Þorskurinn

Samkvæmt nýlegri skýrslu Hafrannsóknarstofnunar um ástand nytjastofna á Íslandsmiðum og aflahorfur fiskveiðiárið 2007/2008 horfir heldur illa með þorskinn. Í skýrslunni segir:

Árgangar frá 2001 til 2006 eru allir metnir undir langtímameðaltali (170 milljónir nýliða við þriggja ára aldur). […] Meðalnýliðun þessara sex síðustu árganga er einungis um 117 milljónir fiska. Til samanburðar er meðalnýliðun árganganna frá 1997 til 2000, sem borið hafa uppi veiðina og stofninn á undanförnum árum, metinn á um 170 milljónir þriggja ára nýliða.

Ekki er nóg með að fiskunum fækki, einstaklingarnir eru einnig smávaxnari en verið hefur:

Meðalþyngd þorsks eftir aldri hefur lækkað verulega á síðustu árum og er meðalþyngd flestra aldursflokka […] í eða við sögulegt lágmark. Holdafar fisks sem er veginn í stofnmælingunum hefur hins vegar breyst lítið á undanförnum árum þannig að breyting í meðalþyngd orsakast af því að fiskurinn er styttri miðað við aldur.

Þetta eru heldur slæm tíðindi. Mér þykja viðbrögð manna við þeim þó ekki síður áhyggjuefni. Sumir neita einfaldlega að taka mark á Hafrannsóknarstofnun. Vissulega væri til bóta að fleiri rannsökuðu þorskstofninn og vissulega má vefengja sumt í mælingum og útreikningum stofnunarinnar. En ég hef ekki séð nein góð rök til að ætla annað en að mat hennar á lækkun meðalþyngdar sé a.m.k. nokkurn veginn rétt. Það má ef til vill deila um hvað nýliðunin er mikil en rökin fyrir því að hún hafi minnkað eru eftir því sem ég best fæ skilið nokkuð traust. (Á þessu ætti ég líklega að hafa þann fyrirvara að minn skilningur á þessu efni byggist ekki á neinni vísindalegri þekkingu. Ég hef sáralítið vit á líffræði.)

Innan um blaðskrif og fjölmiðalsnakk þar sem niðurstöður Hafrannsóknarstofnunar eru vefengdar ber talsvert á alls konar furðulegum hugmyndum um þorskinn. Því er til dæmis haldið fram að meiri veiði geti styrkt stofninn og það ætti að úthluta miklu meiri kvóta en fiskifræðingar mæla með. Samt er vitað mál að ofveiði hefur gengið nærri þorskstofnum úti fyrir Ameríku og í Norðursjó.

Sumir nota skýrslu Hafrannsóknarstofnunar í áróðri gegn kvótakerfinu þótt það geti varla talist trúlegt að það hafi mikil áhrif á afkomu þorsksins hvort hann er veiddur upp í aflamark eða í sóknardagakerfi.

Sennilegar skýringar á vesaldómi í þorskstofninum eru nokkrar, en of lítil veiði er ekki ein af þeim og kvótakerfið ekki heldur. Þær sem koma til greina og vert er að taka alvarlega eru eftir því sem ég kemst næst einkum:

a) Meiri veiði á stórum fiski en smáum.
b) Minni fæða.
c) Ofveiði.
d) Náttúrulegar breytingar á vistkerfi hafsins.
e) Notkun veiðarfæra sem skemma hrygningarstöðvar á hafsbotni.

Í New Scientist frá 9. júlí 2005 er merkileg grein sem varpar nokkru ljósi á a-lið. Þar segir frá því að rannsóknir sýni að þorskur undan strönd Nýfundnalands hafi orðið smávaxnari með hverju ári þar til veiðum var hætt á svæðinu á tíunda áratug síðustu aldar. Þar sem veiðimenn hirtu stærsta fiskinn og sá smæsti annað hvort slapp gegnum möskvana eða var hent lifandi fyrir borð urðu veiðar til þess að lífslíkur þorsks urðu því meiri því smávaxnari sem hann var. Útvegsmenn ræktuðu því beinlínis upp smávaxinn stofn. Eftir að þorskurinn þarna var friðaður hefur stofninum gengið fremur illa að ná sér og rekja greinarhöfundar það til þess að smáþorskur eignast fremur fá afkvæmi miðað við stóran þorsk sem er með miklu stærri hrognabelgi.

