Íslamistar og naívistar

Bókafélagið Ugla hefur nýlega sent frá sér þýðingu Brynjars Arnarsonar á bókinni Íslamistar og naívistar eftir dönsku hjónin Keren Jespresen og Ralf Pittelkow. Hún er þingmaður og ráðherra og hann er lektor við Kaupmannahafnarháskóla.

Að mínu viti er þetta stórmerkileg bók og afar þörf. Höfundar ræða af mikill þekkingu um stjórnmál og þjóðfélaghræringar jafnframt því sem þau fjalla um tjáningarfrelsi og gildi þess af skarpskyggni sem er óvenjuleg í skrifum um málefni líðandi stundar.

Bókin er að nokkru leyti viðbrögð við írafárinu sem varð þegar Jyllendsposten birti skopmyndir af Múhameð spámanni. En hún er líka úttekt á íslamisma sem stjórnmálahreyfingu og áhrifum hans í Evrópu. (Um skopmyndamálið birti ég pistil á http://this.is/atli þann 13. okt. 2005 og annan 4. feb. 2006 og ég set þá neðst í þessa færslu ef lesandi skyldi vera búinn að gleyma því um hvað málið snerist.)

Íslamisminn, sem um er fjallað í bókinni, er hreyfing strangtrúaðra múslima sem vilja að lög Kóransins gildi sem landslög og samfélagshættir séu lagaðir að þeim. Höfundar færa fyrir því afar skilmerkileg rök að þessi hreyfing sé ekki aðeins trúarleg heldur líka stjórnmálahreyfing sem nýtur vaxandi fylgis, er þegar farin að hafa talsverð áhrif í Evrópu og á það sammerkt með nazismanum og kommúnismanum að virða lítils lýðræði, frelsi og mannréttindi.

Íslamisminn er, samkvæmt Jespersen og Pittelkow, sú hreyfing alræðissinna sem frelsi okkar stafar mest ógn af um þessar mundir. Þau segja:

Baráttan við stjórnmálastefnu íslamismans er sameiginlegt verkefni þeirra sem hallast að frelsi og lýðræði – bæði múslima og annarra. Það er gremjulegur útúrsnúningur að láta sem barátta við íslamisma sé barátta við múslima eða íslam. En það er líka fráleitt að sýna alræðislegum íslamisma skilning eða undanlátssemi í þeirri trú að þar með sé verið að koma til móts við múslima. – Þvert á móti. Með því er verið að bregðast hrapallega þeim múslimum sem óska eftir frelsi og lýðræði. (Bls. 16 til 17.)

Höfundar rekja nokkuð sögu íslamismans og hvernig hann hefur verið í sókn bæði í ríkjum múslima og meðal innflytjenda frá þeim sem sest hafa að í Evrópu. Þau skýra líka hvernig ófrelsið í ríkjum múslima helst í hendur við bágborinn efnahag og hvernig fátæktin ýtir undir hugmyndafræði sem viðheldur kúguninni. En hins vegar fjalla þau ekkert um hvernig fundamentalismi, eða grimmúðug og óbilgjörn bókstafstrú, hefur líka sótt í sig veðrið innan annarra trúarbragða. (Um það fjallaði ég í lesbók Morgunblaðsins 18. júní 2004 og 24. júlí 2004 og verður sú umfjöllun ekki endurtekin hér.) Samanburður á íslamskri, kristinni og gyðinglegri bókstafstrú er að mínu viti ein af forsendum þess að skilja íslamismann. Hann er grein af stærri meiði andspyrnu gegn upplýsingu, frelsi og opnu samfélagi.

Eins og titill bókarinnar bendir til er hún ekki einungis um íslamisma heldur líka um naívisma, barnaskap þeirra sem halda að hægt sé að eyða ógninni með pólitískri rétthugsun eða ná sáttum við alræðissinna. Þarna fær Evrópusambandið nokkur skeyti eins og það á skilið. Höfundar segja meðal annars:

Rétthugsunin var sérlega áberandi hjá stjórnanda utanríkisstefnu sambandsins, Javier Solana. Hann fullvissaði aðalritara Íslömsku samvinnustofnunarinnar (OIC) um að í Evrópu litu menn á teikningarnar [af Múhameð í Jyllandsposten] sem „óhapp“ og með „vanþóknun og leiða“.

Svo fór Solana í ferð um Mið-Austurlönd þar sem hann neri saman höndum í iðrun. …

Viðbrögð Solanas í Múhameðsdeilunni voru ekkert einsdæmi. Þau byggðust á langri hefð innan sambandsins sem hann sjálfur hefur fylgt áður. Gott dæmi er skjal frá árinu 2003, sem heitir: „Styrking félagsskapar Evrópu við Arabaheiminn.“ Það kom frá Solana og Evrópusambandsnefndinni og var stílað á Evrópska ráðið (sem sagt fund forsætisráðherra ríkjanna).

