Skoðanakannanir

Hvað ætli skoðanakannanir hafi mikil áhrif á niðurstöður kosninga? Getur verið að eitt af því sem ræður afstöðu almennings sé fréttir af tilraunum til að mæla hver þessi afstaða er? Það væri svona dálítið eins og ef hlutur breytti um þyngd í hvert sinn sem tilkynnt er hvað hann er þungur eða styttist og lengdist á víxl þegar tommustokkur væri borinn að honum.

Þegar fjölmiðlamenn ræða við frambjóðendur er oftar en ekki minnst eitthvað á niðurstöður kannana. Það er sagt eitthvað á borð við „Nú mælist þinn flokkur með lítið fylgi, hvernig skýrir þú það?“ Þetta er kannski ósköp eðlilegt. En það er samt undarlegt þegar umræða sem ætti að upplýsa kjósendur um hvers þeir mega vænta af stjórnmálamanni, ef hann nær kjöri, snýst aðallega um þá sjálfa, hversu líklegt sé að þeir kjósi viðkomandi.

Í fréttum af könnunum eru niðurstöðurnar oftast bornar saman við síðustu könnun á undan og sá sem hefur bætt við sig síðan þá gerður að sigurvegara. Núna áðan mátti til dæmis heyra frétt um að samkvæmt nýjustu könnun Gallup bæti Samfylkingin við sig þótt fækka mundi um 2 í þingflokki hennar ef úrslit kosninga á laugardaginn yrðu eins og könnunin bendir til. Í sömu frétt var rætt um að Sjálfstæðisflokkur væri að tapa þótt könnunin bendi til að þingmönnum hansi fjölgi um 3.

Hvað sem líður svona tali benda allar kannanir sem birst hafa undanfarna mánuði til þess að Sjálfstæðisflokkur og Vinstri-grænir komi betur út úr næstu kosningum en þeim síðustu en Framsóknarflokkur og Samfylking fái lakari útkomu.

Hugsanlega er hægt að skýra aukið fylgi vinstri grænna með auknum áhuga almennings á umhverfisvernd. Kannski hafa tengsl flokksins við villta vinstrið líka eitthvað að segja. Byltingarrómantík snertir taug í mörgum. Það er eitthvað heillandi við að trúa því að maður sé í liði með öllum þeim litlu og góðu á móti þeim stóru og vondu og upplifa sjálfan sig eins og hetju í ævintýri sem minnir svolítið á Hringadrottinssögu, nema hvað í stað hringvoma eru komnir auðhringar. Það er góð tilfinning að vera hetja og ef raunverulegar dáðir eru of erfiðar er hægt að láta hetjudrauma koma í staðinn. Þegar við þessa rómantík bætist að stór hluti kjósenda man ekki hvernig það er að búa við vinstri stjórn er kannski ekki að undra þótt allmarga langi að ganga inn í ævintýraheim vinstri grænna.

Á auknu fylgi Sjálfstæðisflokks hins vegar bara ein skýring sennileg. Menn vita hvers má vænta af honum.Ein ummæli við “Skoðanakannanir”

  1. Einar ritar:

    Auðhringvomar er fyrirbæri sem velta má fyrir sér