Kaffibandalag og lýðræði

Eins og ríflegur meirihluti landsmanna er ég nokkuð ánægður með hvernig landinu hefur verið stjórnað undanfarin ár. Auðvitað er ekki allt sem stjórnvöld hafa gert jafngott en flest það mikilvægasta sem heyrir undir landsstjórnina hefur þokast í rétta átt og sumt raunar hraðar en dæmi eru til um frá fyrri tímum. Það hlakkar því í mér eins og fleirum þegar líkurnar á að stjórnarandstaðan taki við völdum minnka dag frá degi og vandræðagangur kaffibandalagsflokkanna verður stöðugt augljósari. Tilraunir þeirra til að garga upp hneyksli renna út í sandinn hver af annarri.

Það sem var úthrópað sem skattahækkun var lækkun, meintur himinhrópandi ójöfnuður reyndist þegar að var gáð einhver sá minnsti í Evrópu og fólk er farið að sjá í gegnum froðusnakkið um að stóriðjustopp sé leið til að byggja upp hátæknisamfélag eða afnám kvótakerfisins til hagsbóta fyrir sjávarpláss út á landi. Það er engin sannfæringarkraftur í þessum slagorðum enda trúir þeim varla nokkur maður.

En þó það sé hægt að hlakka yfir ruglinu í stjórnarandstöðunni er það alvarlegt mál þegar heilu flokkarnir buna út úr sér upphrópunum og stóryrðum svo málflutningur þeirra minnir meira á DV en alvarlega umræðu. Lýðræðið þarf á rökræðu að halda og samsæriskenningar, vaðall og tilraunir til múgæsinga eru ekki leiðin til að byggja upp lýðræðislega stjórnarhætti og viðhalda þeim.Lokað er fyrir ummæli.