Nýjar reglur um fjárfestingaráðgjöf og verðbréfaviðskipti

Hvílík dýrð og hvílík dásemd. Ég fékk bæði bréf frá Landsbankanum og Kaupþingi þar sem mér voru „kynntar“ nýjar reglur um fjárfestingaráðgjöf og verðbréfaviðskipti. Af innbyggðri samviskusemi renndi ég yfir fyrra bréfið, en þótt ég reyndi skildi ég ekki nærri allt sem í því stóð. Ég skildi þó að bankinn ætlaðist til að ég staðfesti að ég hefði kynnt mér þessar reglur.

Það var lína á einu blaðinu sem ég gat kvittað í og greinilega gert ráð fyrir að ég sendi bankanum bréfið til baka með undirskrift sem staðfesti að ég hefði sett mig inn í eitthvað sem ég skildi ekki. Ég kunni ekki við að setja nafnið mitt undir þetta, enda varla hægt að segjast hafa kynnt sér mál ef maður veit ekki enn almennilega um hvað það snýst. Ég hringdi því í bankann og spurði hvort ég mætti ekki bara treysta honum áfram fyrir peningunum mínum án þess að ljúga því upp á mig að ég hefði meðtekið efni bréfsins.

Konan sem varð fyrir svörum sagði að bankanum væri óheimilt að aðstoða mig við fjárfestingar í hlutabréfum fyrr en ég hefði staðfest að ég hefði kynnt mér reglurnar– þetta væru fyrirmæli frá æðstu stöðum í sjálfri Brussell og þau væru í lög leidd til að vernda neytendur og tryggja þeim góða þjónustu. Þetta var kurteis kona og mér þótti heldur óviðkunnanlegt að þræta við hana svo ég spurði hvort ég gæti ekki bara gefið bankanum munnlegt leyfi til að sjá um mín mál án þess að skrifa undir neitt. Hún kvaðst þá geta merkt við á einhverjum stað, sem ég man ekki hvað hún kallaði, að ég hefði staðfest að mér væru kunngerðar reglurnar góðu. Ég gerði ekki athugasemdir við það.

Vel má vera að þetta regluverk sé sett í þeim tilgangi að tryggja hag okkar sem eigum viðskipti við banka. Og það er líka vel trúlegt að einhvern daginn verði bakaríum bannað að selja mér snúð og vínarbraut eða ráðleggja mér um val á afmælistertu nema ég kvitti fyrir að hafa kynnt mér áhrif þess á heilsuna að úða í mig sætabrauði. Þær reglur verða sjálfsagt líka settar í góðum tilgangi. En það er eins og Hallgrímur sagði Passíusálmunum að „góð meining enga gjörir stoð“ enda ekkert mikið meiri vandi að vera pest og plága í góðum tilgangi heldur en illum.

Ef ég hef viðskipti við banka og skrifa ekki upp á að kunna eða þekkja neinar sérstakar reglur þá er það sem bankinn má gera mér takmarkað af lögum og þeim loforðum sem hann gefur. Að ég segist kunna, þekkja eða skilja lögin getur tæpast takmarkað svigrúm eða rétt bankans til að taka sína hagsmuni fram yfir mína. Hins vegar getur slík undirskrift, ef mér skjátlast ekki, undir vissum kringumstæðum rýmkað heimildir bankans á minn kostnað. Ef það er eitthvað sem er bannað að gera mér, nema ég veiti til þess samþykki, þá getur undirskrift sem staðfestir að ég hafi kynnt mér einhver ákvæði, ásamt þeirri staðreynd að ég hef ekki andmælt þeim, líklega jafngilt slíku samþykki.

Ég skildi ekki þessar reglur og átta mig því ekki á hvernig þær vernda mína hagsmuni. Ég skil ekki heldur hvaða vernd mér getur verið í því að staðfesta að ég hafi kynnt mér reglurnar. Ætli ég verði ekki enn jafnskilningsvana þegar umhyggjusöm yfirvöld í Brussell setja svipaðar reglur fyrir bakarí og þau hafa nú sett fyrir banka. Og hvað með þá sem eru bara of takmarkaðir til að geta kynnt sér flóknar reglur? Verður kannski bannað að eiga viðskipti við þá, greiðslukortin þeirra klippt í sundur og þeir geymdir einhvers staðar afsíðis sjálfum sér til verndar og hagsbóta?Lokað er fyrir ummæli.