Um lærdóm

Ummælum sem höfðu eru eftir Kongzi var safnað í rit sem kallast Lunyu. Á Vesturlöndum hefur það verið nefnt Analects. Rit þetta hefur komið út í íslenskri þýðingu Ragnars Baldurssonar í bók sem heitir Speki Konfúsíusar. Ragnar þýddi það úr frummálinu og skrifaði ítarlegar skýringar með og vandaðan inngang.

Í þessari gömlu bók er fjallað um mikilvægi þess að vera námfús, til dæmis í grein 17.8. þar sem stendur (á bls. 219 til 221 í íslensku þýðingunni sem kom út hjá Iðunni árið 1989):

Meistarinn sagði: „You, hefurðu heyrt um dygðirnar sex og lestina sex?“

Hann svaraði að það hefði hann ekki.

„Sestu hérna hjá mér, ég skal segja þér frá þeim. Þeim sem er annt um góðmennsku án þess að vera námfús er hætt við einfeldni. Þeim sem er annt um visku án þess að vera námfús er hætt við ístöðuleysi. Þeim sem er annt um orðheldni án þess að vera námfús er hætt við óhæfuverkum. Þeim sem er annt um heiðarleika án þess að vera námfús er hætt við umburðarleysi. Þeim sem er annt um hugdirfsku án þess að vera námfús er hætt við að vera uppreisnargjarn. Og þeim sem er annt um harðfylgi án þess að vera námfús er hætt við óbilgirni og ofstopa.“

Samkvæmt þessu dugar skammt að láta sér annt um dygðirnar (góðmennsku, visku, orðheldni, heiðarleika, hugdirfsku og harðfylgi) nema maður hirði líka um lærdóm. Kong-zi trúði engum rómantískum hugarórum um góðhjörtuð náttúrubörn sem breyttu rétt og siðlega án þess að styðjast við nokkurn lærdóm. Í þessu er siðfræði hans gerólík boðskap taóista sem dásömuðu gjarna einfaldar sálir og ómenntaðar.

Kannski er hugsun Kongzi um þetta efni ekki alveg ólík því sem Hallgrímur Pétursson kenndi Íslendingum á 17. öld, því Hallgrímur áleit líka að lærdómur væri forsenda fyrir góðu siðferði og kvað:

Lærður er í lyndi glaður,
lof ber hann hjá þjóðum;
hinn er ei nema hálfur maður,
sem hafnar siðum góðum.Lokað er fyrir ummæli.