Frumvarp til laga um framhaldsskóla

Menntamálráðherra hefur lagt fram frumvarp til nýrra laga um framhaldsskóla. Ég hirti það af vef Alþingis um leið og það birtist þar og hef lesið það og borið stöku stað saman við gildandi lög. Eftir því sem ég best fæ séð eru nýmæli í frumvarpi ráðherra til töluverðra bóta og frumvarpið í heild hið þarfasta verk og vona ég að það verði að lögum sem fyrst.

Með þessu frumvarpi er að miklu leyti horfið frá þeirri miðstýringu á námskrárgerð og innihaldi náms sem innleidd var með framhaldsskólalögunum 1996 og Aðalnámskrá frá 1999.

Skólar fá nú aftur svigrúm til að móta eigin námskrá og laga hana að breytilegum þörfum nemenda eins og var fyrir 1996. Þeir geta samkvæmt frumvarpinu sett fram tillögur um námsbrautir og innihald náms á þeim og óskað eftir samþykki ráðherra. Ekki verður ráðið af lagatextanum eftir hvaða reglum ráðherra mun fara þegar hún eða hann ákveður hvort tillaga skóla er samþykkt eða henni synjað. Um þetta koma vonandi sæmilega skýr og skiljanleg ákvæði í reglugerð.

(Það er þessu máli að vísu óviðkomandi en mér finnst rétt að nefna að fyrst kona getur verið séra þá getur hún alveg eins verið herra eða ráðherra. Ég vona líka að einstöku karlmaður geti verið hetja þótt „hetja“ sé kvenkynsorð.)Lokað er fyrir ummæli.