Byggðastefna

Nú hafa frambjóðendur í öðru sæti á listum beggja ríkisstjórnarflokkanna á Suðurlandi lýst stuðningi við gerð jarðgangna til Vestmannaeyja. Þetta á ekki að verða einkafyrirtæki sem nær inn kostnaði með vegtolli eins og gert er í Hvalfjarðargöngum. Mér skilst að ríkið eigi að borga brúsann og það sé rökstutt með því að það kosti á endanum minna að bora göng fyrir 25 milljarða en að eyða milljarði á ári í að niðurgreiða samgöngur við Heimaey.

Eyjamenn eru eitthvað innan við 5000 talsins. 25 milljarðar eru þá rúmar 5 milljónir á mann þar eða eitthvað yfir 20 milljónir á hverja 4 manna fjölskyldu. Milljarður á ári er rúmar 200 þúsund krónur á mann. Þessar upphæðir vekja spurningar um hvað byggðastefna má kosta.

Hvernig mannfólkið raðar sér á sveitir og staði ræðst að verulegu leyti af efnahagslegum ástæðum. Flestir planta sér niður þar sem er þokkalega hagkvæmt fyrir þá að vera. Fyrr á öldum þegar landsmenn lifðu á frumstæðum landbúnaði og veiðum á smábátum, sem aðeins sóttu stutt frá landi, þá var hagkvæmt fyrir fólk á dreifa sér sem mest til að nýta beitiland og fiskislóð. Nú er öldin önnur. Sjálfsþurftabúskapur er að heita má úr sögunni og sjávarútvegur gerbreyttur svo engu munar að sigla langan veg á miðin.

Atvinnuvegir nútímans eru með þeim hætti að það er heppilegt fyrir flesta að búa í þéttbýli og fyrir vikið fækkar ungu fólki í dreifbýli og fyrirsjáanlegt er að fjöldi bæja á landinu fari í eyði á næstu mannsöldrum. Á að fresta þessari þróun með því að ríkið borgi fólki fyrir að vera um kyrrt á einhverjum stöðum eins og í Heimaey? Væri ekki gáfulegra að hætta allri þessari dýru byggðastefnu og leyfa búsetu bara þróast í takt við breytta tíma?

Það sem veldur mestu um flutning ungs og menntaðs fólks á suðvesturhornið er ekki lélegar samgöngur annars staðar og ekki heldur skortur á ríkisstyrkjum í alls konar verkefni á landsbyggðinni. Meginástæðan er einfaldlega betri menntun. Ég á ekki bara við það að menntað fólk vilji frekar búa í þéttbýli. Ég á fyrst og fremst við að aukin menntun helst í hendur við aukna sérhæfingu á vinnumarkaði og fólk hefur enn þá áráttu að mynda pör.

Í gamla daga þegar afi og amma leituðu að vinnu leituðu þau að verkamannavinnu en ekki sérhæfðum störfum. Trúlega voru þau til í að setjast að hvar sem var þörf fyrir fjórar vinnufúsar hendur. Flest ung pör sem nú leita að vinnu leita að sérhæfðu starfi. Hugsum okkur til dæmis að sjúkraþjálfari giftist þýskukennara og grafískur hönnuður taki saman við lögfræðing og þessi tvö pör fari að leita að vinnu. Það er vel líklegt að einhvers staðar á fámennum stað vanti þýskukennara og ekkert fráleitt að einhver stofnun úti á landi þurfi sjúkraþjálfara í vinnu. En hvað eru miklar líkur á að í fámennri byggð losni samtímis starf fyrir sjúkraþjálfara og þýskukennara, eða lögfræðing og grafískan hönnuð? Næstum engar. Þessi tvö pör munu nokkuð örugglega þurfa að velja milli þess að halda sig við þéttbýli eða sætta sig við að annað hjóna fái ekki starf við sitt hæfi.

Meðan menntamenn giftast menntamönnum munu þeir sækja úr dreifbýli í þéttbýli. Byggðarlög án menntaðs fólks dragast aftur úr í hagþróun. Ef menn vilja (af einhverjum ástæðum sem ég ekki skil) að Íslendingar haldi áfram að raða sér kringum landið í sömu hlutföllum og 1950 (eða 1850 … eða 1250) ættu þeir frekar að eyða 25 milljörðum í hjúskaparmiðlun sem stuðlar að því að sérhæft fólk giftist ófaglærðu heldur en að bora jarðgöng fyrir sömu upphæð. Raunar er hæpið að litlir 25 milljarðar dugi (en þeir duga svo sem heldur ekki til að reka göngin, varla nema rétt til að bora þau). Það þarf gott betur eigi að kaupa fólk til að ráðahag sínum. En hvað um það? Byggðastefnumenn vita manna best að skattgreiðendur hafa djúpa vasa.2 ummæli við “Byggðastefna”

  1. Ásgeir H ritar:

    Það virðist einmitt eitthvað verið að bregðast við þessu útá landi. Í vetur auglýstu ýmis fyrirtæki og stofnanir á Sauðárkróki sameiginlega laus störf í bænum og núna gerði Ísafjörður hið sama, slíkt gæti í rauninni verið frábær leið bæði til þess að laða til sín ung pör sem langar að flytja út á land og eins til þess að fá aftur heim gamla Skagfirðinga/Ísfirðinga sem eru að hugsa um að flytja heim en vita ekkert hvað þeir geta gert þar.

  2. Atli ritar:

    Ég býst við að þetta sé að einhverju marki hægt á Sauðárkróki en varla á mikið minni stað. Þar sem er t.d. heilsugæsla, framhaldsskóli og nokkur stór fyrirtæki sem þurfa fólk með tækni og viðskiptamenntun eru nokkrar líkur á að samtímis losni tvö störf fyrir fólk með mikla menntun og til séu pör sem passa í störfin. Þetta breytir þó ekki meginástæðunni fyrir flutningi á suðversturhornið sem er að ef langskólagengið par úr Skagafirði leitar að vinnu eru líkurnar á að bæði finni starf á Akureyri mun meiri en að störf fyrir bæði bjóðist á Króknum og líkurnar á að þau endi í Reykjavík miklu meiri.