Málþing um heimspeki í skólum

Í dag sat ég málþing um heimspeki í skólum sem haldið var í Háskóla Íslands. Þar sem ég hef sjálfur fengist við að kanna slík fræði í framhaldsskóla í rúma tvo áratugi, og verið heldur einn á báti við þá iðju, hlakkaði ég til að hitta aðra sem fást við svipaða kennslu.

Sumt af því sem þarna var sagt á ég sjálfsagt eftir að hugleiða og nota svo síðar, vonandi til einhvers gagns fyrir nemendur mína.

Þótt margt hafi verið vel sagt á málþinginu fannst mér dálítið miður hvað sumir fyrirlesarar tóku mikið upp í sig og voru fullyrðingaglaðir um gagnsemi heimspekikennslu. Allir virtust sammála um mikilvægi þess að innræta börnum og unglingum gagnrýna hugsun. En heimspekingar sem boða gildi slíkrar hugsunar eru að mínu viti ekki mjög trúverðugir nema þeir séu að minnsta kosti ofurlítið gagnrýnir á sjálfa sig og sín eigin fræði.

Lengst gekk síðasti ræðumaður, Kristín H. Sætran, sem hélt því bæði fram að íslenskir framhaldsskólar væru ómögulegir og nemendum þeirra leiddist og að heimspekikennsla fyrir alla nemendur gæti útrýmt leiðindunum, komið í veg fyrir brottfall, sparað ríkinu stórfé og nánast leyst allan vanda skólanna.

Mér þótt hún ýkja nokkuð ágalla skólakerfisins. En hvað um það. Gallalaust er það ekki og full þörf á duglegum umbótamönnum með ferskar hugmyndir. En það er samt frekar ódýrt að halda því fram á fundi með 20 heimspekimenntuðum mönnum að heimspekikennsla sé lausnin. Það væri mun djarfara að fara með slíkan boðskap á fund með fulltrúum annarra fræðigreina, sem flestir vilja koma sínum hugðarefnum að í skólakerfinu.

Sjálfur hef ég efasemdir um að heimspeki sé heppilegt skyldufag fyrir alla nemendur. Hún kann að eiga erindi inn í ýmsar greinar. Til dæmis á siðfræði erindi í lífsleikni, þekkingarfræði í ýmis bókleg fög og rökfræði má vera hluti af stærðfræðikennslunni. Flest skólastarf getur líka haft gagn af samræðulist í anda Sókratesar, svolitlum skammti af efahyggju og vilja til að skoða alls konar hugmyndir í stað þess að dæma allt sem ekki passar við kennslubókina úr leik að lítt athuguðu máli. Þetta gera góðir kennarar í ótal greinum. Til þess þarf vissulega talsverða samskiptahæfileika, skarpa greind og sjálfsöryggi til viðbótar við gott vald á námsgreininni. Kennarar sem loka á samræður og slá á puttana á nemendum sem segja eitthvað frumlegt eru trúlega flestir frekar litlir í sér. Þeir stækka hvorki né fara að leita sér að annarri vinnu þótt bætt sé nýrri námsgrein í stundatöflur nemendanna.

Heimspeki sem skyldufag er tæplega til þess fallin að útrýma leiðindum úr skólastofunum, því þótt heimspekingum kunni að finnast það ótrúlegt þá þykir sumu fólki heimspeki ekkert skemmtileg. (Mig rámar líka í að hafa einu sinni hitt íþróttakennara sem fannst ótrúlegt að nokkrum manni leiddust boltaleikir.)

Heimspeki í framhaldsskólum hefur hingað til verið skemmtileg, meðal annars vegna þess að hún hefur verið valgrein svo nemendurnir hafa gengið til leiks með því hugarfari að þetta yrði gaman. Hluti af skemmtilegheitunum er líka vegna þess að kennararnir geta skipulagt kennsluna eftir eigin höfði, en þurfa ekki að fylgja neinni námskrá. Þeir geta því, hver og einn, miðlað því sem þeim sjálfum finnst merkilegt og notið sín sem persónur í kennslunni. Þessar tvær uppsprettur skemmtilegheita munu líklega úr sögunni um leið og aðalnámskrá skilgreinir heimspeki sem skyldufag.Lokað er fyrir ummæli.