Eru fréttir ein grein skemmtanaiðnaðarins?

Fréttir eru sérstök bókmenntagrein sem sver sig um sumt í ætt við spennu- og afþreyingarbókmenntir. Þótt sumir fréttamiðlar reyni sjálfsagt að upplýsa og fræða almenning taka bull og vitleysa verulegt rúm í þeim flestum. Fjölmiðlar þylja endalausar sögur um fólk sem er frægt fyrir það eitt að hafa verið áberandi í fjölmiðlum. Jafnvel þokkalega virðuleg blöð segja frá því, eins og um heimsviðburði sé að ræða, ef Britney Spears og Paris Hilton týna buxunum sínum. Þær eru fréttaefni af því að þær hafa svo oft verið í fréttum.

Undanfarna viku hef ég fylgst með undarlegum fjölmiðlasirkus í kringum Vífil (yngri son minn). Upphaflegt tilefni fréttanna var næstum ekki neitt. Krakkar voru með númer í minni farsíma sem hafði verið slegið inn fyrir nokkrum árum og merkt Bush. Þeir prófuðu að slá á þráðinn og bulluðu svolítið við starfsmann í Hvíta húsinu sem varð fyrir svörum. Svo fór boltinn að rúlla og þetta varð á endanum frétt í tugum ef ekki hundruðum útvarps- og sjónvarpsstöðva um allan heim, vestur til Ameríku og austur til Víetnam. Flest sem ég hef séð af þessum fréttum er svo sem rétt. Ekki beinlínis nein lygi. En samt engar fréttir heldur í raun afþreyingarefni. Fréttamenn eru í hlutverki skemmtikrafta.

Þótt þessi afþreyingariðnaður haldi sig mikið til við staðreyndir tekst íslenskum blaðamönnum samt undarlega oft að klúðra smáatriðum. Í kálfi sem fylgdi Fréttablaðinu í dag fékk Vífill til dæmis nýtt nafn og var kallaður Vífill Örn. Fyrir nokkrum dögum fékk ég sjálfur líka nýtt starfsheiti í DV. Í því blaði hef ég líka einu sinni fengið að heita Ari. Ekki eins og þetta séu nein stórafglöp. En þetta er hroðvirkni og maður spyr sig hvort sá sem ekki getur verið trúr yfir litlu fari ekki líka eins og afglapi með það sem meira máli skiptir.

Sumt af þessum fréttatengda skemmtanaiðnaði er kannski ósköp saklaust og ekkert verra í sjálfu sér heldur en Andrés Önd eða MTV. En hann er ekki allur jafnsaklaus. Einni hlið hans var lýst með athyglisverðum hætti af Guðna Elíssyni í tveim greinum sem birtust í Skírni, tímariti Hins íslenska bókmenntafélags, árið 2006 undir heitinu Dauðinn á forsíðunni: DV og gotnesk heimssýn. Þar gerði Guðni að umtalsefni ákveðna gerð af spennubókmenntum sem eru bornar á borð sem fréttir. Þetta eru frásagnir af afbrotum sem gera brotamennina að ómennskum skrímslum eða segja frá glæpum þannig að lesandinn fær á tilfinninguna að glæpamennirnir séu allt öðru vísi fólk en við hin og geti ráðist á okkur hvenær sem er.

Í íslenskum fréttum hefur helst verið reynt að draga svona „gotneska“ mynd af kynferðisbrotamönnum sem ráðast á börn. Eiturlyfjasalar hafa einnig tekið á sig ámóta ómennska mynd. Þessi gotneska sýn á „the criminal mind“ var býsna áberandi í fréttamiðlum í Bandaríkjunum þegar ég var þar við nám fyrir löngu. Stór hluti fréttatíma fjallaði um glæpi og ofbeldisverk og oftar en ekki voru glæpamennirnir einhvern vegin andlitslaus ógn en ekki manneskjur á villigötum.

Ég held að svona bókmenntir, sem eru settar fram sem bein útsending úr veruleikanum handan við hornið, geti alið á ótta sem fer út fyrir öll skynsamleg mörk. Og það er farið út fyrir öll skynsamleg mörk þegar fólk lætur hræðslu við eitthvað sem er miklu ólíklegra heldur en að hljóta örkuml í bílslysi stjórna hegðun sinni og skoðunum.

Ætli svona spennusagnafréttaflutningur áratug eftir áratug geti haft þau áhrif að fólki fari að þykja eðlilegt að lögreglan hagi sér eins og verðirnir á Kennedyflugvelli sem settu Erlu Ósk Arnardóttur Lilliendahl í járn og fóru með hana eins og hún væri stórhættulegur brjálæðingur? Hún hafði að vísu brotið lög en það var smáafbrot framið fyrir meira en áratug og fólst ekki í öðru en því að fara of seint heim úr skemmtiferð til Bandaríkjanna, eða með öðrum orðum að dvelja þar lengur en vegabréfsáritun hennar leyfði.

Mér finnst trúlegt að sumt sem er ógeðfelldast við meðferð á sakamönnum og meintum sakamönnum hjá vinum okkar í Vesturheimi sé að nokkru leyti afleiðing af viðhorfum sem mótast hafa af spennusögum í gervi frétta.

Í árdaga sjónvarpsins bundu menn vonir við að það mundi bæta almenna menntun, auðga menninguna og styrkja lýðræðið. David Sarnoff sem stofnaði bandarísku sjónvarpsstöðina NBC var hugsjónamaður og reyndi að miðla almenningi listrænu og uppbyggilegu efni. Hann réð meira að segja Arturo Toscanini til að stjórna vikulegum sjónvarpstónleikum. En þessar hugsjónir eru nú flestum gleymdar.

Svei mér þá ef sjónavarpsvædd nútímafjölmiðlun er ekki fremur vatn á myllu óttans og heimskunnar en mennta og menningar.Lokað er fyrir ummæli.