Towards the Light

Fyrr á þessu ári kom út hjá Bloomsbury forlaginu í London bók eftir A.C. Grayling sem heitir Towards the Light – The Story of the Struggles for Liberty & Rights That Made the Modern West. Í þessari bók er rakin saga mannréttinda og mannréttindabaráttu frá dögum Spænska rannsóknarréttarins til „stríðsins gegn hryðjuverkum“ nú í byrjun 21. aldar.

Grayling segir þessa sögu af miklum lærdómi. Hann hefur víða yfirsýn og fjallar með jafnljósum hætti um siðaskiptin, baráttu fyrir trúfrelsi, upplýsinguna, þróun lýðræðis og kvenréttinda, afnám þrælahalds, stofnun verkalýðsfélaga og mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna svo nefnd sé nokkur efni sem fá rúm í þessari ágætu bók.

Þótt komið sé víða við missir lesandi aldrei þráðinn. Sagan sem sögð er í bókinni fjallar um eitt efni, hvernig alþýðufólk á Vesturlöndum eignaðist smám saman réttindi og öðlaðist frelsi sem enga nema æðstu menn gat dreymt um á fyrri öldum. Þetta var löng barátta og kröfum sem nú virðast sjálfsagðar var aftur og aftur svarað af yfirvöldum með hervaldi, fangelsunum, pyntingum og morðum.

Lokakafli bókarinnar fjallar um hvernig frelsi og mannréttindum farnast á okkar tímum og þar reynir Grayling að draga saman lærdóma sögunnar. Hann gerir sér fullvel ljóst að mannréttindi hafa alltaf átt undir högg að sækja en hefur áhyggjur af því að nú um stundir láti menn sér um of í léttu rúmi liggja þegar þau eru skert, oftast í nafni öryggis og almannahagsmuna.

Dæmin um nýleg bakslög í mannréttindamálum sem Grayling tekur eru frá Bretlandi og Bandaríkjunum þar sem heimildir lögreglu og jafnvel hers til að njósna um fólk, hneppa í varðhald og beita harðræði við yfirheyrslur hafa verið rýmkaðar allverulega í þeim yfirlýsta tilgangi að koma í veg fyrir hryðjuverk. Mér virðist svipað vera uppi á teningnum í mörgum löndum og að sótt sé að mannréttindum af fleirum en þeim sem eru með hryðjuverkamenn á heilanum. Hræðsla við eiturlyfjasala, öfugugga, illþýði (bæði ímyndað og raunverulegt) og alls konar grýlur ýta undir kröfur um að lögregla fái að njósna um daglegt líf fólks og jafnvel að mönnum sé refsað án þess sekt þeirra sé í raun sönnuð.

Umræða sem elur á sífelldum ótta skapar andrúmsloft þar sem virðing fyrir mannréttindum á heldur erfitt uppdráttar. Grayling hefur því unnið þarft verk með því að skrifa þessa bók enda verður kannski aldrei of oft minnt á að samfélag sem tekur öryggi fram yfir frelsi fær að öllum líkindum hvorugt.Lokað er fyrir ummæli.