Jafnframt því að segja frá þessum rannsóknum á þorski hér fyrir vestan okkur gera blaðamenn New Scientist grein fyrir tilraun sem unnin var við Stony Brook háskólann í New York. Þar voru fiskar hafðir í eldi og líkt eftir veiðum með því að slátra stórvöxnustu 90% af fiskunum. Í annarri kví var smávöxnustu 90% slátrað. Eftir aðeins 4 kynslóðir var arfgengur stærðarmunur orðinn mjög mikill, því fiskarnir í síðarnefnda hópnum voru orðnir tvöfalt stærri en hinir þar sem líkt var eftir hegðun fiskimanna.

Af þessu öllu saman draga höfundar þá ályktun að það sé afar vitlaus veiðipólitík að hlífa smáfiski. Betra væri að þyrma þeim stærstu.

Liður b er umhugsunarefni ekki síður en a. Þorskstofninn hefur farið minnkandi eftir að veiðar á helstu fæðu hans eins og loðnu og rækju urðu stórtækar. Það gefur nokkuð auga leið að ef fæða þorsksins minnkar þá á stofninn erfiðara með að ná sér á strik. Um þetta segir í skýrslu Hafrannsóknarstofnunar.

Auk loðnu virðist magn nokkurra annarra mikilvægra fæðutegunda hafa dregist saman á undanförnum árum. Rækja er töluvert mikilvæg fæðutegund hjá smæsta þorskinum en magn rækju hefur minnkað verulega á undanförnum árum, einkum á grunnslóð.

Nú er þessi færsla orðin ansi löng svo ég geymi liði c, d og e. En árétta að það hlýtur að vera umhugsunarefni hvort ekki þurfi að finna leiðir til að hlífa stórvaxnasta fiskinum og hvort ekki sé ráð að draga úr veiðum á þeim tegundum sem eru aðalfæða þorsksins.5 ummæli við “Þorskurinn”

 1. Kolbeinn Marinósson ritar:

  Af einhverjum ástæðum virðast allir vilja hafa skoðanir og vit á fiskveiðum og ástandi fiskistofna hér við land.Maður hefur í gegnum tíðina lesið ýmisslegt bæði í blöðum og á netinu, sumt skrifað af einstaklingum sem hafa annað hvort enga eða mjög takmarkaða þekkingu á viðfangsefninu er þá gjarnan apað eitthvað upp úr skýrslum Hafró, en efni frá þeim er auðvelt að nálgast. Þessi pistill er ágætt dæmi og höfundur hefur í reynd ekkert framm að færa. Við sem í sjávarútvegi störfum og byggjum lífsafkomu okkar algerlega á fiskveiðum eigum fullan rétt á því að tjá skoðanir okkar sem eru í lang flestum tilvikum byggðar á áratuga langri reynslu. Það er alger óþarfi að gera lítið úr þeim sem eru ekki sammála Hafró. Hafró er ekki eitthvert alræðisvald. Í þessari grei eru rangfærslur sem lýsa vanþekkingu. Í fyrsta lagi skal bent á það að á síðustu 10 árum hefur línuveiði aukist á kostnað netaveiða, netaveiðar eru nánast horfnar. Þetta þýðir í stuttu máli að sókn í smærri fisk hefur aukist mikið síðustu ár þar sem net eru eina veiðarfærið sem getur valið stærsta fiskinn. Greinahöfundur virðist ekki skilja tengsl milli aflamarkskerfis og stærð þorskstofnsins. Verði kvóti skorinn niður í 130000 tonn liggur í augum uppi að margir munu lenda í verulegum vanda. Það hlýtur að verða lífsspursmál fyrir marga að koma með sem verðmætastan afla að landi og það er stærsti fiskurinn, sem sagt smærri fiskurinn hættir ekki að veiðast hann bara hættir að koma í land. Og þar sem Hafró og stjórnvöldum er búið að takast nánast að útrýma netaveiðum held ég að brottkast verði óumflýjanlegt hjá mörgum. Læt þetta duga að sinni.

