Bók um pyrrhonisma og fundatörn gærdagsins

Síðasta helgi var löng því starfólk skólans vann af sér föstudaginn og fimmtudagurinn var frídagur. Þá var haldið upp á sumarkomu. Ég notaði hluta tímans til að raða saman köflum um pyrrhonisma sem ég hef verið að skrifa undanfarin ár. Þeir eru smám saman að taka sig mynd og verða að bók. Ég veit ekki hvenær ég klára hana en það verður vonandi innan árs. Það er mál til komið að dusta rykið af þessari 23 alda gömlu heimspekistefnu.

Gærdagurinn var næstum eins langur og helgin á undan. Vinnan byrjaði klukkan 8 á samstarfsnefndarfundi sem gekk svo sem ljómandi vel og við gengum frá samkomulagi um launabreytingar hjá kennurum sem taka gildi 1. maí. Næsti fundur var svo í Reykjavík þar sem stjórnendur Fjölbrautaskólanna á Akranesi, Suðurnesjum, Selfossi og Grundarfirði komu saman til að ráða ráðum sínum eins og þeir gera jafnan nokkrum sinnum á ári. Það er gott að hitta þetta fólk enda er það að fást við svipuð vandamál í svipuðum stofnunum og hefur oft gagnleg ráð.

Seinnipartur gærdagsins fór svo í fund í Félagi íslenskra framhaldsskóla þar sem meðal annars var rætt um fyrirhugaðar breytingar á lögum um framhaldsskóla. Ég held að næstum allir skólastjórendur sem þarna voru voni að breytingarnar gangi í gegn og skólarnir fái aftur frelsi til að setja sér námskrár í samræmi við aðstæður á hverjum stað og þarfir nemendahópsins. Andinn í tillögunum sem liggja fyrir er að draga úr miðstýringu og auka sjálfstæði skóla. Þetta er afar þarft enda er 7 ára reynsla af því að láta menntamálaráðuneyti og starfsgreinaráð setja skólunum smásmugulegar og ítarlegar námskrár ekki mjög góð.

Fundatörn gærdagsins lauk klukkan rúmlega 22 þegar aðalfundi foreldrafélags Brekkubæjarskóla var slitið. Ég mætti þar, líklega í síðasta sinn, því Vífill lýkur tíunda bekk í vor. Á fundinum voru rúmlega 20 foreldrar mættir af nokkur hundruð. Kannski voru allir hinir að mótmæla smeðjulegum vaðlinum í frambjóðendum um að börnin séu það mikilvægasta sem við eigum og menntamál séu mál mála. Kannski gátu þeir ekki slitið sig frá sjónvarpinu. Kannski nenntu þeir bara ekki út eftir langan vinnudag. Allt þetta getur svo sem verið en trúlegasta skýringin á þessari litlu fundarsókn er nú samt trúlega að hér á Skaganum hafa foreldrar frekar litlar áhyggjur af skólagöngu barna sinna sem skýrist að nokkru af því að hlutirnir eru í þokkalega góðu lagi.Lokað er fyrir ummæli.