Að leiðrétta Biblíuna

Þeir sem þýddu nýjustu útgáfu Biblíunnar á íslensku virðast hafa tekið það upp hjá sér að leiðrétta fáeina ritningarstaði. Skrifa til dæmis „systkini“ þar sem stendur „bróðir“ (αδελφος) í gríska textanum.

Nú dettur mér ekki í hug að neita því að hinir fornu skrifarar hefðu betur gert bræðrum og systrum jafnhátt undir höfði. En mér finnst líka að þeir sem skrifuðu bækur Biblíunnar hefðu vel mátt hugsa sig betur um áður en þeir eignuðu guði sínum ýmsar verri kenjar en þá að taka bræður fram yfir systur. Dæmin eru mörg. Hér er eitt úr 23. kafla 3. Mósebókar:

Drottinn talaði við Móse og sagði: „Leið þú lastmælandann út fyrir herbúðirnar, og allir þeir, er heyrt hafa, skulu leggja hendur sínar á höfuð honum, og því næst skal allur söfnuðurinn grýta hann. Og þú skalt tala við Ísraelsmenn og segja: ,Hver sá, er formælir Guði sínum, bakar sér synd. Og sá er lastmælir nafni Drottins, skal líflátinn verða. Allur söfnuðurinn skal vægðarlaust grýta hann. …“

Ætti þýðandi kannski að leiðrétta þetta og láta Guð segja eitthvað annað við Móse, eitthvað sem samræmist betur hugmyndum trúaðra nútímamanna um sanngjörn og góðhjörtuð máttarvöld sem viðurkenna ekki bara jafnrétti karla og kvenna heldur líka málfrelsi og almenn mannréttindi?

Ættu þeir sem vilja breyta bræðrum í systkini, til að Biblían verði í anda jafnréttis, ekki að svara þessu játandi og leiðrétta bara alla bókina frá upphafi til enda og gera það almennilega svo enginn geti brigslað almættinu um forpokun eða hallærislega gamaldags skoðanir?

Mín vegna mega þeir það svo sem en ég vildi þá að þeir kölluðu sig eitthvað annað en þýðendur.

Eitthvað þessu líkt gerði enski presturinn Thomas Bowdler (1754 – 1825) sem gaf verk Shakespeares út án allra klúryrða. Hann lagaði sögur Gamla Testamentisins líka til svo þær hæfðu siðprúðum enskum börnum. Bowdler þessi er frægur af endemum og líklega mun pempíuskapur hans lengi uppi, því sögnin to bowdlerise er dregin af nafni hans. En hún merkir að breyta texta til þess að þjóna undir tilgerð og tepruskap.15 ummæli við “Að leiðrétta Biblíuna”

 1. Carlos ritar:

  Athyglisvert þýðingardæmi sem þú dregur fram, Atli. Í því er gefið í skyn að konur syndga ekki, enda eru fornöfnin sá og hann í karlkyni eingöngu í frumtextanum. Vissulega mætti koma í neðanmálsgrein að fornar þjóðir litu á konur sem annars flokks en karla, líka Israel og Júda … og spurning hvort það hefði verið heppilegra en að nota orðið “systkin”. En dregur ekki nýja þýðingin athygli að því hvað Íslenskan er sjálf höll undir karlkynið, fyrst tilraunir um að tala máli beggja kynja stinga í stúf við viðtekna málvenju? Er ekki mál að linni?

 2. Eyja ritar:

  Textabrotið sem þú birtir mætti t.d. “þýða” svona:
  Drottinn talaði við Móse og sagði: „Leið þú lastmælandann út fyrir herbúðirnar, og ræddu rólega við hann. Kannaðu hvort hegðun hans stafi af vanlíðan og bjóddu honum aðstoð þína. Fáðu hann til að biðja alla þá, er heyrt hafa, afsökunar, og því næst skal allur söfnuðurinn faðma hann.

