Hvert er málið með verðkannanir?

Ef ég ætlaði að gera verkönnun mundi ég líklega velja svona 20 vörutegundir af handahófi og senda einhverja í nokkrar verslanir til að kaupa jafnmikið í þeim öllum og hirða strimilinn. Ef þetta er gert oft hlýtur að fást niðurstaða sem er þokkalega marktæk. Sennilega þarf þó að fá nokkuð stóran hóp af fólki til að fara í búðirnar svo ekki sé hætta á að verslunarmenn fari að þekkja þessa kúnna og veita þeim sérstök vildarkjör.

Það virðist ekki mjög flókið mál að gera verkönnun– varla neitt mikið flóknara heldur en að gera skoðanakönnun. En einhvern veginn hefur samt tekist að framkvæma þetta þannig að verslunareigendur geta auðveldlega svindlað og látið koma fram lægra verð í könnunum heldur en það sem viðskiptavinir greiða í raun og veru. Og vegna þess að þeir geta auðveldlega svindlað eru þeir auðvitað grunaðir um að gera það.

Stofnanirnar sem framkvæma verðkannanir pæla nú í að taka upp nýjar aðferðir í stað þess að koma í búðir og tilkynna að nú eigi að gera verðkönnun og biðja verslunarmennina að finna vörurnar fyrir sig. Nýju aðferðirnar sem á að taka upp eiga, að mér skilst, að vera eins og þær gömlu að því leyti að um þær verður samið við verslunarmenn og þeir beðnir að afhenda upplýsingar um verð. Og auðvitað verður áfram freistandi fyrir þá að hagræða þessum upplýsingum og auðvitað verða þeir áfram grunaðir um að falla fyrir þeim freistingum.

Þetta er álíka gáfulegt eins og ef Gallup semdi við stjórnmálaflokkana um hverja ætti að hringja í þegar eru gerðar skoðanakannanir eða ef löggan hefði samkomulag við bifreiðaeigendur um hvar og hvenær hún yrði með umferðareftirlit.Lokað er fyrir ummæli.