Gleðilegt sumar - þjóðareign, landgræðsla og olíuhreinsunarstöð

Fyrir nokkrum vikum síðan kom út bók sem heitir Þjóðareign og inniheldur greinar eftir nokkra valinkunna lögfræðinga og hagfræðinga. Undirtitill bókarinnar er Þýðing og áhrif stjórnarskrárákvæðis um þjóðareign á auðlindum sjávar. Útgefandi er bókaforlagið Ugla í samvinnu við Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál. Ég las þessa bók nýlega og varð ekki fyrir vonbrigðum. Loksins er fjallað af yfirvegun, skynsemi og þekkingu um það mikla deilumál í stjórnmálum síðustu 30 ára sem kvótakerfið er.

Þessi bók er ef til vill allt of góð til að hafa mikil áhrif. Í henni eru engin krassandi slagorð, engar hástemmdar yfirlýsingar eða heimsendaspár og ekki flettir hún ofan af óréttlæti heimsins. Höfundar skýra málin einfaldlega þannig að lesandi sér að lítil innistaæða er fyrir öllum stóryrðunum um fiskveiðistjórnunarkerfið. Það var og er skásta lausnin á erfiðum vanda og hefur átt verulegan þátt í að bæta afkomu útgerðar og um leið landsmanna allra.

Fyrst ég er byrjaður að hrósa því sem ég hef verið að lesa má ég til að nefna grein eftir Herdísi Þorvaldsdóttur á bls. 39 í Morgunblaðinu í dag. Þar minnir hún á það, sem liggur svo sem í augum uppi, að mikilvægasta viðfangsefnið í náttúruvernd hér á landi er landgræðsla og stöðvun landfoks. Menn gera meira gagn með því að planta trjám og sá melgresi eða lúpínu heldur en með æsingi yfir virkjunum og álverum. Ég vil að minnsta kosti frekar búa í landi sem er viði vaxið og vel gróið með uppistöðulón og stórfyrirtæki á stangli en í örfoka eyðimörk.

Vatnsaflsvirkjanir og álver eru tiltölulega umhverfisvæn atvinnustarfsemi og fara trúlega betur með landið en t.d. ferðaþjónusta eða landbúnaður. Álver eru a.m.k., eftir því sem ég best veit, miklu betri kostur en olíuhreinsunarstöðvar. Mér finnst sú hugmynd að reisa svoleiðis fyrirtæki á Vestfjörðum ansi glannaleg, ekki bara vegna mengunar sem fylgir framleiðslunni heldur ekki síður vegna slysahættu. Eigi að flytja olíu í stórum stíl um þessar slóðir þar sem stundum er hafís og oft geisa stórviðri en hætt við slysum þar sem skipsfarmar af olíu lenda í sjó og við strendur með skelfilegum afleiðingum.4 ummæli við “Gleðilegt sumar - þjóðareign, landgræðsla og olíuhreinsunarstöð”

 1. Gunnar ritar:

  Ég velti fyrir mér hvort það fólk sem mætir í tjaldbúðir við Kárahnjúka til að mótmæla virkjunum hafi ekki líka blendnar skoðanir á landgræðslu. Í henni felst inngrip í náttúruna. Við komumst reyndar ekki hjá inngripi í náttúruna með því einu að vera til.

  Ef í ljós kæmi að hægt væri að ná gríðarlegum árangri í landgræðslu með plöntu sem ekki tilheyrir flóru Íslands í dag, þá hugsa ég að margir myndu setja sig upp á móti því.

 2. Atli ritar:

  Sama má segja um allt sem til verulegra framfara horfir - það eru og verða til afturhaldsöfl sem beita sér gegn því. Til eru baráttusamtök sem vinna gegn því að börn séu bólusett við lífshættulegum sjúkdómum og hugsjónamenn sem eru móitfallnir hagvexti og hér á landi eru einhverjar hræður sem amast við lúpínu. Það er til ótrúlega galið fólk.

 3. Atli Hraunfjörð ritar:

  Ef þetta dugar til að leggja orð í belg verð ég ánægður. Heimurinn fékk að vita í gær að einn skrautlegasti þjóðhöfðingi rússa væri allur. Áður en hinn venjulegi borgari sovétanna var búinn að telja upp að 10. var búið að stela flestum verksmiðjum og helstu auðlindir sovétana. Á sama tíma og kommarnir stálu auðlindunum stálu hinir íslensku kommar og nánast gáfu. Auðugum vinum og enn er verið að færa í stílinn. Bankarnir, atvinnutengdir sjóðir, Símafyrirtækin og fiskinn. Á borðinu eru næstu gripdeildir svo sem Rarik, landsvirkjun, vatnið og Hálendið. Fyrir 16 árum var ég ríkur eins og þjóðin, en núna er jég fátækur eins og þjóðin. ég hugsa til þess með hryllingi að ég verði að búa við það næstu 4. restin af auðæfum þjóðarinnar verði stolin og gefin nánast eins og í Sovétunum.

 4. Atli ritar:

  Ég votta nafna mínum samúð. Illt hvernig hann hefur verið féflettur. Kannski betra að vera bara í mínum sporum sem hef aldrei átt hvorki hálendi, símafyrirtæki né fiskimið.