  Ég er reyndar ekki sammála því að tilgerð eða tepruskapur liggi að baki í þessu tilfelli. Ég get vel skilið að kristnum jafnréttissinnum svíði margt sem stendur í Biblíunni og að þeir vilji sækja innblástur sinn í jafnréttiskenndari texta og það er ekkert teprulegt við það. En vissulega væri kannski réttara að hlutaðeigandi kölluðu sig “túlkendur” fremur en “þýðendur”.

  Í raun snýst kannski málið um stöðu gamalla trúarrita. E.t.v. er eðlilegt að meðhöndla trúarrit sem enn eru í notkun á annan hátt en bókmenntir sem fólk les í öðrum tilgangi. Kannski er best að trúarrit séu endurskrifuð oft og iðulega í takt við þróun hinna ýmsu siðferðilegu hugmynda í samfélaginu. Og ef þannig er hugsað er auðvitað afar margt sem mætti breyta í Biblíunni. En eins og þú nefnir væri auðvitað ónákvæmni að kalla slíka endurritun þýðingu.

 3. Atli ritar:

  Sæll Carlos.
  Gríska er kynjað mál með svipuðum hætti og íslenska og að ég held hebreska líka. Að hinir fornu skrifarar hafi notað orð sem rétt er að þýða með “hann” jafngildir því auðvitað ekki að þeir hafi talið útilokað að konur gerðu eitthvað af sér en bendir til að þeir hafi fyrst og fremst beint máli sínu til karla. Það er hvorki nákvæm né góð þýðing ef reynt er að fela kynjaslagsíðu í frumtextanum.

 4. Carlos ritar:

  Sæll Atli, rétt er það að bæði gríska og hebreska eru kynjuð tungumál, eins og Íslenska. Spurningin sem biblíuþýðendur HíB 2007 svöruðu játandi er hvort þýðingin á kjarnatexta menningar okkar eigi að endurspegla þá grundvallarafstöðu að allt mannkyn, karlar og konur er ávarpað af téðum texta. Málfræði og hægfara þróun tungumálsins má ekki koma í veg fyrir það. HíB 2007 stillir sér með þessari ákvörðun upp við hliðina á biblíuútgáfum eins og Contemporary English Version á meðan að King James útgáfa 21. aldar kýs að þýða bókstaflega (dæmi: “my friends” í stað “brethren” í Gal. 5).

  HíB 2007 reynir að fara bil beggja, að þýða beint en líka normatíft og skiljanlega fyrir nýja kynslóð. Þannig hafa biblíuþýðingar verið frá fyrstu tíð, allt frá Septuagintu.

 5. Carlos ritar:

  Vel á minnst, talandi um “adelfos”, var það orð ekki oft notað um “vini” frekar en um “bræður” bæði í grísku, latnesku og semítísku umhverfi? Voru þeir Kári og Björn bræður, þegar Kári notaði orðið “bróðir” um hann? Vissulega voru þeir vopnabræður …

 6. Atli ritar:

  En, Carlos, þetta sem þú segir breytir engu um það að þegar reynt er að þýða texta sem var miðaður við karla þannig að úr verði texti sem er hlutlaus um kynjamun þá er ekki verið að miðla þeirri merkingu sem frumtextinn hafði heldur að búa til aðra merkingu. Kannski er nýja merkingin betri, skynsamlegri og sanngjarnari. En það breytir engu um að slík “þýðing” er ekki heiðarleg þýðing. Í mínum augum er það ómerkilegt áróðursbragð og auglýsingabrella ef reynt er að gera forn trúarbrögð austan úr löndum álitleg í augum nútímamanna með því að “þýða normatíft.” Ættu þá ásatrúarmenn að gefa út “normatífa” útgáfu af Snorra Eddu til að gera sinn furðulega þvætting ögn geðþekkari?

