Dimission og fréttir um ný framhaldsskólalög

Í dag var dimission í skólanum. Ég tók fáeinar myndir af útskriftarnemum í sjóliðabúningum. Tvær eru komnar á Flickr. Það er annars merkilegt hvað afgamlar hefðir úr embættismannaskólum fyrri alda, eins og dimission og busavígsla, eru lífseigar í alþýðuskólum nútímans. Þótt krakkarnir haldi að dimission (sem merkir brottfararleyfi) heiti „dimmisjó“ eða jafnvel „dimmushow“ kemur ekki annað til greina en að nota þessa gömlu latínuslettu í einhverri mynd. En ólíkt kynni ég nú betur við að kalla þetta t.d. „lokahóf“ eða „kveðjuhóf .“

Undanfarið hafa borist fréttir af undirbúningi nýrra laga um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Ég hef ekki lagt mig eftir vitneskju um innihald nýrra leikskóla- og grunnskólalaga en hlustað eftir því sem sagt er um væntanleg framhaldsskólalög.

Mér skilst að í ráði sé að auka talsvert sjálfstæði framhaldsskóla til að setja sér eigin námskrá. Vonandi gengur það eftir. En lög sem tryggja sjálfstæði skóla í námskrármálum munu þó að mínu viti ekki verða til mikils góðs nema jafnframt séu settar skynsamlegri reglur um fjárveitingar til skólanna. Eins og er fá skólar greitt í hlutfalli við fjölda eininga sem nemendur gangast undir fullnægjandi námsmat í. Þetta fyrirkomulag þýðir að skóli græðir tvöfalt meira á að láta nemanda taka tvo létt áfanga en einn þungan (að því gefnu að allir áfangarnir séu jafnmargar einingar). Það er fjárhagslegur ávinningur að því fyrir skóla að laða til sín nemendur með aðferðum sem eru óverjandi frá uppeldilegu sjónarmiði, t.d. með því að slá af námskröfum.

Ef sama kerfi verður á fjárveitingum og allt verður gefið frjálst í námskrármálum verður enn auðveldara en nú er að keyra nemendur gegnum fleiri einingar án þess að leggja á þá mikla vinnu. Þótt samviskusemi kennara og gamalgrónar skólahefðir séu einhver fyrirstaða sýnist mér að núgildandi reglur um skiptingu fjár úr ríkissjóði milli framhaldsskóla séu þegar teknar að grafa undan metnaðarfullri kennslu. Hætt er við að algert frelsi stofnana til að haga kennslu þannig að magn eininga aukist (og þar með innstreymi úr ríkissjóði) með lágmarksfyrirhöfn og kostnaði flýti þessari öfugþróun ef ekki verður gerð breyting á því hvernig ríkið úthlutar fé til skóla.Lokað er fyrir ummæli.