Sjálfstæðisflokkurinn - heilbrigðis- og félagsmál

Að kvöldi 1. maí fór ég á fund sem Sjálfstæðisflokkurinn á Akranesi hélt. Þar sátu formaður og varaformaður flokksins, þau Geir H. Haarde og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrir svörum. Húsfyllir var og góð stemming á fundinum.

Þau Geir og Þorgerður komu afar vel fyrir. Mál þeirra var laust við ódýr slagorð, klisjur og loforð um einfaldar lausnir. Þau eru yfir slíkt hafin og ræða málin af víðsýni og skynsemi.

Kosningarnar um næstu helgi snúast öðru fremur um hvort Sjálfstæðisflokkurinn verður áfram í stjórn og Geir Haarde forsætisráðherra. Skoðanakannanir benda til að um tveir þriðju landsmanna vilji að hann leiði næstu ríkisstjórn. Ég hugsa að hlutfallið sé talsvert hærra meðal þeirra sem hafa hlustað á hvernig hann og Þorgerður Katrín svara erfiðum spurningum.

Um þessar mundir mælist Sjálfstæðisflokkur með um það bil 40% fylgi en þeir sem vilja að hann sé í ríkisstjórn eru nær 65%. Aðeins um 20% landsmanna virðast kæra sig um vinstri stjórn. Þetta vekur spurningar um hvort flokkurinn hljóti ekki að eiga möguleika á að ná meira fylgi á næstu árum. Markmiðið hans hlýtur að vera hreinn þingmeirihluti.

Morgunblaðið hefur stundum talað fyrir því að flokkurinn auki fylgi sitt með því að færa stefnuna nær miðju. Ég held að þetta sé ekki nema hálfur sannleikur. Það er ekkert vit að hverfa frá frjálslyndri einstaklingshyggju til þess eins að auka kjörfylgi. Markmiðið er ekki að ná völdum heldur að bæta samfélagið og það verður ekki gert með því að skipta farsælli stefnu út fyrir fleiri atkvæði. Auk þess er hæpið að flokkurinn haldi öllum þeim fylgismönnum sem hann nú hefur ef hann víkur að ráði frá stefnu sinni.

En hugmyndin um að sækja inn á miðju er ekki alger della. Í hugum margra kjósenda eru Sjálfstæðismenn öðrum fremur færir um að fást við fjármál, atvinnumál, öryggis- og varnamál eða utanríkismál en síður líklegir til að vinna vel á sviði heilbrigðis-, velferðar- og félagsmála. Það styrkir þessa ímynd að samstarfsflokkur Sjálfstæðismanna í ríkisstjórn hefur séð um ráðuneyti félags- og heilbrigðismála. Fólk sem hefur mestan áhuga á þessum málaflokkum kýs Sjálfstæðisflokkinn því síður en þeir sem hafa einkum áhuga á atvinnu- og efnahagsmálum.

Ég held að næstu árin verði mörg af erfiðustu úrlausnarefnum í stjórnmálum á sviði félagsmála og heilbrigðismála. Það eru ýmsir vankantar á velferðar- og heilbrigðiskerfinu. Suma þeirra hefur Sjálfstæðisflokkurinn raunar bent á og sett fram hugmyndir um úrbætur. Hér vegur þyngst stefna hans í málefnum aldraðra sem mótuð var á síðasta landsfundi. En sum önnur vandamál eru óleyst. Eitt það versta er biðraðir í heilbrigðiskerfinu.

Mér finnst trúlegt að vænlegasta leiðin fyrir Sjálfstæðismenn til að ná fylginu upp í 45% eða 50% sé að sýna hvers frjálslynd einstaklingshyggja er megnug í velferðar- og heilbrigðismálum. Rætt hefur verið um að flokkurinn þurfi að fá heilbrigðisráðuneytið í næstu ríkisstjórn. Kannski ætti hann að stjórna bæði heilbrigðisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti. Með farsælli stjórn þeirra mála næstu fjögur ár gæti hann náð enn betri árangri í kosningum 2011.Lokað er fyrir ummæli.