamenn sem af einhverjum ástæðum höfðu ekki greitt innritunargjöld. Strax eftir jól reynum við Jens áfangastjóri svo að leiðrétta val nemenda sem völdu annað hvort of marga áfanga fyrir vorönn eða áfanga sem þeir mega ekki fara í (oftast vegna þess að þeir hafa fallið í undanfara). Þessi vinna er hluti af undirbúningi fyrir töflugerð, sem verður að vera lokið áður en skóli hefst að nýju þann 7. janúar.

Í gærkvöldi las ég það sem enn var ólesið af nýjasta tölublaði Þjóðmála – tímarits um stjórnmál og menningu sem Jakob F. Ásgeirsson ritstýrir. Það eru ekki mörg tímarit sem ég nenni að lesa frá upphafi til enda en hingað til hef ég lesið Þjóðmál spjaldanna á milli, enda eru greinarnar í því yfirleitt mjög læsilegar og talsvert vit í þeim flestum.

Meðal efnis í þessu nýjasta hefti (sem er 4. hefti 3. árgangs) er grein eftir Kristján Kristjánsson sem heitir Til varnar Maríubréfi. Þar andmælir Kristján neikvæðum dómum mínum og Hannesar Gissurarsonar um bókina Bréf til Maríu eftir Einar Má Jónsson. Víst má segja ýmislegt gott um þá bók. Hún er að minnsta kosti ekki leiðinleg og síst ætla ég að halda því fram að minn örstutti pistill í næstnýjasta hefti Þjóðmála hafi sagt allan sannleikann um gildi hennar. Ég hnaut samt um nokkur orð í varnarræðu Kristjáns. Eitt þeirra er „siðrof“. Hann segir (bls. 28):

„Frjálshyggjan“ sem Einar Már segist vera á móti er í raun það sem kalla mætti neytendavædd hagnýtishyggja á sviðum þar sem hún á ekki heima.

Þessi hagnýtishyggja birtist í nútíma byggingarlist er sniðgengur klassísk fagurfræðileg gildi. Einar Már talar hér á svipuðum nótum og Karl Bretaprins og þarf ekki að hafa um það fleiri orð. Hún birtist í öðru lagi í siðrofi eða „fáheyrðum nýbólum“ í siðferði er rutt hafa hefðbundnum gildum úr vegi.

Hér er ekki farið neitt nánar út í hvað siðrof er en orðið gefur í skyn að einu sinni hafi siðferði fólks verið í betra lagi en það er núna. Ekki veit ég hvenær þetta var. Kannski á dögum Breiðavíkurheimilisins. Eða var þetta þegar menn mændu sem mest upp til Hitlers og Stalíns eða jafnvel ennþá fyrr, áður en konur fengu kosningarétt. Ef til vill þegar enn var talið sjálfsagt að selja blökkumenn mansali eða meðan evrópskir þjóðhöfðingjar seldu sjóræningjaleyfi. Vera má að það sé lengra síðan og þetta hafi verið áður en páfinn hætti að versla með aflátsbréf.

Víst eru til illa siðaðir menn nú um stundir og sumir fremja óhæfuverk. En að tala um siðrof sem eitthvert einkenni á nútímanum held ég að sé óttaleg vitleysa. Ég held að hitt sé sönnu nær að nú á tímum sé víða verið að leiðrétta ranglæti og siðleysi sem lengi hefur viðgengist– hvort sem það er kynbundið ofbeldi, ill meðferð á börnum, einelti eða ótuktarskapur við minni máttar.Lokað er fyrir ummæli.