Málverk eftir Wu Wei og töluorð á grísku

Í morgun skruppum við Harpa Í Kópavoginn og skoðuðum sýningu á listmunum og handverki frá Wuhan í Kína. Þeir eru til sýnis í Gerðarsafni. Þessi sýning var jafnvel enn betri en ég bjóst við. Þó má finna að því að sumir smágerðir hlutir standa í fulldaufri birtu til að gott sé að greina alla drætti þerra.

Það verk á sýningunni sem ég staldraði lengst við er stór mynd af guðum hamingju, arðsemi og langlífis sem var máluð af manni sem hét Wu Wei og var uppi á 15. öld. Það eru sérstakir töfrar í þessari mynd og þessi ágætu guðir eru ótrúlega glaðlegir og sælir á svip.

Ég lít við og við í kennslubækur í grísku. Það verður þó að viðurkennast að námið gengur fremur hægt enda er þetta mál talsvert flókið. Það er kannski ekkert flókið að læra að

tría (τρια) þýðir þrír,
ðekatría (δεακτρια) þýðir þrettán,
tríanda (τριαντα) þýðir þrjátíu og
tríakosia (τριακοσια) þýðir þrjúhundruð.

Þá er næst að læra að tesera (τεσσερα) þýðir fjórir og nú heldur maður að hægt sé að mynda orðin fyrir fjórtán, fjörtíu og fjögurhundruð með sama hætti og þrettán, þrjátíu og þrjúhundruð eru dregin af orðinu fyrir þrjá. Þetta gildir um fjórtán en ekki fjörtíu og fjögurhundruð því

tesera (τεσσερα) þýðir fjórir
ðekatesera (δεκατεσσερα) þýðir fjórtán
saranda (σαραντα) þýðir fjörtíu og
tetrakosia (τετρακοσια) þýðir fjögurhundruð.

Þegar litið er á orðin yfir 300 og 400 virðist eðlilegt að álykta að kosia (κοσια) þýði hundrað. En ekki er það alveg svo einfalt. Hundrað í eintölu er ekato (εκατο).

En þeim sem tala íslensku ferst víst ekki að fjargviðrast yfir því að gríska sé flókin. Það er varla neitt auðveldara að læra okkar töluorð þar sem

tveir menn geta á
öðrum degi rætt
tveim tungum um
tvö efni í
tvennum skilningi og
tvær konur geta tekið
tvennt fyrir með
tvíræðum hætti í
tveggja mínútna samtali þann
annan maí.Lokað er fyrir ummæli.