 2. Atli Harðarson ritar:

  Mér finnst eins og gæti svolítillar ólundar í þessari athugasemd Kolbeins. Ég sé þó ekki af orðum hans að hann sé mér beinlínis ósammála um nein efnisatriði. Hann bendir á tvennt sem ég tók ekki fram. Annað er að sókn í smærri þorsk hefur aukist og hitt er að aflamarkskerfi hvetur fremur til brottfalls en sóknardagakerfi, svo 130 þúsund tonna aflamark þýðir í reynd veiði upp á eitthvað meira en 130 þúsund tonn. (Hve mikið meira er ég hræddur um að enginn viti með neinni vissu).

  Í grein minni, sem Kolbeinn segir að sé skrifuð af lítilli þekkingu og af manni sem hefur ekkert fram að færa, er kannski fátt annað en það sem liggur í augum uppi fyrir utan kannski stutta endursögn á frétt úr New Scientist. Það kann því að vera talsvert til í því hjá Kolbeini að ég hafi lítið fram að færa.

  Það er næsta augljóst að þó Hafró kunni að skjátlast um sumt stendur óhrakið að þorskurinn er smærri og stofninn minni en fyrir nokkrum árum. Ég nefni 5 mögulegar skýringar á þessu og fullyrði ekki að sá listi sé tæmandi– var hálft í hvoru að vonast eftir athugasemd þar sem bent væri á fleiri möguleika.

  Það er raunar athyglisvert að Kolbeinn telur að samband sé milli kvótakerfis og stærðar þorskstofnsins og má ráða af orðum hans að tengslin liggi í því að kvótakerfið hvetji til brottkasts, sem er svo mikið að um ofveiði sé að ræða, þótt afli sem á land kemur sé nálægt tillögum Hafró. Af þessu má ráða að hann telji að vandinn sé ofveiði fremur en til dæmis fæðuskortur.

  Kolbeinn nefnir réttilega að þeir sem lifa á sjósókn megi tjá skoðanir sínar um málefni sjávarútvegs. Þarf að taka þetta fram? Um landsins gagn og nauðsynjar mega auðvitað allir tala. Að efast um að einhver hafi rétt fyrir sér jafngildir því engan veginn að varna honum máls.

  Ég vefengi sjónarmið þeirra sem halda að rétt sé að veiða mun meira en Hafró leggur til og það eins þótt þeir hafi áratugareynslu af sjósókn. Víða um heim hafa veiðimenn með áratuga reynslu útrýmt nytjastofnum og Íslendingar eru ekkert öðru vísi en annað fólk.

 3. kollimar ritar:

  Þú gengur út frá því sem vísu að gögn Hafró varðandi þorskstofninn sé hinn eini sannleikur. Allt annað sé þvættingur gráðugra veiðimanna sem allt vilji drepa og gefi skít í framtíðina. Auðvitað verða menn þreyttir á að liggja sífellt undir slíku. Ég tel að áreiðanleiki mælinga Hafró sé ekki meiri en svo að ekki sé með nokkru móti réttlætanlegt að skera veiðina eins mikið niður og þeir leggja til. Allt tal þeirra um hrun stofnsins er með ólíkindum og í reynd ekki hægt að skýra öðruvísi en sem einskonar hótun til stjórnvalda. Ég er ekki einn um að vera þessu ósammála, hins vegar hefur það því miður loðað við okkur sem við þetta störfum að láta allt yfir okkur ganga og er það eflaust að miklu leiti því að kenna að það er aldrei hlustað á aðra en fiskifræðinga, þótt ráðamenn þykist taka tillit til fleiri sjónarmiða. Þá er það einungis í orði. Ég er sannfærður um að þótt við héldum okkur við 200.000 tonna afla næstu árin myndi það ekki hafa neitt að segja varðandi stærð þorskstofnsins. Að mínu viti eru engar vísbendingar um að stofninn sé að minnka. Árgangar eru alltaf misstórir og ég efast ekki um að þeir árgangar sem eru að koma inn í veiðina núna séu eitthvað lakari en verið hefur. Það er hins vegar ekkert hrun yfirvofandi. Við verðum víða varir við smáþorsk og lítið minna en verið hefur síðustu ár. Hins vegar hefur útbreiðsla hans breyst töluvert, hann er víðar en í minna magni á þeim svæðum þar sem hvað mest var um hann fyrir nokkrum árum. Hann gengur lengra út í kantana fyrir norður og norð-austurlandi en ég hef séð áður. Ég skal nefna þér eitt dæmi. Í nóvember s.l haust lagði ég línuna djúpt norður úr Langanesi (200-240fm) og gerði mér vonir um að fá vænan þorsk. En þarna var bara smáþorskur 50-60 cm fiskur ca 2-3 ára. Við höfum ítrekað verið að reka okkur á það að hegðun þorsksins er frábrugðin því sem við eigum að venjast. Ég vil benda þér á viðtal við Hörð Helgason skipstjóra á Hrafni Sveibj. í mogganum 23 jún s.l. Við erum ekki í því að telja fiska(sem er tímasóun)eða útbúa línurit máli okkar til stuðnings. Við tölum bara útfrá okkar reynslu og því sem við upplifum á miðunum. En það er trúlega ekki nógu fínt og spekingslegt ofan í þá sem vilja hafa sínar háspekingslegu skoðanir byggðar á niðurstöðum háskólalærðar vísindamanna. Nei, auðvitað tekur enginn mark á öðru.

