Trúfrelsi (framhald af pistli um Íslamista og naívista)

Á tíundu, elleftu og tólftu öld voru nokkrir af merkustu heimspekingum, vísindamönnum og skáldum veraldarinnar múslimir og bjuggu í löndum sem var stjórnað af múslimum. Fjölfræðingurinn Avicenna var til dæmis uppi í Íran á árunum 980 til 1037. Skáldið Omar Khayyám, sem orti Ferhendur tjaldarans (Rubaiyat), lifði í sama landi frá 1048 til 1131. Averroes bjó í ríki Mára á Spáni og var uppi frá 1126 til 1198. Marga fleiri mætti telja því menning Persa, Araba og fleiri sem fylgdu spámanninum átti glæsilegt blómaskeið á miðöldum. En nú er uppi annað snið. Heimur múslima býr við litla menntun, bág kjör og vont stjórnarfar. Hvernig getur staðið á þessu?

Ég þekki ekki til í löndum Múslima og hef lítið vit á þeirra vandamálum. En ég þykist kunna hrafl í sögu Evrópu og vita dálítið um hvernig upplýsingin leysti Evrópumenn úr viðjum ófrelsis og stöðnunar. Saga hennar hófst í Hollandi og Englandi á 17. öld og hún hófst á baráttu fyrir trúfrelsi og málfrelsi. Í kjölfarið komu svo mannréttindi, frjálst atvinnulíf, lýðræði, jafnrétti og velmegun. Trúfrelsið og málfrelsið voru forsendur þess sem á eftir kom. Um þetta er til dæmis fjallað í bókinni Towards the Light eftir A.C. Grayling sem hér var sagt frá þann 4. nóvember.

Á miðöldum, þegar ríki múslima voru forysturíki í menningu heimsins, var að vísu ekki algert trúfrelsi í þeim, en frjálslyndi í þeim efnum þó heldur meira en víðast meðal kristinna manna. Nú er að mér skilst ekki einu sinni leyft að bera kross um hálsinn og hvað þá að reisa kirkju í Saudi-Arabíu. Í forysturíkjum múslima búa menn við stranga ritskoðun og afar lítið eða jafnvel ekkert trúfrelsi. Það er eins og þar sé upplýsingin ekki byrjuð.

Deilan um skopmyndirnar af Múhameð spámanni sem um er rætt í bókinni Íslamistar og naívistar var öðrum þræði deila um trúfrelsi, málfrelsi og samviskufrelsi. (Sjá pistil frá 19. nóvember.) Í þessari deilu reyndu íslamskir ofsatrúarmenn að þvinga upp á Dani ofurlitlu broti af þeirri ömurlegu kúgun sem Evrópa bjó við fyrir daga upplýsingarinnar og fólk í löndum múslima má þola enn þann dag í dag. Kröfur þeirra voru orðaðar á ýmsa vegu. Einn frasinn var að tjáningarfrelsi mætti ekki ganga svo langt að mönnum leyfðist að „særa trúartilfinningar“ annarra. Á þessu og ámóta rugli var staglast bæði af hátt settum mönnum í löndum múslima og talsmönnum innflytjenda í Evrópu sem aðhyllast íslam. Þetta er vægast sagt undarlegur málflutningur þegar hann kemur úr munni fólks sem ber ábyrgð á stjórnarháttum í löndum þar sem flest trúarbrögð eru annað hvort bönnuð eða strangar skorður settar við boðun þeirra. Það er líka dapurlegt hvað margir evrópskir menntamenn tóku undir þetta holtaþokuvæl um að ekki mætti gera grín að trúarbrögðum.

Hvað þýddi það í raun ef málfrelsi yrði takmarkað þannig að bannað væri að særa trúartilfinningar manna? Getur ekki hver sem er haldið því fram að málflutningur sem honum þykir ógeðfelldur særi trúartilfinningu sína? Yrði bannað að auglýsa pylsur því svínakjötsát og umfjöllun um það gæti sært trúartilfinningar einhverra? Yrði kannski líka bannað að tala opinskátt um getnaðarvarnir eða jafnrétti allra, karla og kvenna? Hvar yrðu mörkin eiginlega? Ætli þau enduðu kannski á sama stað og í Saudi-Arabíu?Ein ummæli við “Trúfrelsi (framhald af pistli um Íslamista og naívista)”

  1. Erna Bjarnadóttir ritar:

    Bendi þér á bókina Infiedel (Frjáls) eftir Ayan Hirsi Ali. kveðja