 7. Eyja ritar:

  Ætli það verði ekki bara að líta þetta pragmatískum augum og horfa framhjá hinum vitræna óheiðarleika? Ef þetta fólk þarf endilega að líta á þessa bók sem sitt leiðarljós í lífinu þá hlýtur að vera skárra að það notist við þessa fegruðu útgáfu. Mín vegna hefði því gjarnan mátt fegra hana meira. Ég er alveg hætt að reyna að skilja trúarbrögð. Eða nei annars, ég þráast við af og til og reyni að skilja þau en árangurinn lætur á sér standa.

 8. Mitt eigið net » Blog Archive » Kærleiksfatlaður! ritar:

  […] Nú er komin út ný þýðing, lagfærð til að falla betur að nútímanum. Þar eru komin „systkin“ í stað „bræðra,“ svona eins og þýðendur hafi ákveðið: „skítt með barnadrápin, það má standa, en kynjaslagsíðan — hún skal út!“ […]

 9. Carlos ritar:

  … þegar reynt er að þýða texta sem var miðaður við karla þannig að úr verði texti sem er hlutlaus um kynjamun þá er ekki verið að miðla þeirri merkingu sem frumtextinn hafði heldur að búa til aðra merkingu. Kannski er nýja merkingin betri, skynsamlegri og sanngjarnari. En það breytir engu um að slík “þýðing” er ekki heiðarleg þýðing.

  Stöldrum aðeins við eðli þýðingar sem ekki er orðrétt, bein þýðing. Þýðing getur verið, eins og þú bentir á skynsamari og sanngjarnari, þá væntanlega í merkingunni að hún endurspeglar betur þann menningarheim sem hún er þýdd í. Þá er búið að heimfæra frumtextann, og sú heimfærsla er túlkun. Gerir það hana óheiðarlega? Það gerir hana a.m.k. að heimfærðum texta, sem er eitthvað sem kemur fyrir allar þýðingar, sérstaklega þýðingar nemenda á erlendum námsbókum.

  Nú er biblían hinsvegar hvorki námsbók - né þýdd af nemendum heldur af fræðimönnum sem máttu þýða sumt á ný en annað ekki, vegna þess að tiltekið tungumál átti að fá að vera óbreytt (sjá grein Jóns Sveinbjörnssonar í Lesbók Mbl. fyrir tveimur vikum síðan). Þar með er þessi tiltekna þýðing farin að þjóna sérhagsmunum. Óheiðarleikinn kemur í þýðinguna þegar hagsmunir ráða því hvernig er þýtt.

  Eitt af þeim dæmum sem mér detta í hug er að finna í 45 kafla Jesajabókar, þar sem Kyrus er smurður til þjónustu við þjóð Guðs. Guð kemur fram sem valdur hamingju og óhamingju. Frumtextinn talar um gott og illt. Fegrun? Auðvitað. Heiðarlegt? Líkast til ekki. Hefði mátt þýða beint og samt skilja hvað um er að ræða? Já. Hefði það valdi þeim sem hafa atvinnu af því að prédika vanda? Alveg örugglega. Er þeim vorkunn að þurfa að takast á við texta af þessu tagi? Ónei, bendi á stórskemmtilega bók John S. Spong, The Sins of Scripture, svo að þessi útúrdúr verði ekki lengri.

  Mín niðurstaða er sú að þýðing sem einnig er heimfærsla þarf ekki að vera óheiðarleg, bara af því að hún leitast við að skilja við hverja frumtextinn talar og hvað hann reynir að tjá. Útgáfa Íslendingasagna með nútímastafsetningu er dæmi um þetta.

 10. Atli ritar:

  Carlos. Þegar ég sagði „skynsamlegri og sanngjarnari“ var ég ekki að meina skynsamlegri þýðing heldur að með því að skrifa nýjan texta í stað þess að þýða þann gamla væri kannski hægt að búa til skynsamlegra helgirit. Þetta var auðvitað írónía.

