Mozi

Nú er veðrið of gott til að hanga inni svo þessi færsla verður stutt enda ekki frá miklu að segja. Ég get þó minnt á að fyrir tveim og hálfu árþúsundi var uppi, austur í Kína, heimspekingur sem hét Mo og er kallaður Mozi, því siður að er skeyta „zi“ aftan við nöfn kínverskra vitringa.

Mozi skrifaði um stjórnmál siðfræði. Hann var kannski fyrsti nytjastefnumaðurinn, a.m.k. snúast kenningar hans um að menn eigi ætíð að hegða sér eins og best er fyrir heildina, forðast hvers kyns hlutdrægni og reyna að verða öðrum til gagns. Sumt af því sem hann segir minnir svolítið á Jeremy Bentham og sumt er kannski í dúr við kommúnisma 20. aldar. Kannski var Maó formaður Mo-isti ekki síður en Marx-isti.

Þótt sumt í skrifum Mozi sé furðu nútímalegt er ýmislegt hjá honum nátengt kínverskri menningu þess tíma. Hann lagði til dæmis mikla áherslu á mikilvægi þess að fólk væri sannfært um tilveru drauga og rakti margt sem aflaga fór í samfélaginu til þess að draugatrú væri á undanhaldi. Hann rökstuddi þetta á ýmsa vegu og benti meðal annars á að þeir sem ekki tryðu á drauga gætu framið ill verk á laun og ímyndað sér að enginn sæi til þeirra en þeir sem gerðu ráð fyrir að draugar væru á kreiki hlytu að búast við að það sem enginn lifandi maður sá gætu framliðnir séð og látið lifendur vita um.

Þessi rök Mozi fyrir mikilvægi dragatrúar eru svo sem vel skiljanleg nútímamönnum. Annað í skrifum hans er erfiðara að botna í, eins og til dæmis hvað honum þótti illt að menn sæktu tónleika, en tónlist var honum mikill þyrnir í augum. Kannski var andóf hans gegn henni af svipaðri rót runnin og andúð Platons á skáldskap. Kannski taldi hann bara það hún tefði menn frá þarfari verkum því Mozi var siðavandur og strangur og taldi að menn ættu að vinna eins og þeir hefðu þrek til. Hangs og slór var honum ekki að skapi.Lokað er fyrir ummæli.