Villtir svanir og vitlaus byggðastefna

Þegar ég var búinn með bókina um Maó (Mao - The unknown story) eftir Jung Chang og Jon Halliday náði ég mér í Villta svani eftir Jung Chang. Í þeirri bók segir hún sögu sína, móður sinnar og ömmu og um leið sögu Kína frá þeim tímum þegar Japanir réðu yfir Mansjúríu fram yfir menningabyltinguna á árunum kringum 1970.

Jung kann að segja sögu og Villtir svanir er mögnuð bók. Sögusviðið er heill heimur, Kína á síðustu öld. Samt er þetta saga um fáeinar manneskjur sem lesandinn kynnist og fær samúð með. Þetta víða sögusvið og þessi stór heimur sem myndar bakgrunn sögunnar gera hana volduga og mikla eins og Stríð og frið eftir Tolstoy. En samt inniheldur sagan svo margt af því smáa sem skiptir máli fyrir eina manneskju. Vonandi koma þeir tíma fljótlega að landar Jung Chang í Kína fái að kaupa bækur hennar eða fá þær lánaðar á bókasafni.

Ég hef oft kveikt á ríkisútvarpinu í vinnunni. Kann vel við suma tónlistarþættina og vil helst ekki missa alveg af fréttum þó ég hafi ekki þolinmæði til að horfa á sjónvarp. Það lagast kannski ef koma rásir sem hægt er að hraðspóla.

Eitt af því sem vakti athygli mína í útvarpinu í dag var hneykslun og reiði fólks yfir þeirri hugmynd að veita atvinnulausu fólki styrk til búferlaflutninga svo það ætti auðveldara með að fara þangað sem vinnu er að hafa. Þessi reiði var ekki vegna þess að útgjöldin yrðu of mikil. Menn virtust aðallega reiðir yfir því að til stæði að auðvelda búferlaflutninga frá stöðum þar sem er óhagkvæmt að búa. Þetta er eitt dæmið af mörgum um hvað byggðastefna er komin út í mikla endemis vitleysu.

Fyrir löngu röðuðu landsmenn sér kringum landið til að nýta fiskislóð og bithaga. Meðan nær allir lifðu á því að róa til veiða og halda sauðfé til beitar var ekki um annað að ræða en að nýta sem mest af strandlengjunni og gróðurlendinu. Menn dreifðu sér af illri nauðsyn en ekki vegna þess að þeim þætti fásinnið svo ákaflega skemmtilegt. Þessar aðstæður heyra sögunni til og þær koma vonandi ekki aftur.

Ég get vel unnt atvinnulausu fólki þess að fá styrk til að flytja á staði sem vinnu er að hafa. Ef fólkið kýs fremur að nýta styrkinn til að flytja til Reykjavíkur en á Reyðarfjörð er það líklega vegna þess að það kýs fremur að búa í Reykjavík. Að bölva og ragna vegna þess að búferlaflutningarnir séu andstæðir þeirri úreltu stefnu að dreifa fólki sem mest um landið sýnir best hvað þessi byggðastefnuvitleysa er í hróplegu ósamræmi við hagsmuni, langanir og þarfir raunverulegs fólks.5 ummæli við “Villtir svanir og vitlaus byggðastefna”

 1. Harpa ritar:

  Í þessu sambandi er ekki verra að hafa í huga hve íslenskar konur eru þéttbýlismyndandi. Kæmi e.t.v. til greina sú “mótvægisaðgerð” (þetta er með klúðurslegri orðum sem dynja dag hvern úr fjölmiðlum!) að flytja inn pólskar konur einhleypar til að vera ráðskonur hjá einhleypum bændum eða trilluköllum lengst úti í rassgati (þetta er eðlileg málvenja og málfar alþýðu landsins)? Innflutningur þýskra kvenna til sama hóps tókst nú svo ágætlega um árið …

  Ef þær íslensku eru svo sauðþráar að flytja á malbikið og þéttbýlismynda allt í kringum sig er þetta kannski eina lausnin svo bjarga megi a.m.k. sauðkindinni hnarreistu og frjálsu í sínum fjallasal …

 2. Form. ICBS ritar:

  En er pólskt kvenfólk ekki alveg jafnþéttbýlismyndandi og það íslenska? Það hafa a.m.k. myndast einhverjar borgir þarna austur frá. Ég legg frekar til að við björgum sveitunum með því að flytja inn pólska klæðskiptinga og búa þá upp sem ráðskonur með svuntu og allt.

 3. Harpa ritar:

  Ég sé í hendi mér að pólskir klæðskiptingar eru lausnin: Fyrir sveitirnar; Fyrir mókandi sjávarplássin; Fyrir íslensku sauðkindina … Já, gott ef ekki fyrir Framsóknarflokkinn sjálfan!

 4. Máni ritar:

  sýnir best hvað þessi byggðastefnuvitleysa er í hróplegu ósamræmi við hagsmuni, langanir og þarfir raunverulegs fólks.

  Á þetta að vera “hagsmuni, langanir og raunverulegar þarfir fólks?” Vegna þess að fólkið sem er á móti því að sveitir á landsbyggðinni leggjist í eyði er líka raunverulegt.

 5. Atli ritar:

  Góð ábending Máni - en fólkið sem sumir ímynda sér að njóti góðs af rándýrri byggðastefnu er a.m.k. sumt bara til sem ímyndun.