Húsavíkurferð og innritun í framhaldsskóla

Á fimmtudag og föstudag voru skólastjórnendur við framhaldsskóla samankomnir á Húsavík. Fyrri daginn var aðalfundur Félags íslenskra framhaldsskóla og þann seinni héldu stéttarfélög stjórnenda aðalfundi sína. (Fyrrnefnda félagið er fagfélag stjórnenda í framhaldsskólum.)

Svona samkomur eru haldnar á hverju vori og jafnan við framhaldsskóla fjarri Reykjavík. Þær eru alltaf jafnskemmtilegar, enda er margt af því fólki sem þarna kemur saman töluverðir karakterar. Jafnan er eitthvað haft til skemmtunar eftir fundi fyrri dagsins og að þessu sinni buðu Húsvíkingar í hvalskoðunarferð um Skjálfanda. Við sáum hnúfubak leika sér kringum bátinn í góða stund. Galti og Víknafjöllin voru líka sérlega glæsileg með snjó niður í hlíðar. Ég tók nokkrar myndir í ferðinni og sumar þeirra eru komnar á Flickr.

Fundinum var valinn tími nú þegar flestir hafa lokið við að ganga frá eftir vorönn og beðið er eftir að hægt verði að hefja innritun fyrir haustönn, en nemendur geta skráð sig í skóla með rafrænum hætti til miðnættis á morgun. Þangað til safnast upp listar þar sem unglingar velja skóla til að ganga í næsta vetur og tilgreina og einn, tvo eða þrjá til vara. Á þriðjudagsmorgun mega skólar svo byrja að vinna úr listunum, veita umsækjendum inngöngu. Þetta verður nokkurra daga törn.

Skólastjórnendur geta fylgst með stöðu skráninga. Um hádegi í dag höfðu 3526 af 4524 nemendum sem luku 10. bekk í vor valið skóla. Þetta eru um 78%. Sé gert ráð fyrir að 95% fari í framhaldsskóla eiga um 770 eftir að skrá sig. Mér sýnist að aðsókn að mínum skóla hér á Akranesi ætli að verða þokkaleg en hafði haft nokkrar áhyggjur af að nýr skóli í Borgarnesi tæki meira frá okkur.Lokað er fyrir ummæli.