Þar var lögð áhersla á að Sambandið skyldi tryggja „jafnvægi í umfjöllun evrópskra fjölmiðla þegar fjallað er um efni sem tengjast arabaheiminum.“ Það er út af fyrir sig forvitnileg spurning hvernig Sambandið eigi að fara að því í tilviki frjálsra fjölmiðla. Einnig er forvitnilegt við skjalið að þar er hvergi minnst á neina tryggingu fyrir jafnvægi í umfjöllun um Vesturlönd í arabískum fjölmiðlum. (Bls. 224 til 226.)

Þetta dæmi af Javier Solana er aðeins eitt af ótalmörgum um hvernig þokukenndir draumar um „fjölmenningu“, pólitísk „rétthugsun“ og alls konar vinstra kjaftæði gerir fólk sem er fylgjandi mannréttindum, skoðanafrelsi og jafnrétti kynjanna berskjaldað fyrir ásælni íslamisma. Þessi barnalegi vesaldómur birtist í ýmsum myndum. Ein þeirra er „litla svarta Sambó heilkennið.“ Gefum Jespersen og Pittelkow aftur orðið:

… „litla svarta Sambó heilkennið“ … felst í því að ekki þyki viðeigandi að gera sömu kröfur til fólks af framandi uppruna, þar á meðal múslima, og gerðar eru til Vesturlandabúa. …

Með aðstoð litla svarta Sambós geta menn ástundað tvöfalt siðgæði: þeir geta haldið uppi frjálslyndri ímynd með harkalegri gagnrýni á kristna og aðra „afturhaldsseggi“ sem upprunnir eru í Evrópu. Á sama tíma styðja þeir trúarpólitík af íslömskum uppruna sem er andstæð frelsi. Þeir auðsýna mikinn skilning ef múslimar óska bænaherbergja á vinnustöðum, en ef kristnir bæðu um altari á sama stað yrðu þeir fremstir í flokki með nístandi háð. (Bls. 184 til 185.)

Ég læt þetta duga í bili um þessa ágætu bók en ég býst við að skrifa aðra hugleiðingu um hana á næstu dögum.

Muhammeds ansigt - pistill af http://this.is/atli/ frá 13. október 2005
Hvað væri skynsamlegt að gera ef strangtrúaðir kaþólikkar sem telja sölu á smokkum hin verstu helgispjöll hótuðu að myrða ritstjóra vegna þess að hann legði nafn guðs við hégóma eða vegna þess að smokkar hefðu verið auglýstir í blaði hans? Ættum við að hneykslast á ritstjóranum fyrir að ofbjóða hinum trúuðu? Ég held ekki. Raunar held ég að ef ritstjóra væri hótað lífláti fyrir að birta sárasaklaust efni í blaði sínu ættu allir aðrir fjölmiðlamenn sem unna ritfrelsi að ganga í lið með honum og birta samsvarandi efni. Ætli morðóðum ofsatrúarmönnum féllust ekki hendur ef þeir þyrftu að kála þúsundum ritstjóra.

Einhverjum kann að þykja þetta allt heldur fjarstæðukennt. En annað eins gerist. Þann 29. september birti Jyllandsposten (www.jp.dk) tólf teikningar af Múhameð spámanni undir fyrirsögninni „Muhammeds ansigt“. Það var broddur í sumum þeirra, sérstaklega þeirri næst síðustu sem sýnir teiknara sem hefur falið sig og dregið fyrir glugga meðan hann laumast til að teikna andlit spámannsins. Þessi mynd minnir á þá sjálfsritskoðun sem menn leggja á sig vegna ótta við morðvarga sem drepa fólk í nafni þess guðs sem Kóraninn kallar hinn milda og miskunnsama. Slík sjálfsritskoðun hefur færst í vöxt undanfarin ár, a.m.k. síðan íranskir klerkar dæmdu Shalman Rushdie til dauða fyrir að skrifa Söngva Satans.

