Um Bréf til Maríu eftir Einar Má Jónsson

Ég var að lesa nýlega bók eftir Einar Má Jónsson sem heitir Bréf til Maríu. Tveir vinnufélagar mínir höfðu látið vel af henni svo ég ákvað að gera smá hlé á lestri um heimspekilega efahyggju og renna yfir skrif Einars. Nýjasta sendingin frá Amazon af bókum um efahyggju í Zhuangzi of fleiri fornum ritum frá Kína bíður því í stafla við hliðina á tölvunni.

Ég bjóst við að bók Einars innihéldi bitastæða samfélagsgagnrýni. En hún er mest mælska og skáldskapur sem minnir svolítið á ungæðisleg skrif Þórbergs Þórðarsonar í Bréfi til Láru. Við lesturinn hefur mér liðið dálítið eins og eitt sinn þegar ég hlustaði á Erp Eyvindarson rappa samfleytt í tvo klukkutíma um „tussur og hórur og Bush og Blair.“ Í upphafi tónleikanna var ég svo illa að mér að halda að hann væri milli tektar og tvítugs og mér fannst þá svolítið sniðugt hvað hann var fljótur að ríma og fallega óðamála yfir allri vonskunni í heiminum. Svo var því hvíslað að mér að hann væri 29 ára gamall, þrátt fyrir strákslegt útlit, og þá fannst mér þetta aumkunarvert fremur en skondið.

Bók Einars virðist njóta nokkurra vinsælda og talsvert er um hana fjallað. Kannski er það að einhverju leyti vegna þess hvernig höfundur hefur allt á hornum sér. Hann úthúðar til dæmis frönskum heimspekingum frá síðustu öld, nýjungum á skólakerfinu og Evrópusambandinu og þar sem fordómar hans í garð þessar fyrirbæra eru um margt líkir mínum eigin kitlaði þetta einhverjar illkvittnar hláturtaugar inni í mér. Einhverjum örðum er sjálfsagt dillað yfir því sem hann segir um frjálshyggju, einkabíla og borgarskipulag. Líklega tekst honum að dekra svolítið við urg og óánægju hjá flestum lesendum með því að hneykslast nógu kröftuglega á einhverju sem þeir hafa ímugust á.

En þrátt fyrir lítið álit mitt á franskri samtímaheimspeki, frá og með Jean-Paul Sartre, tortryggni í garð Evrópusambandsins og vantrú á ýmsum nýjungum í menntamálum get ég ekki tekið gagnrýni Einars Más alvarlega. Hún er engan veginn málefnaleg.

Meginkenning bókarinnar virðist vera á þá leið að síðustu árin hafi nokkrar sveiflur í mannkynsögunni, sem sumar spanna langan tíma og sumar skamman, fallið saman og magnað hver aðra með þeim afleiðingum að samfélag Frakka og fleiri þjóða séu að fara til fjandans.

Einar gerir mikið úr sókn frjálshyggju og telur hana mjög til bölvunar. Ég reyndi að átta mig á hvort hann meinti frjálshyggju af því tagi sem boðuð er á www.andriki.is eða hvort hann væri frekar að tala um fjórfrelsið á Evrópska efnahagssvæðinu og alþjóðavæðingu. Við þessu finnast engin skýr svör í textanum. Fullyrðingar seint í bókinni um að Evrópusambandið sé að innleiða frjálshyggju í löndum sínum benda til að hann kenni mestalla miðjuna í evrópskum stjórnmálum við þessa stefnu.

Eina ritið um frjálshyggju sem hann nefnir og reynir að gagnrýna er frönsk bók eftir mann að nafni Henri Lepage. Af frásögn Einars að dæma er þetta afspyrnu vitlaus bók. Það sem hann tínir til eftir franska marxista er líka afspyrnu vitlaust. En það segir jafnlitla sögu um frjálshyggju og marxisma þótt hægt sé að láta gamminn geysa um það vitlausasta sem fylgismenn þessara hugmynda hafa sagt.

Meðal þess fáa sem Einar segir nokkru til lofs eru orð hans um samfélög Norðurlanda. Hann virðist telja norrænt velferðarkerfi og skandinavíska samfélagshætti, eins og þeir þróuðust á 20. öld, vera um margt til fyrirmyndar. Hann ræðir þetta snemma í bókinni og segir að í sínu ungdæmi hafi velferðarsamfélagið verið óumdeilt en nú sé „frjálshyggja“ búin að eyðileggja það. Kannski ólst hann upp í vernduðu umhverfi þar sem stuðningur við einstæðar mæður var óumdeildur, engum datt í hug að láta lesblinda krakka koðna niður í tossabekkjum eða bjóða heilsutæpum öldungum lélegan kost. Flest okkar koma úr harðari heimi og muna ekki þessa gullöld hins óumdeilda velferðarkerfis og flestum birtist „frjálshyggjan“ aðallega í mynd meira vöruúrvals, betri þjónustu og meiri þæginda sem vissulega leysa ekki nema lítinn hluta af tilvistarvanda mannfólksins, en eru heldur ekkert að fara með allt til andskotans eins og Einar virðist álíta. Ég kannast heldur ekki við að opinber velferðarkerfi hafi beinlínis verið aflögð neins staðar á Vesturlöndum þótt sums staðar hafi hægt á vexti þeirra.

