Das Leben der Anderen
Aldrei þessu vant horfði ég á sjónvarpið núna áðan, því kvikmyndin Vera Drake eftir Mike Leigh var sýnd í Ríkissjónvarpinu. Ég hafði séð þessa mynd áður. En hún er vel þess virði að horfa á hana tvisvar.
Ég ætlaði annars ekki að skrifa um Veru Drake heldur aðra kvikmynd. Hún heitir Das Leben der Anderen (Líf annarra) og er eftir Florian Henckel von Donnersmarck. Ég sá hana í Háskólabíói fyrir fáeinum dögum
Das Leben der Anderen gerist í Austur Þýskalandi um miðjan 9. áratuginn og fjallar um hvernig leyniþjónustan, Stasi, fylgdist með lífi almennra borgara. Fyrir utan einn ráðherra sem er óttalegur drullusokkur er fólkið sem fjallað er um í myndinni fremur gott fólk, skyldurækið og góðhjartað. En iðja leyniþjónustunnar vekur samt ótta og býr til andrúmsloft þar sem menn forðast að vera hreinskilnir og opinskáir. Tvær sögupersónur myndarinnar, leikstjóri og leikkona, fremja sjálfsmorð eftir að hafa lent í klónum á Stasi. Þau voru samt ekki beitt neinum pyntingum. Leikstjórinn var einfaldlega látinn hætta að vinna og leikkonan sveik unnusta sinn, rithöfundinn Georg Dreyman, þegar henni var bent á að ella fengi hún hvorki fleiri hlutverk né meira af læknadópinu sem hún gekk fyrir.
Þótt myndin fjalli um hvernig alræði ríkisins fer með fólk er húmorinn alls staðar nálægur og minnir svolítið á skopið í kvikmynd Wolfgangs Becker, Goodbye Lenin, sem er líka uppgjör við kommúnismann í Austur-Þýskalandi.
Það er hægt að horfa á Das Leben der Anderen sem sagfræðilega mynd. Mér skilst að hún segi nokkuð rétt frá vinnubrögðum Stasi. Það er líka hægt að horfa á hana sem mynd um hvernig kerfi sem á að vera vinveitt alþýðunni og tryggja öryggi almennings getur eyðilagt samfélagið, skapað ótta, tortryggni og jarðveg fyrir spillingu. Ef eitthvað er óhugnanlegt við Stasi mennina í myndinni er það helst hvað þeir eru venjulegt fólk, velviljaðir og samviskusamir. Ég hugsa að fleiri áhorfendum en mér hafi dottið í hug að ekki þurfi svo mikið að breytast til að við sitjum einn daginn uppi með eitthvað í dúr við Stasi– það gæti gerst án þess neinir öfgamenn á borð við kommúnista eða fasista geri byltingu eða valdarán?
Kannski er myndin holl lexía fyrir þá sem trúa á aukið eftirlit með hugsanlegum hryðjuverkamönnum, netlögreglu til að vernda okkur gegn perrum, miðlæga gagnagrunna með persónulegum upplýsingum um Pétur og Pál og tæknivædd kerfi sem geta rakið slóð hvers einasta manns.