Mao Tse-Tung og persónur Stanley Kubrick

Í mörgum af kvikmyndum Stanley Kubrick er svipuð pæling sem er eitthvað í þá átt að góðmennska sér veikleiki: sá sem er nógu ófyrirleitinn og samviskulaus hafi betur í valdatafli. Í Barry Lindon verður söguhetjan til dæmis undir, tapar, vegna þess að hún hikar við að skjóta krakka. Í A Clockwork Orange vegnar Alex á endanum „vel“ vegna þess að hann er hreinræktaður óþokki alveg inn að beini. Í myndinni Spartacus sigrar sá sem er til í að beita ótakmörkuðum hrottaskap.

Þessar myndir hafa rifjast upp fyrir mér við að lesa fyrsta þriðjunginn af ævisögu Maós formanns: Mao, the unknown story eftir hjónin Jung Chang og Jon Halliday (Anchor Books, New York 2006). Þetta er mikil saga og vel skrifuð og ef hún er sannleikanum samkvæm var Maó eins og „sigurvegari“ í mynd eftir Stanley Kubrick, algerlega heill og sannur í illskunni.

Þessi bók eftir skáldið Jung Chang (höfund Villtra svana) og sagnfræðinginn Jon Halliday virðist stórmerkileg. Þau hafa talað við ótrúlegan fjölda af gömlu fólki í Kína og grafið upp furðuleg kynstur af torsóttum fróðleik enda bókin enginn smádoðrantur.

Það hefur verið fundið að því að frásögnin sé ekki hlutlaus sagnfræði og víst er það rétt að höfundar fella dóma, láta í ljós eigið álit og viðra tilgátur sem er varla nokkur leið að rökstyðja almennilega. En ég sé ekki betur en að fullyrðingar þeirra um einstaka sögulega atburði séu studdar tilvitnunum og heimildum (þó auðvitað hafi ég engin tök á að meta hvort þær heimildur eru áreiðanlegar). Ef þau hefðu reynt að skrifa hlutlausa bók hefði útkoman trúlega orðið heldur leiðinlegri lesning.

Fyrsti hluti sögunnar segir frá því hvernig Maó braust til valda innan kínverska Kommúnistaflokksins, þótt flestir flokksmenn hefðu heldur illan bifur á honum. Þeir sem öttu kappi við hann áttu það til að hika við manndráp og pyntingar en Maó var til í að gera hvað sem var fyrir völd og hafði því betur á endanum. En þrátt fyrir óþokkaskapinn hafði hann sinn sjarma, var gáfaður, ljóðrænn og á ýmsan hátt flottur gæi alveg eins og Alex í A Clockwork Orange.Lokað er fyrir ummæli.