Kínversk fortíðardýrkun

Eins og nefnt var í síðasta pistli leit Kongzi á það sem hlutverk sitt að miðla fornri menningu. Hann talaði af virðingu um kónga og aðalsmenn frá 12. öld f.Kr. Nöfn sem hann nefnir oft sem siðferðilegar fyrirmyndir eru King Wen, og Shou Gong sem uppi voru á þessum löngu liðnu tímum.

Sennilega er það að fyrir áhrif frá Kongzi að fortíðardýrkun setti lengi svip á hugsun Kínverja um stjórnmál og siðferði. Þeir sem andmæltu Kongzi reyndu gjarna að vísa í enn eldri fyrirmyndir. Þannig talar Mozi til dæmis um keisarann Yu sem kvað hafa verið uppi þúsund árum á undan Wen.

Söguna af Yu taldi Mozi styðja þá skoðun sína að menn ættu að taka almannahag fram fyrir ættrækni því Yu vann að gerð flóðvarnargarða í almannaþágu og unni sér engrar hvíldar og kom ekki heim þótt hann heyrði kveinstafi konu sinnar og barna.

Taóistar sem mæltu í senn gegn Kongzi og Mozi vísuðu í enn eldra kennivald og töldu sögur af keisurunum Yao og Shun styðja sitt mál en þeir voru uppi enn fyrr en Yu.Lokað er fyrir ummæli.