  Ég hef ofurlítið fengist við að þýða og geri mér vel ljóst að það er vandasamt verk. Stundum er eina leiðin að umorða og reyna að búa til íslenskar málsgreinar eða efnisgreinar sem ná merkingunni nokkurn veginn þótt einstök orð samsvari ekki orðum frumtextans. Stundum þarf líka að velja milli ólíkra leiða þar sem óvissa er um merkingu frumtexta eða hún er margræð með einhverjum hætti og ekki finnst íslenskt orðalag sem tjáir sömu margræðni. Vafalaust standa þeir sem þýða Biblíuna frammi fyrir mörgum svona vandamálum. En þýðing á grískum orðum um bræður felur tæpast í sér vanda af þessu tagi. Þeir sem þýddu þau með því að tala um systkini voru ekki að velja eina leið af mörgum út úr þýðingarvanda heldur einfaldlega að breyta Biblíunni til að hún félli betur að þeirra eigin skoðunum.

  Eyja. Þú kemur beint að kjarna málsins. Þeir sem breyta bræðrum í systkini eru einfaldlega óánægðir með Biblíuna eins og hún er og vilja öðru vísi Biblíu. Ég hef ekki mikið vit á trúarbrögðum og útiloka svo sem ekki að það geti verið heppilegt fyrir suma að nota öðru vísi helgirit en Biblíuna. En hvers vegna í ósköpunum búa þeir þá ekki bara til sitt eigið helgirit frá grunni í stað þess að breyta 2000 ára gamalli bók og kalla það þýðingu.

  Ég held annars að boðskapur Jesú komist ágætlega til skila þótt guðspjöllin séu þýdd án þess að reyna neitt að fela það að guðspjallamennirnir voru börn síns tíma. Vel má vera að þeir hafi ekki skilið allt sem meistari þeirra sagði og vel má vera að fordómar af ýmsu tagi blandist saman við frásögn þeirra. En perlurnar sem hafðar eru eftir Kristi ljóma þá bara enn skærar. „Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum“ hittir kannski enn betur í mark þegar textinn minnir í hinu orðinu á stöðu kvenna á þessum tíma.

 11. Carlos ritar:

  Ég held ég skilji núna hvað þú ert að fara, Atli. Og ég get fallist á það að sú ákvörðun að þýða biblíuna þannig, að hún tali til beggja kynja mætti skilja sem tilraun til fegrunar og eftirlátsemi við samtíð sem telur sig siðmenntaðri en sú sem samdi textann. Það mætti einnig ganga svo langt og segja að sérhver viðleitni til þess að milda ummerki duttlungafulls guðdóms sé jafnmikil fölsun á textanum.

  Ég notaði vísvitandi viðtengingarháttinn, vegna þess að í mínum huga byggir þessi samanburður á því viðhorfi til þýðingarstarfs, að þýðing er eins og stærðfræði, hér er formúla, nú á að fylla í hana, alltaf eins. Ég veit ekki um neina biblíuþýðingu sem gerir þetta, en sérhver biblíuskýrandi líka þýðandi svo framarlega sem hann leggur frumtextann til grundvallar. Dæmi um þetta er að finna hér

  Það má finna þýðingar sem leitast við að vera nánast eins í gegnum aldirnar. King James 21. aldar er fulltrúi þeirra. Hún notar enn hið forna “I - thou” fyrir mjög náið samband tveggja einstaklinga en “I - you” fyrir ópersónulega og kurteisislega fjarlægð. Í Íslenskum biblíuþýðingum eru fornöfnin “oss - vér” notuð fyrir 1. ps. flt. og “þér” fyrir 2. ps. flt., meðan við og þið er notuð fyrir tvítölu. Þessi munur er hvorki til í grísku né hebresku. Samtíminn hefur lagt þessi formegheit af og líka tölurnar þrjár í Íslensku. Samt nota báðar þýðingarnar þessi form. Myndi þetta flokkast undir óheiðarlega fölsun?

