Dagurinn

Í dag var venjulegur laugardagur. Ég vaknaði seint, drakk kaffi og las blöðin. Mér þótti grein Guðna Elíssonar í Lesbók Morgunblaðsins ansi góð. Hún heitir „Það ætti að skera af þér hausinn“ og fjallar um alla þá illmælgi sem fólk skrifar á bloggsíður og spjallþræði. Guðni fann að því hvernig fjölmiðlar tengjast þessum vettvangi fyrir nafnlaust níð. Hann nefndi þó ekki Barnaland sem Morgunblaðið heldur úti. Óljúgfróðir hafa tjáð mér að þar séu sögð ljótari orð en svo að eftir sé hafandi.

Ég veit ekki hvort blogg hefur neina afgerandi sérstöðu hvað varðar ábyrðarlaust kjaftæði, illmælgi og slúður. Svoleiðis tal er því miður út um allt. En eins og Guðni, kann ég heldur illa við dóma um menn og málefni sem eru birtir án þess höfundur láti nafns síns getið. Mér er  alveg sama hvort þeir heita t.d. Staksteinar og eru prentaðir í blað eða „komment“ og eru birtir á bloggsíðum.

En áfram með venjulega laugardaginn. Ég fór á smáflakk með myndavélina. Skrapp að Innra–Hólmi og smellti nokkrum myndum af hálfhrundum kofa og hrossum sem ég sá á leiðinni. Ein er komin á Flickr og fleiri birtast á næstunni.

Seinnipartur dagsins fór svo í húsverk sem við Harpa skiptum á milli okkar og nú er komið kvöld og ég sestur við að blogga.Lokað er fyrir ummæli.