Kínversk heimspeki og evrópsk

Heimspeki Kínverja er um það bil jafngömul evrópskri heimspeki. Kongzi var uppi um svipað leyti og fyrstu grísku spekingarnir.

Þótt hæpið sé að neinn samgangur hafi verið milli Grikkja og Kínverja er sumt líkt í fornri heimspeki Kína og Vesturlanda. Dulspekin í ritum taóista er ekki alveg ósvipuð sumu sem finna má hjá grískum Platónistum og hugmyndir Yin-Yang skólans um að tölur séu lykillinn að leyndardómum tilverunnar eru líkar talnaspeki Pyþagórasar og fylgismanna hans.

Þegar kemur fram á seinni aldir er meira álitamál hvort hugmyndir séu líkar vegna þess að þær hafi borist á milli heimshluta. Á 17. öld kynntust lærdómsmenn í Evrópu kínverskum menningarheimi dálítið, meðal annars af frásögnum kristniboða. Þýski fjölfræðingurinn og heimspekingurinn Leibniz ritaði til dæmis talsvert um Kína og kínverska menningu og á 18. öld koma vísanir í kínverska sögu allvíða fyrir hjá evrópskum heimspekingum eins og til dæmis skotanum David Hume.

Það væri gaman að komast að því hvort eitthvað af evrópskri speki frá 17. og 18. öld á ættir að rekja til Kína.

Í bók sinni A short History of Chinese Philosophy (The Free Press, New York 1948) bendir Fung Yu-Lan á að margt er sláandi líkt í taóismanum hjá Zhuangzi og heimspeki Hollenska gyðingsins Spinoza sem uppi var á 17. öld. Báðir leggja áherslu á að hin æðsta þekking færi mönnum heim sanninn um að allt er eins og það er af nauðsyn sem ekki fæst umflúin og hún færi huganum jafnframt hamingju og lausn frá amasömum geðshræringum (bls. 109). Það sem Zhuangzi segir um að sjá hlutina í himnesku ljósi er líkt því sem Spinoza kallar að skoða tilveruna undir sjónarhorni eilífðarinnar þaðan sem sést að það sem fyrst virðast andstæður er í raun eitt og hið sama (bls. 112). Dularfullar hugmyndir Zhuangzi um að sannur vitringur eigi sér eilíft líf, því hann sé eitt með alheiminum og nái þannig langt út fyrir sinn dauðlega skrokk, minna líka á pælingar Spinoza um að þekkingin hefji menn yfir allan forgengileika.

Fleira má tína til í evrópskri heimspeki frá seinni öldum sem á sér samsvörun í kínverskum fornritum. Það sem Mengzi (sem var fylgismaður Kongzi) sagði um uppruna siðferðisins er til dæmis mjög líkt kenningu Hume um sama efni. Mengzi áleit að fullmótað siðferði væri hvorki meðfætt né innbyggt í mannlegt eðli en að menn hefðu með náttúrulegum hætti tilhneigingar sem væru eins og frækorn að siðferði, eitthvað sem góðmennska sprytti upp af ef menn þroskuðust við rétt skilyrði.

Líkt og Hume, sem uppi var meira en tveim árþúsundum seinna, áleit Mengzi að samúð væri mönnum í blóð borin og hún væri sá angi sem góðmennskan yxi af. Hann sagði: „Ég segi að hjarta mannsins finni til með öðrum og ástæðan er þessi. Hugsum okkur að einhver sjái barn sem er í þann mund að falla niður í brunn. Undir slíkum kringumstæðum yrði öllum brugðið og allir fyndu til samúðar. Þetta er ekki vegna þess að menn vænti launa frá foreldrum barnsins og ekki vegna þess að þeir sækist eftir vinsældum meðal nágrannanna þeirra og vinafólks og ekki heldur vegna þess að þeim líki ekki að heyra öskrin í því.“ (Snarað eftir Readings in Classical Chinese Philosophy, Hackett Publishing Company, Indianapolis 2001, bls. 129.)

Hugmynd Mengzi um siðferði er að það sé ekki algerlega meðfætt eða náttúrulegt og heldur ekki alger tilbúningur eða eitthvað sem menn hafa sett saman með því að reikna út hvað er til hagsbóta fyrir þá. Það er, eins og Hume kenndi löngu seinna, orðið til vegna þess hvernig menningin og uppeldið bæta við náttúrulegar hneigðir. Þessi viðbót væri ómöguleg nema hneigðirnar væru til fyrir. Náttúrulegar tilhneigingar yrðu heldur aldrei að siðferði sem er öllum til góðs nema samfélagið og uppeldið stýrðu því hvernig nýjar hvatir vaxa upp af þeim.

Hvort Hume hafði spurnir af siðfræði Mengzi og hvort Spinoza þekkti eitthvað til Zhuangzi veit ég ekki. Þeir gætu hafa kynnst endursögum trúboða og annarra evrópskra Kínafara á hugmyndum úr austurheimi. Þeir gætu líka hafa rambað á svipaðar hugmyndir því hjörtum mannanna svipar saman víðar en bara í Súdan og Grímsnesinu.

Framhald í næsta bloggi.Lokað er fyrir ummæli.