Eigin skrif og efahyggja Zhuang-zi

Í síðasta hefti Skírnis (2007 vor, 1. tbl. 181. árg. bls. 203-215) er grein eftir mig sem heitir Um hjónabönd samkynhneigðra. Í nýjasta tölublaði Þjóðmála (2. hefti, 3. árg. bls. 31-35) á ég stutta grein sem heitir Efahyggja, umburðarlyndi og íhaldssemi. Báðar þessar greinar liggja frammi í pdf-skrám á heimsíðu minni http://this.is/atli/.

Bók eftir mig sem heitir Af jarðlegum skilningi og kom út hjá Háskólaútgáfunni árið 2001 er nú til sölu í vefbókaverslun Andríkis. (Hún fæst ekki lengur hjá forlaginu en hugsanlega eru einhver eintök til í öðrum bókabúðum.)

Bók um heimspekilega efahyggju sem ég hef unnið að undanfarið ár er nú loks að taka á sig endanlega mynd. Vonandi kemur hún út á fyrri hluta næsta árs. Það hefur verið skemmtilegt að vinna við þetta efni. Ég held mig við efahyggju í Vestrænni heimspeki en eitt af því sem ég uppgötvaði þegar ég var að kynna mér efahyggju grískra heimspekinga í fornöld er um svipað leyti kom lík stefna fram austur í Kína. Þar velti meistari Zhuang (eða Zhuang-zi eins og hann var kallaður á kínversku, en á því máli merki „zi“ meistari) fyrir sér rökum fyrir því að menn viti mun minna en þeir telja sig vita.

Zhuang-zi var annars lærisveinn Lao-zi þess sem eignuð er Bókin um veginn.

Efahyggja Zhuang-zi birtist viða í riti því sem við hann er kennt. Sumar pælingarnar og ráðgáturnar eru líkar þeim sem finna má í forngrískum textum. Í samræðunni Þeateitosi eftir Platon velta Sókrates og viðmælandi hans því til dæmis fyrir sér hvernig þeir geti vitað hvort þá er að dreyma og eru á einu máli um að slíka vitneskju sé ekki að hafa. Zhuang velti sömu ráðgátu fyrir sér. Hugsun sína um þetta efni orðaði hann svona á sinn ljóðræna hátt:

Eitt sinn dreymdi mig að ég væri fiðrildi sem flögraði hér og þar og fór mínu fram í samræmi við áform og markmið fiðrilda. Ég hafði aðeins meðvitund um að ég léti að duttlungum fiðrildis og hafði ekki vitund um sjálfan mig sem mennskan einstakling. En skyndilega vaknaði ég og þarna lá ég og var aftur ég sjálfur. En nú veit ég ekki hvort ég var þá maður sem dreymdi að hann væri fiðrildi eða hvort ég er nú fiðrildi sem dreymir að það sé maður.2 ummæli við “Eigin skrif og efahyggja Zhuang-zi”

 1. Þorri ritar:

  Falleg hugleiðing hjá hinum kínverska meistara. Ég er einmitt svo heillaður af efahyggju og hef brotið heilan töluvert.

  Mín skoðun er sú að ein afleiðing efahyggju eru trúmenn, þ.e. sá sem slær því föstu að heimurinn sé til, jafnt hús sem hlutabréfavísitala, er trúmaður. Hann trúir því sem ekki er hægt að sanna með nokkru móti.

  Það sem mér finnst svo ágæt við þessa niðurstöðu mína er að þegar fólk er einusinni orðið trúað, þá er svo auðvelt að víkka út trúna. Auðveldara er að fá þann sem trúir til að trúa meiru heldur en að fá þann sem trúir ekki til að trúa.

  Þannig opnar efahyggja, að mínu mati, dyr fyrir álfum, guði, dulspeki og ýmsu öðru sem mér finnst svo skemmtilegt. :-)

 2. Atli Harðarson ritar:

  Sumir frægir efahyggjumenn (eins og t.d. Bayle á 17.öld) hafa álitið eins og Þorri að efinn greiði mönnum leið til trúar. Þetta virðist samt þverstæðukennt. Hvernig geta rök fyrir því að ekkert sé öruggt og víst verið rök með því að trúa á tilveru yfirnáttúrulegs veruleika? Geta þau ekki í mesta lagi stutt þá afstöðu að ekki sé hægt að útiloka að eitthvað yfirnáttúrulegt sé til?