Búddha og Taó

Á mótunarárum klassískrar heimspeki í Kína þekktu landsmenn lítið til annarra menningarheima. Líkt og Grikkir til forna skiptu þeir mannkyninu í tvennt. Annars vegar landa sína, sem voru siðmenntaðir, og hins vegar villimenn. Af villimönnum var ekkert hægt að læra svo kínverskur menningarheimur myndaði nánast lokaða heild þar til á fyrstu öld e.Kr. þegar Búddhatrú barst austur þangað frá Indlandi.

Kenningar Búddha eru um sumt líkar taóismanum sem kínverjar þekktu af ritum Laózi og Zhuangzi og vildu sumir skýra þetta með því að sá fyrrnefndi hefði farið til Indlands og kennt Gauthama prins, upphafsmanni Búddhismans, fræði sín– enda sagði sagan að Laózi hefði horfið í ellinni og gat hann ekki eins hafa farið til Indlands eins og hvað annað. Sagnfræðingum nútímans finnst þessi skýring víst ekki mjög trúleg. En hitt er víst að meðal Kínverja blandaðist útlend Búddhatrú saman við innlendan taóisma og af þessari blöndu spratt meðal annars sú stefna í Búddhisma sem þekkt er undir japanska heitinu zen-búddhismi.

Sagt er að á 3. og 4. öld e.Kr. hafi fræðimenn sem aðhylltust taóisma og Búddamunkar átt vingott. Gildi þess tilvistarlausa var hvorum tveggju hugleikið. Um það höfðu þeir engin orð. Það sem ekki er það fær mannlegt mál ekki fangað, því tjáðu þeir hug sinn með brosi og skildu þögn hver annars.Lokað er fyrir ummæli.