Myndirnar í Jyllandsposten gerðu ekki lítið úr Múhameð. Þær voru miklu frekar gagnrýni á sjálfsritskoðun og uppreisn gegn óttanum. Og það þurfti hugrekki til að birta þær því starfsmönnum blaðsins hafa borist morðhótanir. Og hver hafa viðbrögðin verið? Sumir sem telja sig frjálslynda og víðsýna hafa andmælt myndbirtingunni á þeim forsendum að virða beri trú múslima. Ég veit ekki hvernig þetta sama fólk hefði brugðist við ef kaþólskir ofsatrúarmenn hefðu hótað að myrða ritsjóra Jyllandsposten fyrir að auglýsa smokka eða leggja nafn guðs við hégóma eða gera eitthvað annað sem þeir telja viðurstyggð en er samt fullkomlega heimilt samkvæmt dönskum lögum? Hitt þykist ég vita að það sé ekkert vit í öðru en að bregðast eins við. Mér vitanlega er engin ástæða til að gera upp á milli Islam og Kristni eða meðhöndla múslimi með öðrum hætti en t.d. kaþólikka. Trúlega væri réttast að allir ritstjórar sem láta sér annt um tjáningarfrelsi, hvort sem þeir gefa út blöð í Danmörku, á Íslandi eða annars staðar birti teiknimynd af Múhameð strax á morgun. Þar með væri hræðslunni gefið langt nef svo hún hrökklaðist burt og léti ekki meira á sér kræla.

Myndirnar af Múhameð - pistill af http://this.is/atli/ frá 4. febrúar 2006
Í lok september birti Jyllandsposten (www.jp.dk) nokkrar teiknimyndir af Múhameð spámanni (sjá skrif hér frá því í október). Umræðan hefur síðan undið upp á sig og æsingurinn út af þessum teiknimyndum aukist stig af stigi. Sumt er merkilegt í þessari umræðu, sérstaklega kannski hvernig margir Vesturlandabúar sem hafa samúð með málstað trúaðra múslima láta eins og Jyllandsposten hafi bara tekið upp á því af tilefnislausu að ráðast á það sem öðrum er heilagt. Þessar teiknimyndir voru ekki tilefnislaus árás heldur viðbrögð við ástandi sem íslamskir ofsatrúarmenn hafa búið til. Þeir hafa hvað eftir annað hótað að myrða menn sem tjá sig á annan hátt en þeir álíta guði þóknanlegt. Frægasta dæmið um þetta er auðvitað dauðadómurinn yfir Shalman Rushdie. Afleiðing þessara hótana er að fjölmiðlar eru farnir að tipla á tánum í kringum málefni sem varða islam og samfélög múslima í Evrópu. Menn þora ekki að segja hug sinn af ótta við ofbeldisverk. Þegar svo er komið er fullt vit í að gera uppreisn gegn óttanum eins og Jyllandsposten gerði síðasta haust. Evrópskir múslimir geta komið í veg fyrir að þörf sé á slíkri uppreisn. Leiðtogar þeirra geta t.d. minnt á að ef einhver drepur Shalman Rushdie þá sé það eins og hvert annað morð, hvorki göfugt né guði þóknanlegt. Þeir geta líka minnt á að morðið á Theo van Gogh var ódæðisverk og ekkert annað.

Meðan áhrifamiklir talsmenn trúarbragða gefa því undir fótinn að það eigi að svara gagnrýni með morðum og ofbeldi er fráleitt að þeir sem ekki eru sekir um neitt verra en svolítið „guðlast“ á léttum nótum þurfi að biðjast afsökunar. Umburðalyndið og skilningurinn á málstað innflytjenda í Evrópu er komið út í hreina vitleysu ef menn eru hættir að skilja að morðhótun er alvarlegur glæpur, en teiknimyndagerð (jafnvel þótt smekklaus sé, óviðkunnanleg eða kjánaleg) er ekki glæpur.3 ummæli við “Íslamistar og naívistar”

 1. Pétur Björgvin ritar:

  Takk fyrir þessa ábendingu, var rétt byrjaður að lesa bókina á dönsku, datt ekki í hug að leita að henni á íslensku. Áhugavert reyndar að þú flokkar þessa færslu ekki undir trúarbrögð!

 2. Linda ritar:

  Frábær grein og ég er svo innilega sammála þér, las þessa bók, tók góðan tíma í hana og íhugaði vel og vandlega það sem sagt var og ég verð að segja að ég get ekki mælt nóg með henni. Trúaröfgar hvort um sé að ræða í Íslams eða öðrum trúarbrögðum þ.á.m. minni trú (kristni) er ekki ásættanlegt, fólk má vitanlega vera heittrúað og einlægt í sínu trúarlífi, en ekki á kostnað annar þegna í samfélaginu, með hatri, hótunum og frelsisskerðingu.

  kv.

 3. Gunnar ritar:

  Byrjaði að lesa þessa bók, en hætti. Fer mjög í taugarnar á mér þegar fólk staðhæfir hluti og getur engra heimilda. Jafnvel fullyrðir slíkt um stóra hópa fólks. Það getur verið að ég klári hana, en þetta pirraði mig verulega.
  Ekki mjög fagmannleg nálgun, finnst mér. Hef búið erlendis og m.a. umgengist múslima og unnið með slíkum. Allt var þetta eðal fólk.