Kongzi

Kongzi (sem þekktur er á Vesturlöndum undir nafninu Konfúsíus) er talinn helsti upphafsmaður kínverskrar heimspeki. Hann fæddist árið 551 f.Kr. í héraði sem hét Lu og var þar sem nú er Shandong í austur Kína. Hann náði meira en 70 ára aldri og lést árið 479 f.Kr.

Í samfélaginu sem fóstraði Kongzi var lénsskipulag sem var ekki alveg ósvipað því sem Evrópumenn bjuggu við löngu seinna. Pólitískt vald fylgdi eignarrétti á jörð og þeir sem erjuðu akrana guldu lénsherrum fyrir jarðnæðið með kvaðavinnu og hluta af uppskerunni.

Um daga Kongzi var þetta lénskerfi orðið ævafornt enda á kínversk menning sér langa sögu. Meira en þúsund árum fyrir hans tíð hafði svæðið þar sem nú eru Henan og Shandong myndað pólitíska heild undir forystu Shang keisaraættarinnar sem ríkti frá 1766 til 1122 f.Kr. Þá tók Zhou ættin við og ríkti a.m.k. að nafninu til fram yfir daga Kongzi eða allt til 256 f.Kr.

Kongzi virðist ekki hafa litið á sjálfan sig sem frumlegan hugsuð. Þótt hann hafi markað tímamót með því að vera fyrsti sjálfstætt starfandi fræðimaðurinn og kennarinn á sínum heimaslóðum var honum fyrst og fremst umhugað um að miðla fornum menningararfi.

Eftir því sem best er vitað skrifaði hann ekki neitt sjálfur en lærisveinar hans skráðu ummæli sem þeir höfðu eftir honum og af þeim má ráða að hann hafi litið á valdatíma Shang ættarinnar og árdaga Zhou ættarinnar sem horfna gullöld. Honum var umhugað um að kenna samborgurum sínum að meta arfleifð þjóðar sinnar sem varðveitt var í Hinum sex fornu ritum: Bók breytinganna, Ljóðaritningunni, Söguritningunni, Helgisiðabókinni, Tónlistarbókinni og Vor- og hausannálunum. Síðast nefnda ritið er saga Lu héraðs og það sem fyrst var nefnt fjallar um spádóma.

Kongzi lifði breytingatíma og honum þótti samfélagið á fallanda fæti. Umbæturnar sem hann ráðlagði voru að hluta til siðferðileg vakning með áherslu á góðmennsku, hófsemi og lítillæti. Að þessu leyti má líkja honum við Búddha, Jesú og fleiri andlega leiðtoga. En hann var samt ólíkur trúarlegum leiðtogum að því leyti að kenningar um yfirnáttúrulegan veruleika gegndu litlu hlutverki í boðskap hans. Hann var líka einstakur í því að leggja áherslu á bóklegan lærdóm og virðingu fyrir fornri menningu, einkum fornritin sex sem fyrr voru talin. Íhaldssemi og áhersla á ættrækni og samheldni fjölskyldunnar einkenna líka boðskap hans.

Umrótið sem Kongzi var vitni að jókst eftir dauða hans og næstu aldir, eða fram til 221 f.Kr., var allmikið um hernað í Kína. Þessu ófriðatímabili lauk með því að Qin ættin komst til valda og sameinaði ríkið að nýju eftir að það hafði klofnað í smærri hluta. Nafn landsins „Kína“ kvað dregið af heiti þessarar ættar sem stjórnaði af mikill hörku í 14 ár. Frá þeim stutta tíma eru ljótar sögur af grimmd yfirvalda í garð alþýðu. En árið 206 eða 207 f.Kr. tók Han ættin við og ríkti lengi, eða í meira en 400 ár. Á valdatíma hennar leið lénsveldið undir lok og til varð miðstýrt samfélag þar sem embættismenn stjórnuðu í umboði keisarans og pólitískt vald var ekki tengt eignarhaldi á jörð eins og fyrr hafði verið.

Þegar Qin ættin náði völdum voru meira en 250 ár liðin frá dauða Kongzi og þessi 250 ár voru blómaskeið í kínverskri heimspeki. Merkir hugsuðir höfðu haldið fram því verki sem Kongzi hóf, að túlka fornan lærdóm. Þar var Mengzi fremstur í flokki. Aðrir höfðu andmælt stefnu Kongzi og mótað heimspeki af allt öðru tagi og fram komu margs konar stefnur. Í gömlum kínverskum bókum er talað um tíma hinna hundrað skóla. Þekktastir eru nú taóisminn sem boðaður var af Laozi og Zhuangzi og Mo-isminn sem kenndur er við Mozi (en um hann var fjallað hér þann 29. júní. Þá var þess einnig getið að „zi“ er skeytt aftan við nöfn kínverskra vitringa, en það orð mun merkja nokkurn veginn það sama og „meistari“.).

Í stuttu máli má segja að Mozi hafi andmælt áherslu Kongzi á skyldur við fjölskyldumeðlimi með kenningu um að hver og einn hafi sömu siðferðilegar skyldur við alla menn og taóistarnir hafi fundið að áherslu Kongzi á lærdóm og flókna siði og þess í stað lagt áherslu á náttúrulegt og einfalt líf. Um aðra heimspekiskóla frá þessum tíma mætti hafa langt mál en það verður að bíða.

Ráðamönnum Qin ættarinnar líkaði ekki öll þessi heimspeki. Þeir vildu að þegnar sínir hugsuðu allir á einn veg og fyrirskipuðu að heimspekirit skyldu brennd. Sem betur fer sluppu nokkrar bækur við að fara á bálið og þegar Han ættin tók við var aftur farið að skrifa þær upp.

Þótt keisarar Han ættarinnar gengju ekki svo langt að fyrirskipa eyðileggingu allra heimspekibóka reyndu þeir líka að samstilla hugsun þegna sinna. Niðurstaða þeirrar viðleitni var að á seinni hluta annarar aldar f.Kr. voru hin sex fornu rit og heimspeki Kongzi gerð að opinberri hugmyndafræði keisaradæmisins. Þetta var ekki gert með því að banna aðra heimspeki heldur með því að gera þekkingu á þessum ritum að skilyrði fyrir ráðningu í opinber embætti.

Eins og fyrr er getið fór vegur embættismanna vaxandi á tímum Han ættarinnar. Metnaðargjarnir ungir menn lærðu hin sex fornu rit og speki Kongzi til að standast próf sem voru forsenda fyrir frama í keisaraveldinu. Siðfræði Kongzi varð ríkisheimspeki og á stundum líka einhvers konar ríkistrú því við og við komu fram kenningar í þá veru að hann hefði verið guðlegrar ættar. Um miðja fyrstu öld f.Kr. voru hugmyndir um tengsl hans við yfirnáttúrulegan veruleika nokkuð útbreiddar en þær viku síðan fyrir raunsærri og jarðbundnari skoðunum um þennan helsta upphafsmann kínverskrar heimspeki svo um langan aldur var Kína ólíkt öðrum ríkjum í því að hafa ekki ríkistrú heldur ríkisheimspeki.

Að mestu byggt á A short History of Chinese Philosophy eftir Fung Yu-Lan (The Free Press, New York 1948) og Readings in Classical Chinese Philosophy (Hackett Publishing Company, Indianapolis 2001).Lokað er fyrir ummæli.