Hverjir eru íhald? Hugleiðing um grein eftir Þorvald Gylfason

„Misheppnuð sameining“ er fyrirsögn greinar eftir Þorvald Gylfason sem birtist á bls. 28 í Fréttablaðinu þann 3. maí. Þessi grein er kannski bara enn ein örvæntingarfull tilraun Samfylkingarmanna til að segja eitthvað og vekja á sér athygli í þeirri von að fá aðeins fleiri atkvæði eftir viku. En Þorvaldur vekur samt máls á merkilegu umhugsunarefni, sem er hvar íhaldssemin á helst ítök hér á landi.

Hann minnir á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi orðið til með samruna Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins árið 1929. En ályktunin sem hann dregur af þessari gömlu sögu er afar undarleg. Hann heldur því fram að frjálslynd öfl hafi ekki náð að njóta sín hér á landi vegna þess að íhaldsarmur í Sjálfstæðisflokknum hafi undarokað þau í hartnær 80 ár.

Ég veit ekki hvernig hann skýrir það að Ísland er með frjálsmannlegustu samfélögum í veröldinni. Hann heldur kannski að það sé Samfylkingunni að þakka. Sannleikurinn er einfaldlega sá að þótt annar þeirra tveggja flokka sem mynduðu Sjálfstæðisflokkinn á sínum tíma hafi heitið Íhaldsflokkur þá er Sjálfstæðisflokkurinn ekki sérlega íhaldssamur flokkur.

Hugmyndafræði allra íslensku stjórnmálaflokkarna er einhvers konar blanda af frjálshyggju, jafnaðarstefnu og íhaldssemi. En mér er nær að halda að Sjálfstæðisflokkurinn sé sá flokkur þar sem hreinnar og klárrar íhaldssemi gæti hvað minnst.

Íhaldssemi á sér margar birtingarmyndir. Hér eru nokkur dæmi:

  1. Viðleitni til að sporna gegn breytingum á hugsunarhætti og menningu (t.d. með því að takmarka aðgang almennings að erlendum tískustraumum og fjölmiðlum eða hefta straum útlendinga til landsins);
  2. Áhersla á mikilvægi hefðbundinna trúarbragða, gildismats og lífshátta sem þau boða (þetta birtist sums staðar í andstöðu gegn kvenréttindum og réttindum samkynhneigðra);
  3. Varðstaða um sérréttindi eða mismunun og hugmyndafræðileg réttlæting á stéttaskiptingu;
  4. Andstaða gegn markaðsbúskap og opinberum velferðarkerfum.

Ekki þarf að horfa lengi á þennan lista til að átta sig á að ef þetta eru helstu einkenni íhaldssemi þá eru til miklu íhaldssamari flokkar en Sjálfstæðisflokkurinn. Ekki var það hann sem beitti sér gegn frjálsri fjölmiðlun og aðgengi Íslendinga að erlendum ljósvakamiðlum og ekki er hann að amast við því þótt fólki flytji til landsins (liður 1).

Margir Sjálfstæðismenn eru trúaðir en þeir skera sig ekki úr fyrir þá sök. Trúarbrögð eiga ítök í fólki hér á landi óháð því hvaða flokk það styður, en trúarlegt íhald sem birtist t.d. í andstöðu gegn hjónaböndum samkynhneigðra er ekki einkenni á Sjálfstæðisflokknum (liður 2).

Hvað varðar varðstöðu um mismunun (liður 3) þá hafa Sjálfstæðismenn haft forystu um að draga úr völdum embættismanna yfir almenningi og að tryggja jöfn réttindi allra m.a. með stjórnsýslulögunum frá árinu 1993, upplýsingalögunum frá 1996, lögum um umboðsmann Alþingis frá 1997 og lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga frá árinu 2000.

Um andstöðu gegn markaðsbúskap þarf ekki að fjölyrða. Hún er hjá öllum öðrum flokkum en Sjálfstæðisflokki. Um velferðarkerfið gegnir öðru máli. Um það er samstaða í öllum flokkum og þar sker Sjálfstæðisflokkurinn sig ekki úr á annan hátt en þann að vera einn flokka fær um að halda þannig á ríkisfjármálum að hægt sé, a.m.k. svona nokkurn veginn, að reka það velferðarkerfi sem nær allir landsmenn eru einhuga um.Lokað er fyrir ummæli.