Grundvallarþjóðfélagssjónarmið

Í 43. grein Laga um útlendinga (nr. 96 frá 2002) segir

1. Heimilt er að vísa [EES- eða EFTA-útlendingi]1) úr landi ef það er nauðsynlegt með skírskotun til allsherjarreglu og almannaöryggis.
2. Brottvísun skv. 1. mgr. má framkvæma ef útlendingurinn sýnir af sér eða ætla má að um sé að ræða persónubundna háttsemi sem felur í sér raunverulega og nægilega alvarlega ógn gagnvart grundvallarþjóðfélagssjónarmiðum. Ef útlendingurinn hefur verið dæmdur til refsingar eða sérstakar ráðstafanir ákvarðaðar má brottvísun af þessari ástæðu því aðeins fara fram að um sé að ræða háttsemi sem getur gefið til kynna að útlendingurinn muni fremja refsivert brot á ný.

Þessi lagagrein hefur verið í fréttum upp á síðkastið vegna þess að lögreglan hefur farið fram á að breskri konu sem heitir Miriam Rose verði vísað úr landi á þeim forsendum að vera hennar hér sé ógn „gagnvart grundvallarþjóðfélagssjónarmiðum.“ Óumdeilt er að kona þessi hefur brotið lög með mótmælum gegn stóriðju. Mér skilst að hún hafi meðal annars prílað upp einhver mannvirki og hlekkjað sig við hlið. Afbrot hennar hljóta þó að teljast fremur minniháttar og hún hefur verið dæmd fyrir þau og tekið út sína refsingu.

Krafa lögreglunnar um brottvísun úr landi virðist krafa um refsingu til viðbótar við þá sem Miriam Rose fékk fyrir dómi. (Þessari kröfu hefur verið hafnað og eftir því sem ég best veit fær hún að búa hér áfram.)

Nú veit ég ekki hvað orðið „grundvallarþjóðfélagssjónarmið“ merkir nákvæmlega en mér dettur í hug að átt sé við einhver gildi sem er mjög mikilvægt fyrir samfélagið að hafa í heiðri. Þetta gæti kannski verið eitthvað á borð við mannhelgi og friðsamlegar leiðir til að jafna ágreining eða hugsanlega gildi á borð við réttarríki, jafnrétti og lýðræði. Ef þetta er réttur skilningur má ætla að þeir sem drepa fólk, misþyrma því eða beita ofbeldi til að fá sitt fram brjóti gegn þessum sjónarmiðum og kannski líka þeir sem reyna að fá ríkið til að refsa fólki án dóms og laga, mismuna því eða beita valdi án þess að hafa til þess lýðræðislegt umboð.

Nú getur vel verið að hægt sé að færa fyrir því rök að Miriam Rose hafi beitt ofbeldi gegn starfsemi Alcan eða annarra fyrirtækja. Það er þó fremur langsótt að telja andmæli hennar beinlínis ógn við grundvallarþjóðfélagssjónarmið. Ég held að óþekkt væri ef til vill heppilegra orð. Hins vegar finnst mér umhugsunarefni hvort krafa lögreglunnar um að hún verði rekin úr landi samrýmist þeim gildum sem samfélag okkar byggist á.

Er það í anda réttarríkisins að heimta að útlendingur, sem hefur þegar afplánað sömu refsingu og íslenskur ríkisborgari fengi fyrir sama afbrot, sé að auki rekinn úr landi? Er það í anda mannhelgi að sundra fjölskyldu með því að dæma einn fjölskyldumeðlim til útlegðar af landi brott og það fyrir athæfi sem er meira í ætt við strákapör en stórglæpi?

Mér finnst líka umhugsunarefni hvort það sé nokkurt vit að nota orðið „grundvallarþjóðfélagssjónarmið“ í lagatexta eins og gert er í útlendingalögunum frá 2002. Það virðist hvergi vera útskýrt hvaða merkingu löggjafinn leggur í þetta orð. Er þeirri hættu kannski boðið heim að menn verði reknir úr landi fyrir það eitt að hugsa öðru vísi en þorri landsmanna, vera ósammála, sérvitrir eða bara á undan sinni samtíð? Að vísu er möguleikinn á að vísa manni úr landi takmarkaður við „háttsemi sem getur gefið til kynna að útlendingurinn muni fremja refsivert brot á ný.“ En þetta orðalag er líka ansi loðið. Gildir ekki um nánast allt sem menn gera að þeir gætu mögulega gert eitthvað svipað aftur?

Ég held að einn mikilvægasti kostur þess samfélags sem við lifum í sé að það leyfir mönnum að vera ósammála meirihlutanum, hugsa öðru vísi, mótmæla jafnvel hástöfum því sem flestir aðrir hafa fyrir satt. Það skyldi þó aldrei vera að 43. grein Laga um útlendinga sé sjálf ógn við grundvallargildi samfélagsins.2 ummæli við “Grundvallarþjóðfélagssjónarmið”

  1. Máni ritar:

    Mér sýnist að skv. þessu lagaákvæði þurfi útlendingur ekki að ógna grundvallarþjóðfélagssjónarmiðum. Skv. 1. mgr. ákvæðisins má vísa útlendingi úr landi ef það er nauðsynlegt með skírskotun til allsherjarreglu og almannaöryggis, en allsherjarreglu-hugtakið ætti líklega betur við til að vísa þessum mótmælanda úr landi. Ég fæ a.m.k. ekki séð að skilyrði 2. málsgreinar verði að eiga við til að beita megi 1. málsgrein, enda stendur “brottvísun skv. 1. mgr. má…”. Á móti má svo segja að almennt er ætlast til þess að refsiákvæði séu skýr og ótvíræð, enda eigum við ekki að þurfa að sætta okkur við að ákvæði sem takmarka rétt manna til grunnréttinda, eins og að kjósa hvar þeir búa, séu loðin og ótvíræð.

    En það er löng hefð fyrir að hafa lagatexta með huglægu mati eins og þarna er, t.d. get ég bent á 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 og g-liður 5. greinar í einkamálalögum nr. 91/1991. Þá er það bara Hæstiréttur og fræðimenn sem sjá um að komast að því hvað ákvæðið raunverulega merkir og það sama á ábyggilega eftir að gerast með þetta ákvæði útlendingalaga…Hæstiréttur á eftir að fastmóta þessa reglu smám saman í dómaframkvæmd.

  2. Atli ritar:

    Takk Máni. Vera má að hæstaréttardómur gefi orðskrípinu “grundvallarþjóðfélagssjónarmið” einhvern tíma ákveðna merkingu. En það er samt undarlegt hjá löggjafanum að nota þetta orð þegar fyrir eru í lagamáli orð sem mátti nota, og hafa fengið þokkalega skýra merkingu, eins og “allsherjarregla” og “almannaöryggi”.

    Að þetta nýja orð skuli notað bendir til að ætlunin hafi verið að gera eitthvað sem ekki var hægt að gera með því að nota orð eins og “allsherjarregla” og “almannaöryggi” og manni dettur helst í hug að ætlunin hafi verið að gera yfirvöldum mögulegt að reka fólk úr landi fyrir litlar sakir (eitthvað sem nær því hvorki að raska allsherjarreglu né ógna almannaöryggi).