Frummyndakenningin og Li

Fyrir nokkrum dögum, nánar tiltekið þann 10. ágúst, skrifaði ég örfá orð hér um samkenni evrópskrar og kínverskrar heimspeki. Þótt þessir menningarheimar hafi þróast um aldir án neinna tengsla sín á milli koma svipaðar hugmyndir fyrir í heimspekiritum frá þeim báðum. Vissulega er ekki hægt að útiloka að það sé vegna þess að hugmydir spyrjast frá manni til manns og ferðast þannig um hnöttinn. Til dæmis bárust ýmsar pælingar frá Indlandi bæði í austur og vestur. En svo geta menn líka fengið svipaðar hugmyndir án þess að um sé að ræða neitt samband á milli þeirra.

Ein af umtöluðustu kenningum evrópskrar heimspeki fyrr og síðar er frummyndakenningin sem Platon setti fram í Faídóni, Ríkinu og fleiri bókum. Þessi kenning átti að svara spurningum eins og:

  • Um hvað eru stærðfræðingar að tala þegar þeir segja frá beinni línu sem hefur enga breidd, er þráðbein og óendanlega löng eða hringi sem eru fullkomlega kringlóttir? Svona hlutir eru ekki til í efnisheiminum (jafnvel reglustika sem virðist þráðbein reynist skörðótt ef hún er skoðuð í smásjá).
  • Hvernig stendur á því að við höfum hugmynd um fullkomið réttlæti, eða algerlega beina línu þótt við höfum hvergi rekist á slík fyrirbæri?
  • Ef spurt er hvað allir þungir hlutir (allir rauðir hlutir, allir kringlóttir hlutir) eiga sameiginlegt þá er eðlilegast að svara þyngd (rauðan lit, hringlögun). Hlýtur þá ekki að vera til eitthvað sem heitir þyngd (rauður litur, hringlögun)?

Svar Platon við öllum þessum og þvílíkum spurningum er að til viðbótar við áþreifanlega hluti séu til frummyndir, þ.e. hlutir á borð við beinu línuna sem slíka, tölurnar, réttlætið og eiginleika á borð við þyngd, liti og lögun. Þessi fyrirbæri taldi Platon að væru óbreytanleg þannig að þótt t.d. einstök dæmi um réttláta menn og réttlát ríki komi og fari haldi réttlætið sjálft alltaf áfram að vera til og breytist ekki.

Helst er að skilja að Platon hafi talið að fyrir hvert hugtak sé til frummynd, þ.e. óhlutstæður veruleiki sem það vísar til.

Að sumu leyti virðist þetta undarleg kenning og hún vekur erfiðar spurningar eins og hvar þessar frummyndir geti eiginlega verið? Þessari spurningu svarar Platon ekki nema með líkingamáli. Sumir kristnir fylgismenn hans á seinni öldum hafa álitið að frummyndirnar séu í raun og veru hugsanir í huga Guðs. Þeir hafa þá sagt eitthvað á borð við að réttlætið sem slíkt (eða beina línan sem slík) sé réttlætið (beina línan) eins og Guð hugsar sér það (hana).

Pælingar sem eru nauðalíkar þessum má finna í ritum fylgismanna Kongzi frá 11. og 12. öld. Þeirra kunnastur er líklega Zhu Xi sem uppi var á árunum 1130 til 1200. Líkt og fyrirrennarar hans taldi hann að hver tegund hefði sitt li eða form eða eðli og þetta li væri óbreytanlegt og utan við heim áþreifanlegra hluta. Ýmislegt annað sem Zhu Xi sagði um li er afar líkt því sem Platon sagði um frummyndir einu og hálfu árþúsundi fyrr og líka því sem evrópskir miðaldaheimspekingar, samtímamenn Zhu Xi, ræddu um svipuð efni.

Zhu Xi taldi að allir hlutir hefðu sitt li (eðli eða form) og þessi form væru einhvern veginn tímalaus og þau væru til þótt enginn hlutur félli að þeim.

Ein skemmtileg hugmynd sem þessi gamli kínverji ræddi var li heimsins alls. Ef sérhver hlutur hefur sitt form eða eðli og þetta form er eilíflega til utan við veröld þess áþreifanlega, hlýtur þá ekki li alheimsins að eiga sér eilífa tilveru? Þetta li heimsins taldi hann æðra en annan veruleika og hann áleit líka að það speglaðist í öllum hlutum, að jafnvel í því smæsta og ómerkilegasta væri mynd alverunnar fólgin. Þetta minnir svolítið á það sem Platon sagði um æðstu frummyndirnar, það fagra og það góða. En ég kannast ekki við að Platon hafi álitið að heimurinn allur speglaðist í hverjum minnsta hluta sínum. Sú hugmynd kemur hins vegar fyrir hjá Leibniz á 17. öld og hver veit nema hann hafi fengið hana frá Kína.Lokað er fyrir ummæli.