Hvað vill almenningur?

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag segir frá skoðanakönnun þar sem í ljós kom að rúmlega tveir þriðju hlutar landsmanna vilja helst að næsta ríkisstjórn verði samstjórn Sjálfstæðisflokks og eins annars. Af þessu virðist blasa við að meirihluti landsmanna vilji að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram forystuflokkur í ríkisstjórn. Þetta kemur mér svo sem ekki á óvart. Allir kostir á ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokks eru afleitir.

En þótt mjög mikill meirihluti virðist vilja að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram í stjórn benda niðurstöður annarra kannana og yfirlýsingar frambjóðenda til að kosningar geti farið svo að mynduð verði stjórn án Sjálfstæðisflokks. Mundi það þýða að úrslit kosninga yrðu andstæð vilja tveggja þriðju hluta kjósenda? Ef menn halda að til sé eitthvað sem hægt er með réttu að kalla vilja meirihlutans hljóta þeir að álykta sem svo.

En hugtakið „vilji meirihlutans“ er vandræðagripur eins og sést t.d. ef við hugsum okkur að kjósendur skiptist í þrjá jafnstóra flokka, vinstrimenn (V), miðjumenn (M) og hægrimenn (H) þar sem:

Vinstri- og miðjumenn eru sammála um að vilja frekar samstjórn V+M en M+H.
Miðju- og hægrimenn eru sammála um að vilja frekar M+H en V+H.
Vinstri- og hægrimenn eru sammála um að vilja frekar V+H en V+M.

Undir þessum kringumstæðum vill meirihlutinn (þ.e. tveir þriðju) frekar fá V+M en M+H, frekar fá M+H en V+H og frekar fá V+H en V+M. Forgangsröðin er því

V+M
M+H
V+H
V+M

Vinstri stjórn (þ.e.a.s. samstjórn vinstri og miðjuflokks) er bæði efst og neðst á óskalista þessarar ímynduðu þjóðar. Ef marka má skoðanakannanir er eitthvað líkt komið fyrir Íslendingum. Kannanir sýna að meirihlutinn vill vinstristjórn síst af öllu. Samt ætlar um helmingur að kjósa flokka sem eru vísir til að reyna að mynda vinstristjórn.

Ef menn trúa því á annað borð að til sé einhver almannvilji þá ættu þeir kannski að líta svo á að hann sé galinn og vilji sama hlut bæði helst af öllu og síst af öllu.Ein ummæli við “Hvað vill almenningur?”

  1. Gautam Asaf ritar:

    cuz we both thought,that love last foreve. Gautam Asaf.