Langt á eftir öðrum þjóðum

Fólk sem er pirrað og ergilegt yfir einhverju, hvort sem það er langur vinnudagur, háir vextir, vondir vegir eða vínlausar matvörubúðir ber Ísland oft saman við einhver ótiltekin útlönd. Algengasta leiðin til að tjá óánægju er að segja eitthvað á borð við „þetta er langt á eftir því sem gerist í öðrum löndum“, „erlendis væri þetta aldrei liðið“ eða „svona nokkuð tíðkast hvergi með siðmenntuðum þjóðum.“ Svona orðalag kemur fyrir í fjölmiðlum á hverjum degi. Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er til dæmis vitnað í konu sem heitir Gerður. Hún er að tala um bág kjör fatlaðs manns og segir „… það er staðreynd að Ísland er langt á eftir öðrum löndum hvað þetta varðar, …“

Nú veit ég svo sem ekkert hvernig kjörum fatlaðra er háttað í Afghanistan, Angóla, Argentínu og öllum hinum löndunum sem eru fyrir aftan þau í stafrófinu en ég giska á að í þeim flestum sé ástandið talsvert verra en hér. En þeir sem bera ástand mála á Íslandi saman við það sem gerist í einhverjum ótilteknum útlöndum eru kannski ekki að tala um Afghanistan, Angóla og Argentínu heldur einungis löndin í Vestur Evrópu eða við Norðanvert Atlantshaf eða kannski bara Norðurlöndin.

Svo merkilegt sem það er þá eru nær aldrei nein lönd tilgreind þegar fólk lýsir gremju sinni með því að fullyrða að allt sé betra í útlöndum. Útlöndin eru ævinlega einhver ótilgreind lönd. Þegar vegir eru betri í útlöndum þá eru þeir það í öllum öðrum löndum svona almennt og yfirleitt. Enginn nennir að bera vegi sem tengja 500 manna byggðir hér saman við vegi sem tengja jafnfámennar byggðir á einhverjum tilteknum stað í öðru landi.

Ein af ástæðum þessa er sjálfsagt að það þarf talsvert mikla þekkingu til að bera hluti saman af skynsamlegu viti en menn þurfa ekkert að vita til að gefa yfirlýsingar um útlönd almennt og yfirleitt. Það er sama hvað er fullyrt um dásemdir annarra landa, það má vafalítið til sanns vegar færa einhvers staðar á jörðinni. Svona fullyrðingar verða ekki hraktar því þær eru nær algerlega innihaldslausar og raunar gæti pirrað fólk í öllum löndum notað þær, því það er líklega sama hvar borið er niður alls staðar er eitthvað sem er í betra lagi einhvers staðar annars staðar.

Önnur ástæða er trúlega að nákvæmur samanburður er sjaldnast nógu óhagstæður fyrir ástand mála hér til að hægt sé að gera sér mikinn mat úr honum. Lífið er nefnilega, eftir því sem ég best veit, erfitt nokkuð víða um heim.

Mikilvægasta ástæðan fyrir öllum þessum yfirlýsingum um samanburð á Íslandi og ónefndum útlöndum er samt trúlega hvað það virkar gáfulegt og heimsborgaralegt að hafa yfirlýsingar um útlönd á hraðbergi, ekki bara þessi fáu sem maður hefur heimsótt í sumarfríum, heldur bara útlöndin öll eins og þau leggja sig. Með þessu er hægt að slá tvær flugur í einu höggi, nefnilega að tjá pirring og ergelsi og láta í veðri vaka að maður sé vel að sér og þekki til í hinum stóra heimi. En óneitanlega væri miklu heiðarlegra að segja bara hreint út: „Ég er pirraður.“Ein ummæli við “Langt á eftir öðrum þjóðum”

  1. Þórður Ingvarsson ritar:

    Akkú-fokking-rat! Afsakið orðbragðið.