 4. Atli Harðarson ritar:

  Sæll aftur Kolbeinn

  Ég skil vel pirring þinn yfir að ekki sé hlustað á það sem sjómenn hafa fram að færa. En ég held að þetta sé ekki sérvandamál sjómanna og eigi ekkert sérstaklega við umræður um sjávarútveg. Ætli “menntmenn” hunsi ekki málflutning annarra á fleiri sviðum?

  En hafa sjómenn og útvegsmenn ekki félög sem tekið er eitthvert mark á?

  (Með þessu er ég ekki að taka undir þá skoðun þína að það sé allt í lagi að veiða 200 þús. tonn af þorski.)

 5. Elli ritar:

  Eftir að hafa lesið þessi ummæli, gat ég ekki setið á mér. Það hljóta allir heilvita menn að sjá það að það verður að vera jafnvægi í fæðukeðjunni.
  Það þýðir ekki að taka fæðuna af skepnunni og halda því svo framm að hún geti stækkað og dafnað. Það mætti líkja þessu saman við það að ef að mannsskepnan tæki sig til og myndi kveikja í öllu grasi á jörðinni og héldi því svo framm að t.d. búfénaður kæmi myndalegur ofan af fjalli.
  Hver eru vandamálin í biafra? Er það ekki fæðuskortur.
  Einnig hljóta menn að sjá það að það þýðir ekki að friða eina tegundina og veiða svo hinar, því þá verður friðaða tegundin of stór og étur hinar. Samanber hvalurinn. Hann þarf fæðu einsog aðrar tegundir og það ekkert lítið eftir því sem ég best veit, og ég held að það sé raunverulega ekkert vitað hvað hann þarf mikið.
  Mín skoðun er því sú að það sem þarf að gera, er að draga verulega úr loðnuveiðum og fækka hvalnum líka. Þá fyrst tel ég að ástandið muni batna. Einnig átti aldrei að leifa hvorki 9″ netaveiðar eða að veiða þorskinn í nót í kringum 1960. Það vita það allir að stærsti þorskurinn gefur flest afkvæmi af sér í fjölda talið og þar af leiðandi mestar líkur á að stofninn fjölgi sér hlutfallslega mest frá stærri fiski. Auðvitað vitum við það að það eru einnig önnur öfl í hafinu eins og ránfiskar sem lifa á hrognunum og veðurfarsskilirði sem spila líka inní þetta allt saman, en það er einhvað sem við ráðum ekki við. Við eigum allavega möguleika á að stýra hinum þáttunum. En það sem er stærsta vandamálið í þessu öllu, er pólitík. Þetta hefur ekkert með stofnstærðir að gera. Til dæmis síðasta hvótaskerðing var bara pólitísk ákvörðun, til að geta verið svo góðu mennirnir fyrir næstu kosningar, er ég best veit. Enda þegja þeir stóru þunnu hljóði í dag. Það á að reyna að setja þennan hvóta á enn færri hendur.