Stríðsbækur

Fyrir hálfgerða tilviljun las ég tvær nýútkomnar bækur um stríð í vikunni sem leið. Aðra fékk ég senda frá útgefanda og hin var ein af fáum nýlegum bókum sem voru inni þegar ég leit við á skólabókasafninu. Þetta eru bækurnar Hið rauða tákn hugprýðinnar eftir Stephen Crane og Um langan veg – frásögn herdrengs eftir Ismael Beah.

Bók Stephen Crane er skáldsaga sem var skrifuð fyrir rúmum 100 árum og gerist í þrælastríðinu í Bandaríkjunum. Höfundur hafði enga reynslu af stríði. Bók hans hefur samt verið hrósað fyrir að vera raunsæ og sönn lýsing á hernaði og frásögn hans af því hvernig ótti og tryllingur ná valdi á fólki virðist mjög trúleg.

Bókin eftir Ishmael Beah er endurminningar manns frá Sierra Leone í Vestur Afríku. Árið 1993, þegar hann var 12 ára réðust uppreisnarmenn gegn ríkisstjórn landsins inn í heimasveit hans og fjöldi fólks var drepinn og aðrir hröktust á vergang, þar á meðal Ishmael. Hann þvældist um með öðrum börnum á flótta undan stríðinu þar til hann var neyddur til að berjast með stjórnarher landsins. Næstu ár tók hann bæði þátt í bardögum og fjöldamorðum á vopnlausu fólki. Honum og öðrum krökkum í hersveitinni var haldið uppi á dópi og þeir breyttust úr venjulegum börnum, sem höfðu gaman af fótbolta og rappi, í óargadýr sem æddu um, brenndu bæi, hröktu fólk að heiman frá sér, pyntuðu og drápu.

Lýsing Ismaels á hræðslunni og tryllingnum er um sumt lík sögu Stepehn Crane. En saga hans er samt ekki bara saga um stríð og hernað. Hún er fyrst og fremst saga sem segir að þótt menn séu afvegaleiddir eru þeir ekki glataðir.

Frásögn Ismaels af veru sinni í hernum er fremur stutt. Mestur hluti bókarinnar gerist annars vegar áður en hann er munstraður í herinn og hins vegar eftir að UNICEF bjargar honum þaðan, hann fer í endurhæfingarbúðir, hættir að nota dóp og sest aftur á skólabekk. Fyrstu vikurnar sem hann var hjá UNICEF tók hann þátt í því með öðrum fyrrverandi herdrengjum að misþyrma fólki og láta öllum illum látum. Hann var góða stund að ná áttum, komast yfir fráhvarfseinkennin og læra venjulega mannasiði upp á nýtt.

Þegar ég las þessa bók rifjaðist upp önnur bók, ekki síður merkileg, þar sem sagt er frá börnum sem neydd voru til að bera vopn og drepa fólk. Þetta er Eleni, saga eftir Nicholas Gage þar sem hann segir frá afdrifum fjölskyldu sinnar í grísku borgarstyrjöldinni. Hún var háð milli kommunista og gríska stjórnarhersins á árunum eftir seinni heimsstyrjöld. Her kommúnista neyddi börn, bæði stráka og stelpur, til að berjast. Þau sem óhlýðnust voru pyntuð og myrt að hinum ásjáandi en Gage getur ekki um að þau hafi verið dópuð til að gera þau að „betri“ bardagamönnum.

Þessi óhugnaður sem Ismael Beah segir frá, og við lesum um í fréttum að tíðkist enn í Úganda og víðar í Afríku, átti sé stað í Evrópu fyrir hálfri öld. Saga Ismaels er öðrum þræði saga eins barns í einu stríði en hún hefur sig líka langt yfir stað og stund og er saga ótal barna á ýmsum tímum. Friðarboðskapurinn í henni er áhrifamikil enda fluttur af manni sem ræðir um það af eigin reynslu hvað friður er mikils virði.Lokað er fyrir ummæli.