  Eitt af einkennum HíB 2007 er það að hún viðheldur “oss - vér” og notar það málfræðilega rétt, þannig að “ég - þú” er haft fyrir eintölu, “við - þið” fyrir tvítölu og “oss - vér” fyrir fleirtölu. Dæmi um þetta er að finna í Sálmi 44 og 45. Maður skyldi ætla að þetta væri gert gegnumgangandi í gegnum alla biblíuna. En því er ekki að skipta. Kíkjum á Lúkas 5, 22, þar er fleirtalan “þið - ykkar” notuð í ávarpi hóps sem telur örugglega fleiri en tvo. Jón Sveinbjörnsson benti í áður ívitnaðri lesbókargrein á það að þýðendur áttu ekki að breyta textum sem notaðir eru í helgihaldi, það skýrir væntanlega sumt af þessari fyrnsku. Gerir það eitt sér þýðinguna óheiðarlega?

  Það er ekki heiðarlegt gagnvart þýðendum eða útgefendum HíB að ætla þeim að vísvitandi falsa textann til að slá ryki í augu lesenda. Krafan um mál beggja kynja er ekki prívatáhugamál íslensku þýðinganefndarinnar heldur kom hún til af því eðlilegri kröfu kvenna í kirkjunni að vera ávarpaðar í kvenkyni í helgihaldi.

 12. Atli ritar:

  Sæll aftur Carlos
  Við virðumst a.m.k. orðnir sammála um hvað við erum ósammála um. Það er sjálfsagt rétt að mörgum kristnum konum þykir betra að heyra Biblíutexta um systkini en texta þar sem aðeins er talað um bræður. Þýðingin sem ég set út á mun ef til vill fá einhverjar konur til að sætta sig betur við þann menningararf sem Biblían miðlar. En hún gerir það með því að fela þá staðreynd að hugarheimur Biblíunnar (á frummálinu) er ekki heimur jafnréttis heldur misréttis. Mér þykir gáfulegast að horfast í augu við þann veruleika, vondur eins og hann er. Mér skilst að þú viljir heldur að menn reyni að fegra hann og jafnvel fela, væntanlega til að reiði eða beiskja yfir misréttinu komi ekki í veg fyrir að fólk meti að verðleikum það sem sannast er og best í þessum fornu ritum.

 13. Carlos ritar:

  Sæll aftur Atli,

  Nei, ég vil ekki fegra hann, sbr. bloggið mitt sem ég opna fyrir umræðu um tiltekna texta. Ég geri mér hinsvegar grein fyrir því að biblíuþýðing sem er ekki þýdd fyrir fræðimenn, heldur er kirkjubiblía verður að taka tillit til þess umhverfis sem hún verður notuð í. Sem kirkjubiblía hefur málfar hennar bein áhrif á það, hvernig fólk sér sjálft sig.

  Þessvegna notum við ekki orð eins og kynvilla um alla þá sem elska samkynja, heldur förum í saumana á því hvað frumtextinn vill og samhengi hans. Eins tökum við tillit til þess að þótt karlmenn hafi verið ávarpaðir í fyrndinni eingöngu, þá væri fölsun að ætla það að svo ætti ávallt að vera.

 14. Atli ritar:

  Látum þessari umræðu lokið hér Carlos. Ég er algerlega ósammála þér og þú mér en ég geri mér litlar vonir um að snúa þér og mér finnst hæpið að frekari umræða leiði til neins.

 15. Hjalti Rúnar Ómarsson ritar:

  Var að rekast á þessa eldgömlu umræðu.

  Vildi bara benda þér, Atli, á þetta dæmi ef þú færð tilkynningar um athugasemdir.

  Í Postulasögunni 2.29 segir Pétur í ræðu sinni: “Andres adelfoi”. Þar er klárlega bara verið að ávarpa karlmenn, samt “þýtt” í nýju umorðuninni á biblíunni sem “Systkin”.