Skotlandsferð og pólitískur rétttrúnaður

Í fyrradag kom ég heim úr þriggja daga ferð til Glasgow með hópi rúmlega 30 félagsmanna úr Félagi stjórnenda í framhaldsskólum. Tilgangur ferðarinnar var að heimsækja skóla og fór lunginn úr tveim dögum í það. Þriðja daginn, laugardaginn, var svo frí sem sumir notuðu til að versla, aðrir til að leik golf og enn aðrir til að skoða borgina. Sjálfur hékk ég mestallan daginn í bókabúðum og á Kelvingrove listasafninu. Það stendur við ána Kelvin sem rennur um vestanverða borgina og út stærri á sem heitir Clyde og var mikilvæg siglinga- og verslunarleið á árum áður.

Kelvin mun annars þekktust fyrir það nú  á tímum að einn af merkustu verkfræðingum og eðlisfræðingum allra tíma, William Thomson (1824-1907) kallaði sig eftir henni og nefndist Lord Kelvin. Ég sá íbúðarhús hans sem er rétt hjá Glasgow University. Það mun hafa verið fyrsta húsið á Bretlandi sem lagt var rafmagn í.

Við ferðafélagarnir fórum tvívegis saman út að borða. Í fyrra sinnið á kínverskan veitingastað. Við borðið þar sem ég sat var byrjað að tala um Kína enda hafði einn í hópnum ferðast þar um fyrir skömmu. Talið barst að Maó og ævisögu hans og auðvitað kom á daginn að sumir höfðu taugar til karluglunnar, litu jafnvel á hann sem einhvers konar hetju og þessu var auðvitað tekið af kurteisi enda eru skólastjórnendur upp til hópa alveg þokkalega háttvísir.

Það virðist sem sagt enn samræmast pólitískum rétttrúnaði að halda að Maó hafi verið vinur alþýðunnar og málsvari réttlætis og friðar en Jósef Stalín virðist endanlega fallinn í ónáð. Þó er það liðið sem sérviska hjá gömlum körlum að tala vel um hann og Lenín líka. En ef einhver lýsir aðdáun á Adolf Hitler fær hann um það bil alla þá skömm og fyrirlitningu sem hann á skilið og er þá engin afsökun að vera gamall eða sérvitur. Pólitískur rétttrúnaður mismunar þessum þrem afkastamestu morðingjum síðustu aldar því með nokkuð undarlegum hætti, enda er þessi rétttrúnaður fjarri því að vera sjálfum sér samkvæmur eða mynda rökrétt kerfi.



Ein ummæli við “Skotlandsferð og pólitískur rétttrúnaður”

  1. Eyja ritar:

    Það þarf víst ekki gamla skólastjórnendur til. Það er merkilegt hvað staðbundin blinda sökum einhvers konar flokkslínuhollustu getur verið áhrifarík, hvort sem það er í tengslum við Maó eða einhvern annan. Þegar fólk er farið að stunda einhverja hetjudýrkun og afneita augljósum staðreyndum eru allar góðar hugsjónir í raun foknar út í veður og vind.