Einar býr í Frakklandi og dæmin sem hann tekur eru mörg þaðan. Ég hélt að Frakkland væri það af löndum Vestur-Evrópu þar sem áhrifa frjálshyggju gætti hvað minnst í stefnu stjórnmálaflokka. Mér finnst því svolítið merkilegt að Einar Már skuli telja að hún sé að eyðileggja franskt samfélag. Er ekki trúlegra að það sem mest fer aflaga í Frans stafi af því sem þarlenda vantar en nágrannar þeirra hafa í ögn meira mæli? Getur ekki verið að ýmislegt gangi skár í Hollandi, á Bretlandi og í Skandinavíu vegna þess að þau lönd búa að sterkari frjálshyggjuhefð en Frakkland? Ekki eins og ég viti þetta. Af bók Einars Más virðist næsta ljóst að hann viti þetta ekki heldur, enda lætur hann gamminn geisa jafnt um efni sem hann virðist hafa vit á og mál sem mér sýnist hann ekki mjög kunnugur. Að minnst kosti fer illa saman að dásama skandinavísk samfélög og að telja frjálshyggju undirrót alls ills, því hún hefur óviða haft meiri áhrif en á Norðurlöndum, þar sem atvinnulíf hefur lengi verð meða frjálsasta móti, flest fyrirtæki í einkaeign og hagstjórn að mestu í anda frjálshyggju að öðru leyti en því að skattar hafa verið nokkuð háir. Norræna velferðarkerfið var byggt ofan á markaðshagkerfi og alls óvíst að mögulegt sé að byggja slíkt kerfi ofan á annars konar undirstöður.

Stundum skrifar Einar Már eins og hann aðhyllist einhvers kona vinstri jafnaðarstefnu. Það hvernig hann bölsótast yfir minnkandi áhrifum trúarbragða, afnámi latínukennslu í skólum og alþjóðavæðingu skipar honum þó fremur á bekk með íhaldsmönnum en krötum– og þá er ég ekki að meina frjálslyndum íhaldsmönnum, sem stundum eru líka kallaðir frjálshyggjumenn, heldur alvöru íhaldsmönnum eins og hægt er að finna í Teheran og Páfagarði. Sem betur fer er þessi reiðilestur ekki nema 350 blaðsíður. Á 100 síðum í viðbót hefði hann trúlega verið farinn að úthúða kvenréttindum og frjálsri sölu á getnaðarvörnum.8 ummæli við “Um Bréf til Maríu eftir Einar Má Jónsson”

 1. Einar ritar:

  Mér er það enn afar minnisstætt þegar ég byrjaði í sagnfræði við HÍ, haustið 1990 og það allra fyrsta sem ég heyrði nokkurn segja, var þegar Einar Már tilkynnti mér að ef ég kynni ekki latínu, gæti ég aldrei orðið sagnfræðingur.

 2. Atli ritar:

  Maður getur heldur ekki orðið fræðimaður án þess að kunna arabísku.

 3. Þorri ritar:

  Takk fyrir ágæta pistla.

  Alltaf þykir mér jafn gaman að heyra talað um efahyggju, ein af ástæðunum fyrir því að ég les þetta blogg.

  Nú erum við Atli nokkuð sammála um að ekki er hægt að hrekja efahyggju, en mætti ég óska eftir afleiðingu þeirrar vissu. Samanber lærdóm okkar um segulsvið jarðar sem leiddi af sér t.d. áttavitann, þá hlýtur lærdómur okkar um efahyggju að leiða eitthvað annað af sér.

 4. Atli ritar:

  Þorri spyr hvað leiði af efahyggju. Ég veit það ekki frekar en aðrir en ég vona að ein af afleiðingum hennar sé færri galdrabrennur.

 5. Kristjana Guðmunds. ritar:

  Kæri Atli.
  Einar Már er betur menntaður frá MR en við frá MA 72&73. Bókin er fábær en Einari skjöplaðis aðeins þegar hann ritaði að íslenskar kyndur væru með bjöllur um hálsinn. Hann veit auðvitað að þetta er skáldskaparmál?
  Krissa

 6. Þórir ritar:

  Ég hef búið erlendis í meira en þrjá áratugi, og ég verð að segja að mér fannst virkilega gaman að lesa ´Bréf til Maríu´. Satt best að segja hafði ég heldur litlar áhyggjur af persónulegum skoðunum höfundar, sem virðist valda Atla nokkrum áhyggjum, en fannst sérstaklaga hressandi að lesa svona vel skrifaðan texta.

 7. Þórir ritar:

  Ég hef búið erlendis í meira en þrjá áratugi, og ég verð að segja að mér fannst virkilega gaman að lesa ´Bréf til Maríu´. Satt best að segja hafði ég heldur litlar áhyggjur af persónulegum skoðunum höfundar, sem virðist valda Atla nokkrum áhyggjum, en fannst sérstaklaga hressandi að lesa svona vel skrifaðan texta.

 8. Sveinbjörn ritar:

  Mér þykir þú ekki sanngjarn: ég held að EMJ hafi annað í huga með “frjálshyggju” heldur en þú ætlar honum. Þar meini hann “frjálshyggju” í anda Möggu Thatcher frekar en frjálshyggju manna á borð við Mill. Ekkert í bókinni gefur til kynna að höfundur vilji afnema markaðshagkerfið sem slíkt.