Hvers vegna ætli stjórnmálamenn séu hrifnir af Evrópusambandinu?

Ef stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar sækjast fyrst og fremst eftir völdum skyldi maður ætla að þeir séu tregir til að framselja hluta af ríkisvaldinu til ríkjabandalags eins og Evrópusambandsins. Tapa þeir ekki hluta af áhrifum sínum við það?

Svarið við þessari spurningu er ef til vill ekki eins einfalt og lítur út fyrir við fyrstu sýn. Stjórnmálamaður sem vill breyta lögum í landi sínu þarf að fá meirihluta löggjafarsamkundunnar á sitt band. Hann þarf að taka þátt í rökræðu sem fer að mestu fram fyrir opnum tjöldum og getur haft áhrif á vinsældir hans meðal almennings. Ef hann stingur upp á nýmælum sem krefjast opinberra útgjalda þarf hann í flestum tilvikum að fá heila ríkisstjórn í lið með sér, a.m.k. forsætisráðherrann og fjármálaráðherrann. Þetta er erfitt og alltaf hætta á að málin snúist í höndunum á vesalings stjórnmálamanninum og hann falli neðar á framboðslista næst eða flokkurinn hans tapi fylgi. Lýðræðisleg stjórnmál eru erfið og sjálfsagt oft pirrandi.

Það er að ýmsu leyti þægilegra fyrir atvinnustjórnmálamenn að starfa á vettvangi Evrópusambandsins. Stór hluti af lögum þess er ákveðinn af 27 manna ráðherraráði. Umræður innan þess vekja litla athygli og það er auðveldara að sannfæra 26 kollega, sem líka eru á toppnum í stjórnmálum og skoða heiminn með augum valdsmanna, en heilt þjóðþing þar sem er alls konar lið og enginn friður fyrir fjölmiðlum.

Ráðherraráð Evrópusambandsins er fámennur hópur með mikil völd. Hvernig ráðherrarnir beita þessu valdi hefur að jafnaði lítil áhrif á úrslit kosninga í heimalöndum þeirra, þar sem kosið er um mál sem eru á valdi einstakra ríkja fremur en Evrópusambandsins.

Fyrir þá sem hafa náð langt í stjórnmálum og eru orðnir ráðherrar er Evrópusambandið tækifæri til að hafa meira vald en hægt er í venjulegu lýðræðisríki og innan ráðherraráðsins er hægt að beita valdinu án þess að eiga á hættu að missa það. Það er nefnilega svo merkilegt með Evrópusambandið, að þegar verk stjórnmálamanna eru lögð í dóm kjósenda í aðildarríkjunum, þá ber enginn neina ábyrgð á ákvörðunum þess.Lokað er fyrir ummæli.