Ricci og kristniboð í Kína

Heimspeki Vesturlanda var lítt þekkt í Kína fyrr en á 20. öld en Vesturlandabúar fengu dálitla nasasjón af hugsun Kínverja þegar Kristmunkar (Jesúítar) hófu kristniboð þar undir lok 16. aldar.

Fyrsta trúboðsstöðin þarna austur frá var stofnuð árið 1583 af ítölskum presti sem hér Matteo Ricci. Hann var fæddur árið 1552 og var því orðinn rúmlega þrítugur þegar hann fór til Kína þar sem hann dvaldi til dauðadags árið 1610. Hann fór víða um Kínaveldi. Síðustu árin dvaldi hann í Beijing og mun hafi verið fyrsti Vesturlandabúinn sem fékk að koma inn í keisarahöllina þar. Honum var veitt innganga eftir að hann gaf Wanli keisara evrópska klukku. Ekki mun hann þó hafa heitt keisara sjálfan.

Sagan segir að Ricci hafi fljótt orðið altalandi á kínversku og rit hans sem varðveist hafa sýna að hann skrifaði kínverskan stíl jafngóðan og lærðustu menn austur þar. Hann lærði að bera virðingu fyrir heimspeki Kongzi, enda taldi hann að þessi forna kínverska viska gæti að mestu samrýmst kristinni trú og beindist viðleitni hans einkum að því að fá áhangendur  hennar til fylgis við Jesú. Við Taóista og Búddhista hafði hann minna að segja.

Tilraunir Ricci til að sætta evrópska og kínverksa hugsun gengu svo langt að hann kallaði sig vestrænan konfúsíanista og þýddi rit Kongzi á latínu. Það var Ricci sem gaf honum nafnið Confucius (sem á íslensku er ritað Konfúsíus) og undir því nafni hefur hann síðan verið þekktur meðal Evrópumanna.

Ricci var líklega óvenjulega víðsýnn og umburðarlyndur maður. Hann vildi laga kristniboðið að hugsunarhætti kínverja og taldi ekkert athugavert við að þeir héldu siðum sínum, forfeðradýrkun og konfúsískum helgiathöfnum áfram þótt þeir tækju skírn. Eftirmaður hans, Nicolo Longobardo, sem tók við forystu í trúboði Kristmunka í Kína að Ricci látnum, hafði aðra afstöðu. Hann áleit að Kínverjar yrðu að breyta algerlega um siði ef þeir ætluðu að verða kristnir menn.

Þessi ágreiningur Ricci og Longobardo endurspeglaðist í skrifum Evrópumanna um Kína næstu 100 árin. Annars vegar voru þeir sem álitu Kínverja annað hvort efnishyggjumenn eða villutrúarmenn með kolrangar hugmyndir um hinstu rök tilverunnar. Hins vegar voru þeir sem tóku undir sjónarmið Ricci og álitu kínverska menningu jafnoka þeirrar evrópsku og vildu að við lærðum af þeim ekki síður en þeir af okkur.

Fremstur í flokki þeirra sem fylgdu Ricci að málum og héldu fram jákvæðum viðhorfum til kínverskrar heimspeki var Þjóðverjinn Gottfried Wilhelm Leibniz. Hann taldi að það besta í speki Kongzi væri, þegar öllu er á botninn hvolft, ekki svo ólíkt sönnum og réttum kristindómi (sem kann að skýrast að nokkru leyti af því að kristindómurinn sem Leibniz aðhylltist var eilítið öðruvísi en hjá flestum öðrum).Lokað er fyrir ummæli.