Vikan sem leið og grískunám

Fyrsta vika skólaársins er jafnan annasöm hjá okkur stjórnendum. Ég var í vinnu fram á kvöld mestalla vikuna og þurfti líka að mæta í skólann í gærmorgun þó það væri laugardagur því þá hófst kennsla í meistaraskólanum hjá okkur, þ.e. hjá þeim sem lokið hafa sveinsprófi í iðn og eru að bæta við sig námi til iðnmeistaraprófs. Allt var þetta svo sem fremur ánægjulegt enda er Fjölbrautaskóli Vesturlands skemmtilegur vinnustaður.

Í svona viku gerir maður ekki mikið annað en að vinna. Ég hef þó aðeins kíkt í kennslubækur í grísku á kvöldin. Mér datt það í hug suður á Krít í sumar að það væri skemmtilegt að geta talað við fólk þar svo ég keypti bók sem heitir Learn Greek without a Teacher og er að hugsa um að læra tófta part af henni í hverjum mánuði. Ég verð þá kominn í gegnum hana eftir árið.

Grískan er svolítið eins og íslenska með kynjum og föllum á nafnorðum og fornöfnum og sagnirnar beygjast ekki alveg ósvipað og hjá okkur. Ég sé, þú sérð, hann sér er til dæmis ego vlepo (εγω βλεπω), esi vlepis (εσυ βλεπεισ), aftos vlepi (αυτοσ βλεπει). Í framsöguhættinum eru sagnirnar svo auðvitað öðru vísi í fleirtölu (við sjáum er emis vlepúme (εμεισ βλεπουμε) o.s.frv.) og enn öðru vísi í þátíð og sumar með sérstaka framtíðarbeygingu sem á sér ekki samsvörun í íslensku. Af þessum sökum er engin hætta á öðru en bókin endist árið. Beygingakerfið er þó að því leyti einfaldara en í íslensku að föllin eru bara þrjú (því þágufallið hvarf endanlega úr grísku fyrir um það bil þúsund árum) og beygingaflokkar sagna og nafnorða eru miklu færri (til dæmis beygjast karlkyns nafnorð eiginlega bara á tvo mismunandi vegu í grískunni en í íslensku beygjast orðin köttur, hundur, rjómi og sykur hvert með sínu móti).

Það er annars gaman að því hvað mörg orð í grísku eru kunnugleg. Sólin heitir til dæmis ilios (ηλιοσ) sem er af sama stofni og helíum. Sögnin að skína er lambo (λαμπω) sem ég hugsa að sé skyld orðinu lampi og orðið yfir mjólk, gala (γαλα), er kunnuglegt því það er fyrri helmingurinn af galaxy. Svona mætti lengi telja. Um að bil hálfur orðaforðinn á sér samsvörun í einhverju sem maður kannast við. Orðin sem ekki líkjast neinu og minna ekki á neitt er erfiðara að muna. Fyrir mig er að minnsta kosti meira átak að leggja það á minnið að föstudagur heiti paraskevi (Παρασκευι) heldur en að laugardagur heiti savato (Σαββατο).

Það er fleira líkt með grísku og íslensku en beygingakerfið. Það er líka ansi margt svipað í sögu þessara mála. Í þeim báðum hefur hljóðkerfið einfaldast með ámóta hætti (með fækkun sérhljóða, hljóðdvalarbreytingu og hvað þetta nú heitir) og þróun þeirra á 20. öld var að verulegu leyti stýrt af málhreinsunarmönnum sem vildu halda tungunni hreinni og varðveita hana lítt breytta. Fyrir vikið eru bæði málin með orð af innlendri rót yfir fjölmargt sem aðrar þjóðir hafa tökuorð um. Sem dæmi má taka vegabréf sem heitir ðiavatirio (διαβατιριο) á grísku og lögreglu sem hjá þeim kallast astinomia (αστυνομια).Lokað er fyrir ummæli.