Látum skólana gera minna svo börnin læri meira

Í frétt á www.mbl.is segir: „Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, segist… vera vonsvikin vegna niðurstaðna svonefndar PISA-könnunar, alþjóðlegs samanburðar á menntakerfum. Könnunin leiðir í ljós að staða Íslands hefur versnað frá árinu 2000 og Íslendingar eru í næst neðsta sæti af Norðurlöndunum. … Þorgerður Katrín segir að Finnar standi sig best eins og svo oft áður og Íslendingar ættu að líta til kennaramenntunar þeirra. Þá hafi Danir bætt sig frá síðustu könnun og sérstakt átak til að bæta lestrarkunnáttu hafi greinilega skilað sér.“

Það er kannski von að menntamálaráðherra detti helst í hug að bæta úr fremur slökum árangri með því að gera meira af einhverju– bæta t.d. lestrarátaki við það skólastarf sem fyrir er eða bæta ári eða tveim við skólagöngu kennara. Ekki ætla ég svo sem að útiloka að þetta tvennt skili einhverjum árangri. En þetta er samt hugsun sem er föst í sömu gömlu hjólförunum og spólar sig sífellt dýpra niður– hugsun á þá leið að ef eitthvað virkar ekki þá sé það vegna þess að það þurfi meira af því sama: Ef menn megrast ekki af megrunarpillunum á eiga þeir líka að taka megrunarduft; Ef menn verða ekki hamingjusamir þegar þeir hafa eignast hús þá þurfa þeir sumarbústað til viðbótar; Ef mönnum leiðist að hanga við sjónvarpið þarf að kaupa áskrift af fleiri rásum; Ef börn verða ekki lærð af skólagöngu sem kostar milljón á ári þá þurfa þau umönnun og kennslu sem kostar tvær milljónir á ári.

Meira, meira, meira. En það sem raunverulega vantar er ekki meira heldur minna.

Augljósasti vandi skólakerfisins er að það reynir að gera of mikið en ekki of lítið. Þegar ég gekk sjálfur í grunnskóla var til dæmis farið yfir miklu færri efnisatriði í stærðfræði og móðurmáli heldur en núna og það var ekki nóg með að farið væri yfir minna í hverju fagi heldur voru námsgreinarnar líka færri.

Ef reynt er að kenna krökkum mjög margt er trúlegast að flestir þeirra læri ekki neitt. Minni kennsla getur þýtt meira nám. Ofhlaðnar námskrár nútímans bjóða í raun ekki upp á neitt annað en hundavaðshátt. Krakki sem á að kynnast leirmunagerð, prjónaskap og trésmíði í handavinnutímum á sama árinu lærir nokkuð örugglega ekkert af þessu. Krakki sem fær rúman tíma til að vinna eitthvert eitt eigulegt verk, eins og til dæmis að prjóna eina flík eða smíða einn grip, hefur hins vegar menntast töluvert. Unglingur í grunnskóla (sem ekki er snillingur í stærðfræði) lærir lítið ef reynt er að kenna honum á sama árinu algebru, rúmfræði, líkindareikning, viðskiptareikning, mengjafræði og rökfræði eins og reynt er að gera í tíundu bekkjum. Og það er nokkuð örugglega ekki besta leiðin til að bæta hæfni nemenda í móðurmálinu að þræla þeim gegnum heila Íslendingasögu og helling af málfræði á sama hálfa árinu eins og tíðkast í efstu bekkjum grunnskóla. Til að auka enn á yfirborðsmennskuna og menntunarleysið er svo reynt að gösla æ stærri hluta grunnskólanema í gegnum framhaldsskólaáfanga samhliða grunnskólanáminu.

Ætli það væri ekki hægt að skora dálítið hærra í Pisa-könnunum með því að fækka verkefnum skólanna og viðfangsefnunum sem nemendur fást við. Bakka kannski út úr þessari ofurnútímalegu námskrá, jafnvel allt aftur í þá fornöld sem Finnar búa við. Þeir skora hátt í Pisa og skólar þar eru nokkurn veginn eins og þeir voru hér fyrir rúmum 30 árum.10 ummæli við “Látum skólana gera minna svo börnin læri meira”

 1. Björgvin Valur ritar:

  Heyr heyr!

 2. alla ritar:

  Kærar þakkir. Gæti ekki verið meira sammála!

 3. Gísli Baldvinsson ritar:

  Sæll Atli.
  Ágætis vangaveltur. Þú veist að menntastefnan fer í hringi. Sendi þér “komment” sem ég lagði inn hjá Salvöru.
  Þetta er ítarlegir þankar Salvör eins og þín er von og vísa. Að vísu hef ég innbyggða varúð gagnvart meðaltölum og “samræmdum” þekkingarkönnunum (hæfni) milli landa.

  Sum lönd stýrðu því hvernig útökin voru valin en Ísland lét flesta nemendur taka þátt í þessari könnun. Ég er ekki viss að tímabundnar breytur s.s. stundarvelferð hefi mikið að segja. Jafnvel er talað um að skólakerfið hafi brugðist. Þá sprettur alltaf þessi sérkennilega röksemd að Íslendingar “eyða” mest í íslenska skólakerfið. Einkennileg vegna þess að Ísland er hlutfallslega yngst og þar af leiðandi hlutfallslega meiri kostnaður. (Sjá Glance at education). En Danir kippa sér ekki sérlega upp vegna þessa (sjá hér) En hér heima fara ansi margir upp á tærnar. Auðvitað er gott að auka við menntun kennara sem hér felst aðallega í því að bæta við kandidatsári og ritgerðasmíð. Hvernig væri að skoða foreldraábyrgðina? Nemendur hér á Akureyri eru að koma ágætlega út.

 4. Kristinn ritar:

  Orð í tíma töluð.

  Sjálfur hef ég reynslu af skólakerfinu, sem faðir, og tel kennsluna vanrækja um of grunnatriðin.

  Stærðfræðin er á villigötum þar sem línan er að nemendur finni sínar aðferðir, “uppgötvi” og fari út um víðan völl frá degi til dags. Þessar aðferðir eiga a.m.k. ekki við fyrr en búið er að ná tökum og góðri FÆRNI í grunnatriðum, eins og +, -, * og /. Það er einmitt þessi þjálfun sem er vanrækt í náminu og Haraldur veðurfræðingur benti á þegar hann hélt sinn skóla í síðasta kennaraverkfalli. Það er kannski gamaldags að læra margföldunartöflur og reikna heila blaðsíðu af “eins dæmum”, en það er nú einmitt sú æfing sem skapar meistarann.

 5. Atli ritar:

  Mikið til í þessu Kristinn og það gefst ekki tími til að æfa aðalatriðin ef það á að kynna næstum óteljandi viðfangsefni. Að mínu viti er meginhlutverk skólanna að kenna hluti sem er erfitt og seinlegt að ná valdi á (lestur, reikning, tungumál, ritun, …).

  Skólar eru ekki til að kynna ótal efni með yfirborðslegum hætti. Við getum látið sjónvarpið um það.

 6. Fríða ritar:

  Orð í tíma töluð!
  Einbeitum okkur að því að byggja upp góðan grunn og hættum þessu hundavaði sem viðgengst í skólakerfinu.
  Tek heilshugar undir með þeim sem hér hafa skrifað!

 7. Kristján Þorvaldsson ritar:

  Mikið er ég sammála höfundi.

  Reyndar hef ég aldrei skilið þennan umtalaða og heilaga mælikvarða, PISA. Er þar lagt mat á sjálfstæða hugsun, frumkvæði, sköpun og dugnað?

 8. Atli Harðarson ritar:

  Ég veit fátt um Pisa og það er ekki ég sem harma slaka útkomu þar heldur menntamálaráðherra. (Ekki þar fyrir að ég hefði auðvitað glaðst ef Ísland hefði verið í einu af efstu sætunum alveg eins og ég gleðst ef landsliðið vinnur þótt ég hafi ekkert vit á íþróttum.) Ég harma hins vegar að ráðherra skuli bregðast við þessari útkomu með hugmyndum um að gera meira, meira, meira …

 9. Jón Guðmundsson ritar:

  Það er nokkuð ljóst að menntakerfi landsins er að hruni komið. Ég tel að farsælast væri að notast við sama kerfi og þegar ég var í skóla. Þá gekk kennarinn milli bæja í sveitinni og hlýddi okkur krökkunum yfir reglulega, en þess á milli lærðum við Saltarann og reikning. Það gafst mjög vel enda er ég talsvert gáfaðri en fólk er flest.

 10. Erna Bjarnadóttir ritar:

  Atli! Þetta er góður pistill. Sjálf var ég í heimavistarskóla í æsku, við lærðum að prjóna og sauma okkur til gagns. Auk þess auðvitað hefðbundið námsefni. Við vorum aðrahverja viku í skólanum þar til við komum í 7. bekk (nú 8. bekkur). Í samræmdum prófum í 9. bekk (nú 10. bekk) stóð minn bekkur sem taldir rösklega 20 nemendur, sig mjög vel, yfir meðaltali á landsvísu. Sjálf fékk ég A í öllum greinum sem gefi var 7% nemenda. Segi þetta bara til að undirstrika að þrátt fyrir stuttan námstíma gerði skólinn góða hluti. Kennararnir voru góðir og metnaðarfullir og námsefnið hæfði nemendum. Foreldrar hafa líka gríðarlega þýðingu þegar kemur að námsárangri barna en það er önnur saga. Kveðja.